[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á árunum milli stríða miðaði stjórnmálabarátta verkalýðsflokkanna tveggja, Alþýðuflokks og Kommúnistaflokks, að því að berjast fyrir viðurkenningu á því að verkafólk væri fullgildir íslenskir borgarar.

Á árunum milli stríða miðaði stjórnmálabarátta verkalýðsflokkanna tveggja, Alþýðuflokks og Kommúnistaflokks, að því að berjast fyrir viðurkenningu á því að verkafólk væri fullgildir íslenskir borgarar. Í því fólst meðal annars tilraun til að endurmóta íslenska þjóðernisstefnu. Báðir flokkarnir réðust gegn þeim þáttum hennar sem samrýmdust illa sósíalískri stjórnmálaorðræðu, endursögðu þjóðarsöguna og skilgreindu upp á nýtt og á sínum forsendum grunnþætti íslenskrar þjóðernissjálfsmyndar. Engu að síður snerti þjóðernisstefna stjórnmálastarf flokkanna tveggja með mjög ólíkum hætti. Færa má rök fyrir því að þjóðernisstefna hafi átt sinn þátt í að tryggja kommúnista- og síðar sósíalistahreyfinguna í sessi. Áhrifin á Alþýðuflokkinn hafi hins vegar verið þveröfug. Íslensk þjóðernisstefna hafi hindrað vöxt hans.

Þetta eru helstu niðurstöður Ragnheiðar Kristjánsdóttur, sem varði doktorsritgerð sína við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands 6. febrúar sl. Ritgerðin er komin út í bókinni Nýtt fólk, þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál 1901-1944.

Hér birtist kafli úr niðurstöðum Ragnheiðar. Millifyrirsagnir eru Morgunblaðsins.

Heildstæður hópur

„[S]taða íslenskrar verkalýðshreyfingar [er] að því leyti til sérstök að hún tók ekki nema að takmörkuðu leyti þátt í baráttu fyrir útvíkkun kosningaréttar og formlegum lýðréttindum. Við stofnun Alþýðuflokks og Alþýðusambands árið 1916 höfðu þegar verið gerðar flestar þær breytingar á stjórnkerfi landsins sem miðuðu að jöfnum lýðréttindum fullorðinna Íslendinga. Stjórnmálaorðræða íslenskrar verkalýðshreyfingar í aðdraganda flokksstofnunar og á fyrstu starfsárum Alþýðuflokksins ber engu að síður vott um að meginviðfangsefni hreyfingarinnar hafi verið óformleg barátta fyrir viðurkenningu á því að verkafólk væri heildstæður hópur sem hefði mikilvægu hlutverki að gegna og ætti rétt til þess að ríkið skapaði því forsendur viðunandi lífskjara.

En það flækti málið að samfara baráttunni fyrir viðurkenningu á réttarstöðu verkafólks í íslensku samfélagi tókst verkalýðshreyfingin á við verkefni sem var í senn andstætt og hliðstætt hinu fyrra. Þetta var barátta fyrir endurskilgreiningu á viðfangi stjórnmálanna. Til þess að geta tekið þátt í umræðum um stjórnmál þurfti verkafólk að sýna fram á að það tilheyrði þjóðinni, en til að skapa grundvöll fyrir stofnun flokks þurfti að draga úr þeirri ofuráherslu sem lögð hafði verið á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Stjórnmálaorðræða heimastjórnaráranna setti verkalýðshreyfingunni skorður og vegna þeirra setti hún sér tvenns konar markmið sem ekki voru að öllu leyti samrýmanleg. Verkalýðshreyfingin reyndi í senn að berjast fyrir því að verkafólk yrði Íslendingar og fyrir því að dregið yrði úr vægi þjóðfrelsisbaráttunnar í íslensku stjórnmálalífi.

