Húðflúr í LA Kat von D.
Húðflúr í LA Kat von D.
HVER hefði trúað því að þættir um húðflúrstofur nytu vinsælda? Svo virðist vera ef marka má vinsældir þáttarins Miami Ink, sem sýndur er á Discovery Travel & Living.

HVER hefði trúað því að þættir um húðflúrstofur nytu vinsælda? Svo virðist vera ef marka má vinsældir þáttarins Miami Ink, sem sýndur er á Discovery Travel & Living. Alls hafa verið framleiddar fjórar þáttaraðir, sem sýndar hafa verið á hinum ýmsu stöðvum Discovery auk sjálfstæðra stöðva víða um heim.

Húðflúrarar á húðflúrstofu í South Beach á Miami eru í forgrunni. Í hverjum þætti er fylgst með nokkrum gestum stofunnar, húðflúrun þeirra og sögunni á bak við ákvörðunina. Til viðbótar er persónulegt líf listamannanna tekið fyrir.

Þá er væntanleg á dagskrá hjá Travel & Living þáttaröðin LA Ink og er þar í aðalhlutverki húðflúrlistamaðurinn Kat, eða Katherine von Drachenberg. Hún lítur alveg jafn dramatískt út og nafnið gefur til kynna og áhugavert að sjá hvernig þessir þættir eru.

Líka eru til þættirnir London Ink og Inked, en ljósvaki hefur ekki séð þá. Til viðbótar er til sýninga á Discovery World þáttur sem fjallar um húðflúr á annan hátt. Hann heitir Tattoo Hunter og segir frá manni sem ferðast um heiminn til að fá sér húðflúr og „manndómsvígslunum“ sem hann þarf að ganga í gegnum til þess að fá þau.

Inga Rún Sigurðardóttir

Höf.: Inga Rún Sigurðardóttir