Jón V. Jónmundsson
Jón V. Jónmundsson
Jón V. Jónmundsson fjallar um siðferði í pólitík, þá einkum Framsóknarflokknum: "Draumurinn um þá siðferðilegu hreinsun sem yrði í íslenskri pólitík ef kjósendur gæfu Framsóknarflokknum frí í komandi kosningum er ræddur hér."

SIGTRYGGUR, þú ferð um rekafjörur siðgæðisins í pólitíkinni ásamt sýslunga þínum Gunnari í Flatatungu í grein í Morgunblaðinu 22. mars. Mér sýnist samt að stærsta bjálkann sjáið þið ekki, sem er pólitískt siðgæði Framsóknarflokksins, sem ég ætla að þið þekkið samt dável. Mig langar aðeins að mæla þann bjálka með þér vegna þess að þegar sá stórviður bætist við held ég þið hafið drjúgt efni fyrir Davíð í krossana vegna boðaðrar hátíðar á hæðunum við Svörtuloft. Ömurleiki siðgæðis í stjórnmálum á síðustu tveim áratugum hefur ofboðið mörgum fleirum en ykkur. Nú vill svo vel til að í nefndu tölublaði Mogga er frábær inngangur í grein Einars Más, „Barónar allra landa!“ um siðgæðisvitund Framsóknar. Við skulum skoða þetta aðeins nánar.

Í hartnær tvo áratugi voru þið leiddir af foringja sem hóf sinn feril sem höfundur kvótakerfis í sjávarútvegi. Þekkt er hvernig það hefur leikið fjölda byggðarlaga um allt land, rænt íbúa þeirra atvinnu og afkomu. Margir telja að framsal það sem tekið var upp síðar sé fyrsta lexían í efnahagsbólum. Þá var vel hugað að völdum flokksins þegar kom að einkavæðingu bankanna, þar sem var upphaf að hruninu. Hámarki náði valdagræðgin líklega við kosningarnar 2003 þegar flokknum var prangað inn á þjóðina með auglýsingaskrumi og yfirboðum. Yfirboðin birtust með loforðum um 90% húsnæðislán sem var næsti kaflinn í að byggja upp efnahagshrunið.

Á þessum árum var stóriðjustefnan í algleymi, þar sem vel var gætt að hlut álfurstanna, eins og Indriði Þorláksson hefur nýverið sýnt fram á. Fermingarloforð flokksins hjá foringjanum virðist nánast hafa verið að leitast skyldi við að fremsta megni að tryggja að íslenska þjóðin fengi ekki notið arðs af auðlindum sínum. Með þessu var kynt á slíkan hátt undir efnahagslífinu að við tók alger efnahagsóstjórn íhalds og framsóknar, sem fram hélt þar til endalokin urðu alger haustið 2008.

Flokkssjóða ykkar hefur ætíð verið vel gætt, þið eigið ykkar S-hóp og ykkar Gift. Um það ættu þið að upplýsa þjóðina frekar. Þegar flokksþing ykkar stóð í desember birtist í kastljósi mikil skrá um fyrirtæki að Suðurlandsbraut 18. Tengsl þeirra sumra, flokksins og suðrænna skattaparadísa, hefði að líkindum verið uppistöðumeiri fræðsla fyrir ykkur, fulltrúana á þinginu, en umræða um efnahagsbandalagsmál ef marka má samþykktir ykkar í þeim efnum. Ekki síður birtist siðblindan snemma á þessu ári þegar Ólafur F. Magnússon, fyrrum borgastjóri, fór að vekja athygli á afrekum borgarfulltrúa ykkar, Óskars Bergssonar. Vafalítið hefur hann hlotið uppfræðslu forvera síns, sem notið hafði þeirra náðar að sitja um tíma við fótskör foringjans. Þegar þetta var mátti sjá á bloggsíðum flokkssystkina ykkar þær skoðanir að siðferðisbrestina hjá Óskari mætti meta sem endurgreiðslukostnað á veisluhöldunum hans, ágætum. (Hluti eins og Íraksstríðið og margt fleira ræðum við betur síðar.) Sagan kennir okkur að þar sem siðblindan og valdagræðgin ræður orðið ein þá er spurning hvenær kemur til pólitískra illvirkja. Raunhæfasta leiðin held ég, Sigtryggur, að felist í því ef Framsóknarflokkurinn fær frí frá íslenskri pólitík. Þreyttum yrði leyft að sofa. Meiri siðferðileg hreinsun yrði í íslenskri pólitík við það en flestir sáu fyrir við upphaf hrunsins í haust. Undir það virðist hilla að sá draumur geti orðið að veruleika. Beitir þú kröftum þínum af alefli til kjördags gætir þú þannig lagt mikið af mörkum til að uppfylla þann draum og langþráða siðferðilega hreinsun.

Höfundur er starfsmaður hjá Bændasamtökum Íslands.

Höf.: Jón V. Jónmundsson fjallar um siðferði í pólitík, þá einkum Framsóknarflokknum