Höggstaður á flokknum

Það má segja að sú stefna Alþýðuflokksins að ryðja sjálfstæðispólitíkinni úr vegi hafi verið í anda alþjóðlegrar sósíalistahreyfingar sem hafði mælt með því, sérstaklega fyrir fyrra stríð, að verkafólk léti sér fátt um milliríkjadeilur finnast. Engu að síður er of mikil einföldun fólgin í þeirri hefðbundnu skoðun að flokkurinn hafi frá upphafi tileinkað sér alþjóðahyggju sem hafi komið fram í afstöðu flokksins allar götur síðan, þar á meðal í tengslum við setningu sambandslaganna 1918 og lýðveldisstofnun 1944. Minningin um afstöðu Alþýðuflokksins árið 1918 varð lífseig í pólitískri og fræðilegri umræðu á Íslandi, bæði vegna þess hvernig Alþýðuflokkurinn tók á þjóðernisstefnu upp frá því, en ekki síst vegna þess að flokksforystan vildi fara varlega við stofnun lýðveldis á Íslandi. Afstaða flokksins í aðdraganda lýðveldisstofnunar varð til þess að gulltryggja að minningin um 1918 festist í sessi.

Af þessum sökum hefur gætt tilhneigingar til að horfa framhjá ofangreindum áhrifum íslenskrar þjóðerniskenndar á pólitíska sjálfsmynd verkalýðshreyfingarinnar og stefnu Alþýðuflokksins. Eitt af megineinkennum hvors tveggja, á árunum fyrir 1918, er það kapp sem lagt var á að sýna að barátta fyrir hagsmunum „alþýðunnar“ væri barátta fyrir varðveislu og viðgangi íslensku þjóðarinnar. Til að skilja afstöðu Alþýðuflokksins árið 1918 verður að hafa það í huga að flokksmenn höfðu ekki, frekar en aðrir Íslendingar á þessum tíma, mótaðar hugmyndir um hvers konar ríki ætti að verða til samfara auknu sjálfstæði þjóðarinnar. Þorri alþýðuflokksmanna, þar á meðal flestir forystumenn flokksins, hafði ekki myndað sér skoðun á stjórnskipulegri framtíð Íslands. Einn flokksmanna, Ólafur Friðriksson, var hlynntur hugmyndum um sambandsríki Norðurlanda og honum tókst að fá þær samþykktar í fulltrúaráði flokksins án þess að það vekti mikla eftirtekt eða umræður. Vandinn fólst hins vegar í þeirri ákvörðun flokksins að taka undir tilteknar kröfur dönsku samninganefndarinnar. Þar með hafði flokkurinn gefið á sér höggstað sem andstæðingar hans notuðu óspart upp frá því.

Þegar fjallað er um viðræður Íslendinga við Dani um framtíðarsamband landanna tveggja er mikilvægt að gera greinarmun á því að vilja standa fast á kröfunum gagnvart Dönum annars vegar og því að hafa mótaðar skoðanir á framtíð Íslands hins vegar. Þeir sem fyrir árið 1918 voru taldir róttækastir í sjálfstæðisbaráttunni, voru róttækir í þeim skilningi að þeir vildu ekki gefa eftir í samningum við Dani, halda fast í meintan rétt íslenskrar þjóðar til að ráða sínum málum. En þeir höfðu ekki endilega lýst sig hlynnta algerum skilnaði við Dani, hvað þá að þeir hafi stefnt að stofnun sjálfstæðs íslensks lýðveldis. Deilur um afstöðu fulltrúaráðs Alþýðuflokksins til samninganna við Dani sumarið 1918, innan flokks og utan, snerust um hvort flokknum væri stætt á því að mæla með því að komið yrði til móts við kröfur dönsku samninganefndarinnar. Það var þetta atriði í ályktun flokksins sem olli vandræðum innan flokksins en ekki hugmyndin um að Íslendingar mynduðu sambandsríki með hinum Norðurlandaþjóðunum og jafnvel Evrópu allri. Það sama gildir um andstæðinga flokksins; þeir hnutu ekki um hugmyndina um Bandaríki Evrópu, sem aftur bendir til að umræðan um framtíð Íslands hafi verið ómótuð og opin á þessum árum.

