Hermann Þórðarson
Hermann Þórðarson
Frá Hermanni Þórðarsyni: "NÚ HÓTA „vinir okkar“ Norðmenn og Bretar refsiaðgerðum vegna veiða Íslendinga á makríl innan íslenskrar lögsögu. Hvað myndu þessar fyrrum vinaþjóðir segja um það ef við Íslendingar færum að skipta okkur af veiðum í þeirra eigin landhelgi?"

NÚ HÓTA „vinir okkar“ Norðmenn og Bretar refsiaðgerðum vegna veiða Íslendinga á makríl innan íslenskrar lögsögu. Hvað myndu þessar fyrrum vinaþjóðir segja um það ef við Íslendingar færum að skipta okkur af veiðum í þeirra eigin landhelgi? Það er ekki langt síðan Norðmenn stunduðu af ásettu ráði rányrkju á smásíld innan sinnar lögsögu til þess að koma í veg fyrir að þessi sama síld yxi upp og yrði síðar að veiðistofni á norsk-íslenska síldarstofninum í lögsögu Íslands. Norðmenn og Bretar hafa ítrekað komið í veg fyrir að Íslendingar fengju kvóta úr makrílsstofninum til að vernda eigin hagsmuni. Er eitthvað athugavert við það að við gerum slíkt og hið sama, ef þeir eru ekki til viðræðu um að semja um okkar hlut í stofninum sem nú syndir frjáls innan íslenskrar lögsögu?

Það er til marks um eiginhagsmunastefnu þessara þjóða í fiskveiðimálum að þær höfðu um aldaraðir, áður en við urðum sjálfstæð þjóð, stundað rányrkju á Íslandsmiðum, og jafnvel löngu eftir það (Bretar í þorskastríðunum). Norðmenn hafa aldrei getað fyrirgefið okkur það að við skyldum yfirgefa þeirra ástkæra föðurland til þess að stofna nýtt ríki og verða ný þjóð í eigin frjálsu landi. Þeir skyldu þó minnast þess að við varðveittum sögu þeirra og menningu sem annars væri e.t.v. gleymd og þá væri litið á þá sjálfa sem einhverskonar danskan eða sænskan minnihluta. Bretar hafa alltaf í sinni sögu beitt aðrar þjóðir ofbeldi og halda að þeir séu ennþá stórveldi. Þið kunnið ekki að skammast ykkar, litlu Bretar. Þið eruð ekki lengur stórir. Bara peð í Evrópusambandinu sem verðið að lúta fyrirmælum frá Brussel. „Shame on you“.

Þið beittuð okkur ofbeldi í landhelgismálunum og þið beittuð okkur ofbeldi í efnahagskreppunni. Því miður höfðu íslensk stjórnvöld ekki bein í nefinu til þess að reka sendiherra ykkar úr landi eftir að þið beittuð á okkur, bandalagsþjóð í NATO, hryðjuverkalögum. Við hefðum þá einnig átt að kalla sendiherra okkar heim og slíta við ykkur stjórnmálasambandi. Eðlilegt hefði einnig verið að hóta úrsögn úr NATO. Ef þið haldið uppteknum hætti stefnir í eitthvað slíkt. Við erum ekki hræddir við ykkur. En ef þið sjáið ekki að ykkur eruð þið að segja að við séum ekki lengur velkomnir í hópi Evrópuþjóða. Þá er bara að leita á önnur mið. Við eigum alvöru vini í öðrum heimshlutum. Við Norðmenn vil ég segja: „Gætið að hvar hagsmunir ykkar liggja.“

HERMANN ÞÓRÐARSON,

fyrrverandi flugumferðarstjóri.

Frá Hermanni Þórðarsyni

Höf.: Hermanni Þórðarsyni