Yfirvegað Borð fyrir kjuðaíþróttir, eins og þetta poolborð, krefjast minni áreynslu en geta skapað notalegt, og jafnvel virðulegt andrúmsloft.
Yfirvegað Borð fyrir kjuðaíþróttir, eins og þetta poolborð, krefjast minni áreynslu en geta skapað notalegt, og jafnvel virðulegt andrúmsloft.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.is SIGURÐUR Sverrisson hjá Pingpong.is segir það hafa færst í aukana hjá íslenskum fyrirtækjum undanfarin ár að koma upp lítilli leikjaaðstöðu á skrifstofunni. „Ég seldi t.d.

Eftir Ásgeir Ingvarsson

asgeiri@mbl.is

SIGURÐUR Sverrisson hjá Pingpong.is segir það hafa færst í aukana hjá íslenskum fyrirtækjum undanfarin ár að koma upp lítilli leikjaaðstöðu á skrifstofunni. „Ég seldi t.d. tölvuleikjafyrirtæki fótboltaspil fyrir nokkrum árum, og þar var tilgangurinn meðal annars að fá starfsmennina til að standa upp frá tölvuskjánum við og við og losa um spennu,“ segir Sigurður og bætir við að fótboltaspilið hafi verið mikið notað þar á bæ. „Hingað kemur fólk frá alls kyns fyrirtækjum að kaupa spilatæki, og sums staðar hefur jafnvel heyrst af starfsmönnum sem hafa farið áfram á alþjóðleg fótboltaspilamót.“

Hörkuhreyfing í borðtennis

Annað vinsælt leiktæki er borðtennisborðið. „Vinsældir þeirra féllu niður um tíma en eru nú að aukast aftur. Á meðan fótboltaspilin eru einfaldari hreyfing og losa aðallega um spennu og létta andann, þá er borðtennis hörkuíþrótt ef spilað er af kappi. Ef menn kunna að nota bakhöndina og forhöndina rétt þá eru þeir ekki bara að brjóta upp daginn og hrista skankana heldur fá þeir heilmikla líkamsrækt út úr leiknum.“

Sigurður segir minna fara fyrir leikjum á borð við billjard og pílukast. „Þó var eitthvað um það síðustu ár að keypt væru stór og mikil pool- og snókerborð á skrifstofur. Pílukastið er algengara, sennilega vegna þess að ekki þarf mikið pláss til að stunda dart og búnaðurinn kostar ekki mikið,“ útskýrir hann. „Ég veit að í einu tryggingarfélagi er pílukastið mikið stundað, og inn á milli símtala tekinn stuttur leikur og svo kannski aftur í lok vinnudags. Þetta lífgar upp á vinnudaginn og skapar ákveðna tilhlökkun og jákvæðni meðal starfsmanna.“

Brýtur upp daginn og bætir andann

Að sögn Sigurðar þurfa þessi leiktæki ekki að vera dýr, en þó þurfi að gæta þess að velja vandaðri tæki þegar von er á mikilli notkun. „Ég verð var við það hjá mínum viðskiptavinum að þessi leikföng verða fljótt bráðnauðsynleg fyrir lífið á skrifstofunni. Í kringum fótboltaspilið eða billjardborðið verður til léttara andrúmsloft og betri tengsl milli starfsmanna,“ segir hann. „Það er ekki óalgengt að ég fái hingað til mín menn sem hafa verið á vinnustað með svona tækjum, en síðan fært sig yfir í annað fyrirtæki, og koma þá til að kaupa spil fyrir nýja vinnustaðinn. Það er því greinilegt að menn hafa bæði gaman af þesu og hafa trú á að svona tæki séu góð fyrir starfsemina.“