Undanfarin ár hefur rutt sér til rúms tónlist sem sumir kjósa að kalla nútímaklassík, þar sem rokktónlistarmenn snúa sér að því að skapa annars konar tónlist en þeir eru þekktastir fyrir, taka að beita tónfræðum og viðlíka við tónsköpun. Í slíkri músík nota menn oft hljóðfæri sem helst eru þekkt af samneyti við klassíkina, strengjahljóðfæri, konsertpíanó og blásturhljóðfæri, en flétta líka saman við það fyrirbærum úr rokkinu eins og hljóðsmala og öðrum tölvubúnaði, klifun og snarstefjun.
Undanfarið hafa tónlistarmenn eins og Max Richter, William Basinski, Jóhann Jóhannsson og Ólafur Arnalds getið sér gott orð fyrir nýklassík af þessu tagi og þeir eru fleiri sem fetað hafa þessa slóð, til að mynda þýski píanóleikarinn Volker Bertelmann sem tók sér listamannsnafnið Hauschka. Bertelmann hefur gefið út undir nafninu Hauschka í nokkur ár. Hann hóf píanónám barnungur og stefndi að því alla tíð að verða konsertpíanisti þar til hann komst í tæri við rokk og hipphopp og í upphafi tíunda áratugarins var hljómsveit sem hann var í sem rappari og söngvari, God's Favorite Dog, komin á plötusamning. Hann lýsir því svo að honum hafi fljótlega farið að leiðast að vera sífellt að gera það sama og þegar hann áttaði sig á því að eftirpartíið var skemmtilegara en tónleikarnir hætti hann í poppinu.
Í framhaldi af því byrjaði hann að semja lög sem brutu af sér takmarkanir poppsins hvað varðaði lengd og uppbyggingu og hann sneri sér að píanóinu að nýju til að flytja þau lög. Að þessu sinni fór hann að fordæmi John Cage og afstillti þar, ef svo má segja, fór að nýta allskyns aukahluti til að breyta hljómi píanósins, setja aðskotahluti á milli strengja og ofan á þá; fleyga úr leðri og flaueli, korktappa, pappírsvafninga, plastperlufestar, klemmur, skrúfur og hvaðeina.
Framan af var það allmikið mál fyrir hann að koma hverju píanói í rétt ástand fyrir tónleika, en núorðið segist hann leyfa tilviljun að ráða að miklu leyti; hann kemur með sitthvað með sér til að breyta píanóhljómnum, en líka grípur hann það sem hendi er næst, það sem hann rekst á vettvangi eða áheyrendur færa honum, eitthvað sem hann finnur í hótelherbergi, verslun fyrir utan tónleikastaðinn eða inni í salnum sjálfum og fyrir vikið segir hann að hverjir tónleikar séu ekki síður ævintýri fyrir sig en þá sem hlusta.
Fyrsta breiðskífan sem Bertelmann gaf út sem Hauschka var Substantial, sem Karaoke Kalk gaf út 2004. Árið 2006 samdi hann síðan við undirmerki Fat Cat útgáfunnar, 130701 en fyrsta plata hans hjá Fat Cat var Room To Expand, sem kom út í ársbyrjun 2007. Í framhaldi af útgáfu hennar fór hann í mikla tónleikaferð um Bretland og síðan til Bandaríkjanna þar sem hann hitaði upp fyrir múm, en eftir því var tekið að á fyrstu tónleikum hans þar vestra seldist upp allur varningur sem hann hafði ætlað að selja á ferðinni allri.
Hylling fjallaþorps
Á Room To Expand og öðrum plötum sem Hauschka hafði sent frá sér fram að þessu var píanóleikur hans í aðalhlutverki og þá spilað á breytt píanó. Á plötunni Ferndorf, sem kom út í september sl., kvað við nýjan hljóm því Hauschka fékk til liðs við sig strengjatvíeyki sellóleikaranna Insa Schirmer og Donja Djember. Sú fyrrnefnda var sellókennari dóttur hans og hann lýsir því svo að þegar hann hafi heyrt disk sem þær Schirmer og Djember höfðu tekið upp saman hafi hann áttað sig á því að þær voru að gera það sama og hann, bara á annars konar hljóðfæri.Samstarf Hauschka og sellóleikaranna hófst svo með því að þau fengu léðan tónleikasal í Düsseldorf léku þar af fingrum fram í tvo daga og tóku upp jafnharðan. Úr því urðu 45 lög og fimm þeirra rötuðu á Ferndorf, sem Hauschka segir að sé að mestu hylling fjallaþorpsins sem hann ólst upp í í norðurhluta Þýskalands, enda dregur skífan nafn sitt af heiti þess.
Í janúar sl. kom svo út platan Snowflakes and Carwrecks, sjö laga stuttskífa með lögum sem urðu til í upptökulotunni fyrir Ferndorf og því eins konar framhald hennar, spunakennd framsækin tónlist sem kalla má nútímaklassík.
Stökkbreytt píanó
PÍANÓBREYTINGAR eins og þær sem Hauschka stundar og felast í því að píanóið er „stillt“ upp á nýtt hafa lengi tíðkast. Þannig eru heimildir fyrir því allt frá fyrstu dögum píanósins í upphafi átjándu aldar og allt frá tuttugustu öld þegar Erik Satie og Heitor Villa-Lobos sömdu verk fyrir píanó þar sem pappír var notaður til að breyta hljómi hljóðfærisins. Upphafsmaður slíkra skipulegra tilrauna á okkar tímum er þó gjarnan talinn Henry Cowell sem var síðan John Cage innblástur og hann mótaði hefðina og hafði áhrif á ótal aðra.Cage sá það fyrir sér að með því að sýsla svo með píanóið væri hann að breyta því í slagverkshljóðfæri og ýmsir hafa farið álíka leið, ýmist með því að bæta teiknibólum í hamrana til að ná fram hvellari hljóm líkt og Lou Harrison eða með því að nýta pappír og allskyns aukahluti til að ná fram fjölbreyttari hljóm líkt og Arvo Pärt og Edison Denissow.
Slíkar píanóbreytingar hafa líka verið nýttar á öðrum sviðum tónlistar og sem dæmi um það má nefna Fritz Schulz-Reichel sem sló í gegn á sjötta áratugnum sem ragtime-tónlistarmaðurinn Schräger Otto og eins varð útgáfa The Flying Lizards „Money (That's What I Want)“ vinsæl á níunda áratugnum, en í því lagi var breytt píanó notað.
Nefna má að bandaríski píanóleikarinn Margaret Leng Tan, sem starfaði mikið með John Cage, hélt tónleika á Kjarvalsstöðum fyrir fjórum árum og lék þá á breytt píanó og leikfangapíanó.
Árni Matthíasson