Guðjón Jóhannesson fæddist á Brekkum í Mýrdal 30. nóvember 1922. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 27. mars 2009 og var jarðsunginn frá Háteigskirkju 3. apríl.

Í dag kveð ég tengdaföður minn og góðan vin, Guðjón Jóhannesson. Við kynntumst fyrst fyrir meira en 33 árum þegar ég fór að venja komur mínar í Bogahlíð að draga mig saman við elztu dóttur hans. Að sjálfsögðu var maður í fyrstu svolítið feiminn við föður kærustunnar sinnar en við kynntumst fljótt og urðum góðir vinir.

Guðjón var ákaflega hæglátur og kurteis maður og sérlega greiðvikinn. Það var því ósjaldan sem maður leitaði til hans þegar eitthvað þurfti að gera við fjölskyldubílinn, sérstaklega á fyrstu búskaparárunum og bílarnir ekki þeir nýjustu og beztu. Þá lét hann sig ekki vanta þegar flutningar, framkvæmdir eða þess háttar stóð fyrir dyrum. Ævinlega boðinn og búinn að hjálpa þegar svo bar undir og átti jafnvel til að mæta óumbeðinn og tilbúinn að taka til hendinni.

Guðjón mundi tímana tvenna. Hann fæddist og ólst upp á Brekkum í Mýrdal. Hann var aðeins 11 ára þegar faðir hans féll frá og eftir stóð móðir hans, ekkja með 12 börn á framfæri. Guðjón ólst því upp við frekar kröpp kjör og fór ungur til vandalausra í kaupavinnu. Fyrir ekki löngu sagði hann mér að sárast hefði sér þótt að sú takmarkaða skólaganga sem bauðst í sveitinni á þeim tíma varð enn minni og stopulli hjá honum en til stóð vegna þessara aðstæðna. En því fór fjarri að Guðjón bæri tilfinningar sínar á torg.

Eins og sagði áðan tókst ágæt vinátta með okkur Guðjóni. Við ferðuðumst þó nokkuð saman og mér eru minnisstæð ýmis ferðalög, s.s. siglingar með Norrænu, ferðir í Mýrdalinn og síðasta ferðalag okkar saman til Kaupmannahafnar árið 2003.

Guðjón vann lengst af sem bifvélavirki hjá Ræsi hf. og var af ýmsum þekktur sem Gaui í Ræsi. Í starfi mínu sem leiðsögumaður hefur það oft komið fyrir að ég hef lent á tali við hópferðabílstjóra og þegar það hefur komið upp úr dúrnum að ég sé tengdasonur hans Gauja í Ræsi hef ég einatt uppskorið aukna vinsemd og virðingu fyrir.

Lengst af bjuggu Guðjón og Katrín í Bogahlíð 14 og eftir að Katrín lézt bjó Guðjón þar einn þar til að hann, fyrir nokkrum árum, keypti íbúð í Sóleyjarima, svo til í næsta húsi við okkur hjónin. Það var gott að vita af Guðjóni í nágrenninu og það leið varla sá dagur, meðan hann bjó þar, að hann labbaði ekki yfir til okkar og eyddi með okkur kvöldstund.

Síðustu árin sem Guðjón lifði var hann sjúklingur og bjó á hjúkrunarheimilinu Eir. Þar naut hann einstakrar umönnunar, sem ber að þakka fyrir.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Guðjóni Jóhannessyni. Ég tel mig ríkari mann fyrir vikið og ég óska tengdaföður mínum velfarnaðar á nýrri vegferð hans.

Emil Örn Kristjánsson.

