Á UNDANFÖRNUM vikum og mánuðum hefur mikið verið rætt um hið alræmda bankahrun.
Eitt af því minnisverðasta úr þeirri umræðu er í mínum huga viðtalið við Davíð Oddsson í Kastljósi RÚV í upphafi þess.
Þar sagði Davíð að þjóðin myndi ekki greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum.
Davíð hafði á þessu sterkar skoðanir, enda ekki skrýtið, því ef einhver stjórnmálamaður hefur reynslu af álíka gjörðum, þá er það Davíð.
Þannig háttar til, að þegar Davíð var borgarstjóri árið 1985, þá bjargaði Davíð „óreiðumönnum“ í Ísbirninum hf., með þátttöku í stofnun Granda hf., er kvóti 4 togara var lagður til björgunar Ísbirninum hf. Um er að ræða kvótann af Hjörleifi RE, Snorra Sturlusyni RE, Otto Þorlákssyni RE og Jóni Baldvinssyni RE.
Líklega hefði kvóti þessara togara verið um 1.100 tonn að meðaltali á árinu 2008 en kvótaverð var ca. 2.300 kr/kg. í lok þess árs. Þetta þýðir að Davíð fórnaði kvóta, að verðmæti kr. 10.120 milljónum/kr. á verðlagi ársins 2008 til björgunar óreiðumanna.
Eins væri hægt að reikna hvað hefði fengist fyrir kvótann í leigutekjur á þeim 22 árum sem liðin eru síðan Ísbjarnarfjölskyldunni var bjargað frá gjaldþroti. Svipuð upphæð hefði fengist í kvótaleigu eða ca. 10 milljarðar/kr. en kvóti að verðmæti a.m.k. 10 milljarðar/kr hefði verið áfram í eigu Reykvíkinga.
Hitt er einnig staðreynd, að Davíð stóð fyrir því, sem forsætisráðherra ásamt Geir Harde, Halldóri Ásgrímssyni og Valgerði Sverrisdóttur að afhenda ríkisbanka á silfurfati til einkavina með þeim afleiðingum, að þjóðin er í dag næstum gjaldþrota.
GUÐMUNDUR ÞORKELL BJARNASON,
fyrrverandi fiskverkandi.
Frá Guðmundi Þorkeli Bjarnasyni