Óskýr afstaða

Það sem helst einkenndi umræður alþýðuflokksmanna um íslenskt þjóðerni á þriðja áratugnum og fram að lýðveldisstofnun var óskýr afstaða til þess hvernig þjóðernið gæti tengst eða ætti að tengjast stjórnmálastarfi flokksins. Aðkoma flokksins að sambandslagasamningnum hafði sín áhrif, en útskýrir ekki ein og sér hvers vegna flokksmenn viku frá þeirri stefnu, sem mörkuð hafði verið í fyrstu verkalýðsblöðunum, þar með töldum fyrstu málgögnum flokksins, Dagsbrún og Alþýðublaðinu, að reyna að sýna fram á að stjórnmálabarátta þeirra væri samrýmanleg og jafnvel liður í frelsisbaráttu þjóðarinnar. Aukið vægi íhaldssamrar þjóðernisstefnu í þjóðmálaumræðunni á þriðja áratugnum skiptir jafnframt máli. Þó höfnuðu flokksmenn ekki íslenskri þjóðernisstefnu. Í stjórnmálastarfi flokksins koma fram margvíslegar tilvísanir til íslensks þjóðernis. En þær voru ómarkvissar og bera þess frekar merki að flokkurinn hafi verið í vörn en sókn. Ólíkt kommúnistum leituðust alþýðuflokksmenn ekki við að móta nýja útgáfu af íslenskri þjóðernisorðræðu.

Alþýðuflokksmenn tóku því ekki afdráttarlausa afstöðu gegn íhaldssömum hugmyndum um framtíð íslenskrar þjóðar og það hafði áhrif á aðra mikilvæga þætti í stjórnmálastarfi flokksins. Þannig einkenndist umfjöllun flokksmanna um bændur, samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn af þeirri hugmynd (sem rekja má aftur til fyrstu verkalýðsblaðanna) að alþýðustéttirnar tvær, bændur og verkamenn, ættu að standa saman. Jafnframt því voru lífseigar áhyggjur af því að iðnvæðing og þéttbýlismyndun ógnuðu stöðu sveitanna og sveitamenningarinnar. Flokkurinn tók því þátt í að viðhalda hugmyndum um að þéttbýlisbúar væru annars flokks þegnar, sem og hugmyndum um að sú þjóðfélagsþróun sem var forsendan fyrir stjórnmálastarfi flokksins væri óheppileg. Flokkurinn hikaði þannig við að slíta naflastrenginn við bændasamfélagið og Framsóknarflokkinn og þótt vissulega hafi samstarf flokkanna gagnast flokknum og skjólstæðingum hans að vissu marki, hindraði það um leið að alþýðuflokksmenn gætu beitt sér af afli fyrir breytingum á kosninga- og kjördæmakerfinu sem hefðu bætt til muna vaxtarskilyrði flokksins.

Allt það sem hér hefur verið nefnt gerði Alþýðuflokknum erfiðara fyrir að tryggja sig í sessi og dró úr getu hans til að sannfæra verkafólk um að það ætti samleið með flokknum. Ekki svo að skilja að sá þáttur í stjórnmálaorðræðu flokksins sem varðaði skilgreiningu hans á hlutverki sínu sem verkalýðsflokkur hafi, einn og sér, verið óskýr. Samfara þeim hugmyndum sem að ofan voru raktar hélt hann því fram að á Íslandi væri sérstök verkalýðsstétt sem ætti erfitt uppdráttar, stétt sem þyrfti að heyja hagsmunabaráttu gegn öðrum stéttum, stétt sem ætti að stefna að því að koma á sósíalísku þjóðskipulagi. En það sem skorti var skýr sjálfsmynd sem flokksmenn gátu komið til skila með einföldum hætti. Hún þurfti ekki endilega að vera laus við þverstæður (sjálfsmynd kommúnista og síðar sósíalista var það ekki), en hún þurfti að falla að sjálfsmyndum þeirra sem flokkurinn vildi höfða til og vera nógu heilsteypt til að flokksmenn gætu virkjað hana í stjórnmálabaráttunni. Í stuttu máli virðist flokkinn hafa vantað fastmótaða hugmynd um fyrir hverja hann barðist (og hverja ekki) og hverjir væru höfuðandstæðingarnir (og mögulegir samherjar) í þeirri baráttu.