Elsku afi, þá ertu farinn frá okkur og minningarnar hrannast upp. Ég man þegar ég var stelpa og þú varst með kartöflugarð uppi við Korpúlfsstaði, ég man þegar við tókum upp kartöflurnar og aðalsportið var að komast heim í Bogahlíðina og borða smælkið með hýðinu og dýfa því í feiti. Það var líka alltaf gaman að heimsækja þig í vinnuna í Ræsi og þú áttir alltaf kók í gleri í skápnum þínum fyrir þá sem komu þangað í heimsókn. Ég man líka eftir fjöruferðunum og mér er mjög minnisstætt þegar við krakkarnir gerðum stórmál úr smáskeinum og þá sagðir þú alltaf „þetta grær áður en þú giftir þig“. Nú er ég farin að segja þetta við strákana mína. Ég man eftir vetrinum sem ég var í fermingarfræðslu, þá tók ég alltaf strætó til þín eftir tímana og við borðuðum kvöldmat saman, oftast bjúgu, svo keyrðir þú mig á fimleikaæfingu. Ég man eftir Kaupamannahafnarferðinni vorið 2003, þú varst svo sæll og glaður alla ferðina og gekkst með okkur um borgina þvera og endilanga.

Eftir að ég eignaðist strákana mína var svo gaman að sjá hvað þú varst alltaf passasamur með þá. Þegar þú varst fluttur í Sóleyjarimann, þá var ég stundum að vinna lengi og þá daga labbaðir þú með mömmu að sækja Viktor Mána í leikskólann og hafðir gaman af því að keyra hann heim í kerrunni. Þú varst orðinn sjúklingur þegar Alexander Logi kom í heiminn en honum fannst alltaf gaman að sitja í fanginu á þér í hjólastólnum svo keyrði ég ykkur um gangana og þú hélst svo fast og vel um litla stubbinn. Ég man líka eftir ferðinni okkar heim að Brekkum haustið 2006, þú sagðir ekki mikið en glampinn í augunum þínum sagði meira en mörg orð. Ég held að þetta hafi verið síðasta ferðin þín heim að Brekkum og ég er þakklát fyrir að hafa farið með þér.

Elsku afi, takk fyrir allt.

Emilía Ósk Emilsdóttir

og fjölskylda.

Við afi áttum margt sameiginlegt, við vorum nafnar og við áttum sama afmælisdag og við afi áttum margar góðar stundir saman.

Ég á margar góðar minningar um afa Guðjón, alveg frá því að ég fyrst man eftir mér í eldhúsinu í Bogahlíðinni þegar hann kom heim úr vinnunni í hádegismat, við nafnarnir sátum á eldhúsbekknum og amma hinum megin við borðið. Amma smurði svo nesti og setti kaffi á brúsa fyrir seinna kaffið í vinnunni og hann lagði sig á bekknum á meðan. Margir góðir bíltúrar þar sem afi spurði mann alltaf um sömu bæjarnöfnin á leiðinni og man ég enn hvar Kotströnd, Þjótandi, Þjórsártún, Kárastaðir og Brúsastaðir eru. Göngutúrar í Háuhlíð og Öskjuhlíð og fjöruferðir. Kofa- og kassabílasmíðar, afi gat það allt. Svo öll skiptin sem ég leitaði til hans með bílavandamál mín eftir að ég komst á bílaaldur.

Afi kenndi mér líka að það er ógæfa að gefa hnífa. Ég fór snemma að suða um að hann gæfi mér vasahníf og svo þegar ég fékk hníf lét afi krónu fylgja með svo ég gæti borgað honum hnífinn. Ég held að ég geti sagt að afi hafi alltaf verið fyrstur til að heimsækja okkur Huldu eftir að við fórum að búa, á alla þrjá staðina sem við höfum búið á. Og þegar við vorum að byggja kom hann oft og iðulega til að fylgjast með gangi mála og leggja hönd á plóg.

Elsku afi, ég á svo margar minnigar um þig og ég kveð þig með söknuði.

Þinn nafni

Guðjón Örn Emilsson.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku afi.

Takk fyrir allt.

Tveir kossar á kinnina frá þér... ég mun aldrei gleyma þeim.

Þín

Katrín María.