Símon Hjaltason
Símon Hjaltason
Símon Hjaltason skrifar í tilefni af landsfundi Sjálfstæðisflokks: "Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn ennþá til? Ef vinstri flokkur hefði stýrt Íslandi í þjóðargjaldþrot myndu meðlimir hans aldrei hljóta áheyrn aftur."

AF TALI meðlima Sjálfstæðisflokksins síðastliðna daga um „uppgjör“ og „kynslóðaskipti“ ályktaði ég sem svo að eitthvað stórkostlegt hlyti að hafa átt sér stað á landsfundi þeirra. Ég sá fyrir mér að nýfrjálshyggjufólk hefði þurft að ganga af skilyrðislausri trú sinni á hinn almáttuga frjálsa markað og horfast í augu við ólýðræðislegt eðli þeirrar trúar, rétt eins og vinstri menn neyddust til að gera við sovét-kommúnismann þegar Krústjoff hellti óhreina mjölinu úr pokahorni Stalíns á borðið, eða í síðasta lagi við fall Sovétríkjanna.

Mér skjátlaðist auðvitað. Þegar ég skoðaði fréttaumfjöllunina sá ég að háð Davíðs Oddssonar hafði vakið mesta athygli (og hlátrasköll) á þessum fundi. Reyndar fagnaði ég þessu, enda er ég þeirrar skoðunar að Davíð hefði gert mun meira gagn sem háðfugl í stjórnarandstöðu en sem forsætis- og utanríkisráðherra í þessi sextán ár hans. Kannski hefði maður þá einhvern tímann getað leyft sér að hlæja að háðsglósum hans án þess að upplifa sig sem farþega á skipi með drukkinn stýrimann. Marga sveið undan því þegar hann kvaðst hafa verið hengdur á milli tveggja sómamanna á meðan Kristur var hengdur á milli tveggja ræningja, en Gunnar Þorsteinsson var fljótur að gefa út vottorð þess eðlis að hér væri ekki um guðlast að ræða. Svo fljótur var hann reyndar að hann gleymdi að rökstyðja það.

Satt er að víða í mannkynssögunni hafa ræðumenn notast við myndmál Biblíunnar, enda er það samofið allri sagnahefð hins kristna heims. En samhengið skiptir alltaf máli. Þegar kristnir menn tóku Jerúsalem árið 1099 sagðist konungsefni þeirra, Godfrey af Lorraine, ekki geta hugsað sér að bera gullkórónu í borg þar sem sjálfur Kristur hefði borið þyrnikórónu. Þar var samhengið auðmýkt. Í hinstu ræðu sinni sagðist Martin Luther King hafa komist á fjallstindinn og barið fyrirheitna landið augum og líkti sér þannig við Móses. Þar var samhengið von.

Hvert var samhengi Davíðs? Vanhugsað. Hann líkti brottrekstri sínum við aftöku Krists, nema hvað hann telur sig heppnari með félagsskapinn. Það er engin leið í kringum það að hér er Davíð að tala um sjálfan sig sem óflekkaðan einstakling sem ranglátir menn hafi gert að blóraböggli. Kannski er þetta ekki beinlínis guðlast en samhengið er ekki auðmýkt eða von heldur sá stórkostlegi hroki sem hefur löngum verið aðalsmerki Davíðs, sérstaklega á síðustu árum.

Hvert var þá „uppgjörið“ á landsfundi Sjálfstæðisflokksins? Ég ákvað að kíkja á viðtal við nýkjörinn formann flokksins, Bjarna Benediktsson, á Stöð 2, til að koma auga á þessa miklu endurnýjun. Hann talaði um að sjálfstæðismenn hefðu að vísu einhvern áhuga á því að styðja við bakið á þeim sem minna mega sín, en miklu meiri áhuga á því að hjálpa þeim fyrirtækjum „sem skila ríkinu einhverjum tekjum“. Ég hefði allt eins getað hlustað á eina af ræðum alnafna hans frá því fyrir rétt um hálfri öld. Pilsfaldakapítalismi af þessu tagi er einmitt það sem olli núverandi fjármálakreppu. En þau kynslóðaskipti! Gamalt vín á nýjum vindbelgjum! Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn ennþá til? Ef vinstri flokkur hefði stýrt Íslandi í þjóðargjaldþrot myndu meðlimir hans aldrei hljóta áheyrn aftur.

Höfundur er tónlistarmaður og bókmenntafræðingur.

Höf.: Símon Hjaltason