Hönnuðurinn Jóhann Benedikt Pétursson fékk hugljómun að þessu einfalda hjálpartæki sem hann heldur á á myndinni og gengur með á lyklakippunni sinni. Hann vinnur nú að því að koma tækinu í framleiðslu.
Hönnuðurinn Jóhann Benedikt Pétursson fékk hugljómun að þessu einfalda hjálpartæki sem hann heldur á á myndinni og gengur með á lyklakippunni sinni. Hann vinnur nú að því að koma tækinu í framleiðslu. — Morgunblaðið/Heiddi
Eftir baráttu við að hneppa hnöppum sínum fékk Jóhann Benedikt Pétursson hugljómun að einföldu hjálpartæki. Nú vinnur hann að því að koma því í framleiðslu.

Eftir Freystein Jóhannsson

freysteinn@mbl.is

„Forsaga þessa hjálpartækis spannar fimmtán ár. Þetta byrjaði allt með því að ég fór í einhverju bríaríi í nálastungu, það var ekkert að mér en einhverjir sem ég tók mark á töluðu þannig að ég ákvað að prufa. Nálastungan gekk þrautalaust framan af en svo var ég stunginn innan á vinstri framhandlegginn og fékk þá gríðarlegu tilfinningu sem leiddi alveg upp í höfuð. Þarna tel ég að hafi orðið mistök en ég gerði ekkert í málinu hvorki þá né síðar. Um kvöldið var tilfinningin að mestu horfin en þegar ég ætlaði morguninn eftir að setja á mig gleraugun, eins og ég hafði gert í 39 ár fann ég engin gleraugu. Ég var búinn að festa hendur á þeim en fann ekkert fyrir þeim, ég var búinn að missa svo til alla tilfinningu í vinstri hendinni.“

Lítið tæki og einfalt

„Ég reyndi að fá bót við þessu meini en læknar sögðu ekkert hægt að gera. Framan af versnaði þetta með árunum en nú hefur ástandið staðið í stað í nokkurn tíma en ekkert gengið til baka.

Eitt af því sem varð mér til vandræða var að hneppa tölum en konan mín; Kristrún Helgadóttir frá Eskifirði, hjálpaði mér með það. En í fyrrasumar missti ég hana og þá var enginn til að hneppa fyrir mig. Ég var í stökustu vandræðum, það trúir því enginn að óreyndu hvað þetta getur verið vandræðalegt, og velti því mikið fyrir mér hvernig ég gæti leyst þetta vandamál. Einn morguninn vaknaði ég klukkan sex og var þá með hjálpartæki í huganum. Ég settist strax við skrifborðið og teiknaði tækið á blað og fór svo með myndina til kunningja míns, sem er járnsmiður, og bað hann að smíða hlutinn fyrir mig. Ég var nú ekkert að segja honum til hvers tækið væri, hélt að hann myndi bara hlæja að mér. En þegar til kom svínvirkaði tækið og það hefur valdið byltingu í mínum málum.

Ég fór svo að velta því fyrir mér að fleiri ættu örugglega í erfiðleikum með að hneppa að sér og tækið mitt gæti komið í góðar þarfir til að auðvelda líf þessa fólks eins og það hafði gert fyrir mig.

Ég fór í Einkaleyfastofuna og þar fundu menn út að til væru hjálpartæki á þessu sviði en ekkert lík mínu. Og hjá hjálpartækjafyrirtæki sá ég tæki sem eiga að auðvelda fólki að hneppa hnöppum sínum, en þau eru miklu stærri en tækið mitt og ekkert lík því. Þeir sem hafa séð það hjá mér hvetja mig eindregið til þess að setja það í framleiðslu. „Þetta er það sem þarf,“ segja þeir, „svona lítið og meðfærilegt tæki.“ Þetta er bara einföld, lítil krækja sem er sett í gegnum hnappagatið og talan svo dregin með henni til baka.

Nú er ég að vinna að því að koma tækinu í framleiðslu.“

Féll ekki klæðskeraiðnin

Jóhann Benedikt Pétursson fæddist að Áreyjum í Reyðarfirði 28. apríl 1920. Foreldrar hans voru Sóley Sölvadóttir, ættuð úr Skagafirði, og Pétur Vilhelm Jóhannsson frá Áreyjum. Þegar Jóhann var 8 ára missti hann móður sína. Systkinin voru sex og tóku Anna Stefánsdóttir og Sigurjón Gíslason í Stóra Bakkagerði í Reyðarfirði Jóhann í fóstur.

„Ég var nítján ára og enga vinnu að hafa. Ég var alinn upp við búskap en það var ekki í mér að gerast bóndi. Þá auglýsti Þorsteinn Jónsson kaupfélagsstjóri eftir klæðskeralærlingi en hann var kominn með þýzkan klæðskera í þjónustu kaupfélagsins. Ég sótti um og komst að.

Fyrsta árið fékk ég engin laun en frítt fæði og húsnæði. Annað árið fékk ég 200 krónur, þriðja árið 300 og 400 krónur fjórða árið. Þetta þættu nú ekki ofurlaun í dag en ég drýgði tekjurnar með skipavinnu um helgar og Bretavinnu á sumrin.

Svo fór ég suður og setti stefnuna á Keflavík þar sem var enginn klæðskeri en hafði fjögurra mánaða viðdvöl í Reykjavík, hjá Ara í Faco. En klæðskeraiðnin var bara ekki mitt fag. Það var ekki það að mér gengi ekki vel, þeir eru enn til hér í Keflavík karlmenn sem ganga í fötum eftir mig, það er að segja ef þeir hafa ekki fitnað um of að framan.“

25 ár hjá póstinum

„Þegar ég hætti sem klæðskeri tókum við Kristrún við Hafnarbúðinni en reksturinn á henni var þrælavinna og ég var fljótur að slá til þegar mér bauðst starf í pósthúsinu á Keflavíkurflugvelli þótt launin væru ekki eins há. Og starfsmaður Pósts og síma var ég síðustu 25 ár starfsævinnar; frá 1964-1990.

Ég hef verið í Rotary frá 1946 og Oddfellow frá 47. Ég hef fengið margt út úr því félagsmálavafstri og á vonandi fleira eftir, því enn er ég hraustur og félagslyndur.“