Þjóðfrelsi og Sovét

Það vantaði því töluvert upp á að alþýðuflokksmenn hefðu jafn góða stjórn á sjálfsmynd sinni og stjórnmálaorðræðu og keppinautar þeirra á vinstrivængnum. Að sama skapi sýnir það sem hér hefur verið reitt fram að íslenskt þjóðerni snerti flokkana með mjög ólíkum hætti. Báðir höfðu þeir lagt sig eftir að kalla íslenskt verkafólk til liðs við sig á grundvelli íslensks þjóðernis. Kommúnistar settu stjórnmálastefnu sína – loforðið um byltinguna, alþjóðahreyfinguna og fyrirheit um bætta stöðu íslensks verkafólks – bæði í alþjóðlegan og þjóðlegan búning. Þeir boðuðu í senn þjóðfrelsi og fyrirmyndarríki að sovéskri fyrirmynd og með orðfæri sem var þá þegar orðið rótgróið í íslenskum verkalýðsstjórnmálum. Og raunar má segja að þeir hafi sótt hugmyndina um að verkalýðsbaráttan tryggði best viðgang íslensks þjóðernis í smiðju frumherja íslenskra verkalýðsstjórnmála. Árið 1944 var aftur á móti langt síðan að Alþýðuflokkurinn hafði haldið þessari gömlu hugmynd sinni fram svo eftir væri tekið. Eftir að Ólafur Friðriksson hætti að vera áhrifamesta rödd flokksins snemma á þriðja áratugnum hafði lítið borið á henni.

Þjóðríkið sem grundvallareining

Öll stjórnmálabarátta verkalýðsflokkanna á árunum milli stríða – þar með talin verkalýðsátökin, menningarbaráttan og samkeppnin milli flokkanna tveggja – átti sinn þátt í að kalla íslenskt verkafólk inn á stjórnmálasviðið. Þátttaka þeirra í átökum um innviði íslenska þjóðríkisins, kröfur þeirra um að þjóðríkið sinnti þörfum verkafólks, eins og áherslan á að verkafólk ætti hlutverki að gegna í þjóðríkinu, átti sinn þátt í að hnykkja á mikilvægi þjóðríkisins sem grundvallareiningar og meginviðfangs stjórnmálanna. Engu að síður höfðu róttækir vinstrimenn á Íslandi meiri áhrif á þróun íslenskrar þjóðernisstefnu en alþýðuflokksmenn. Þetta kom fram með skýrum hætti við lýðveldisstofnun þar sem Einari Olgeirssyni var falið að undirbúa sögusýningu nýstofnaðs lýðveldis. Sú staðreynd sýnir jafnframt hversu vel kommúnistum hafði tekist að sannfæra meðborgara sína (þar á meðal forystu Sjálfstæðisflokksins) um að þeir væru þrátt fyrir allt sannir Íslendingar. Framlag róttækra vinstrimanna til íslenskrar þjóðernisstefnu fólst í því að þeir endurskilgreindu íslenska þjóðernisorðræðu þannig að í henni fælist uppfylling þeirra óska sem fram komu í íslensku verkalýðsblöðunum. Þeir gerðu „úrhrökin“, verkalýðinn, alþýðuna, að arftökum Jóns Sigurðssonar. Þannig má segja að kommúnistar hafi haft veruleg áhrif á það hvað það var að vera íslensk þjóð; átt ríkan þátt í að búa til nýja íslenska þjóð, eða, með orðalagi sem er Íslendingum líklega tamara, sannfæra íslenska þegna um gildi þess að líta á sig sem þjóð. Þótt þessi viðleitni kunni fljótt á litið að virðast ósamrýmanleg kommúnískum hugmyndagrundvelli þeirra, þá var það engu að síður svo að stefna alþjóðlegrar kommúnistahreyfingar bauð upp á möguleika sem íslenskir kommúnistar ákváðu að nýta sér. Sú hugmynd að hægt væri að búa til nýtt fólk var miklu fremur kommúnísk en sósíaldemókratísk.