Frumkvöðull „Það er mikil áskorun að hjálpa fólki að byggja golfið upp frá grunni. Í hverju tilviki er ég oftast fyrsti ráðunauturinn sem leiddur er að borðinu sem hefur sérþekkingu á golfi,“ segir Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallahönnuður um umsvif sín í Austur-Evrópu.
Frumkvöðull „Það er mikil áskorun að hjálpa fólki að byggja golfið upp frá grunni. Í hverju tilviki er ég oftast fyrsti ráðunauturinn sem leiddur er að borðinu sem hefur sérþekkingu á golfi,“ segir Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallahönnuður um umsvif sín í Austur-Evrópu. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallahönnuður hefur haslað sér völl í Austur-Evrópu á umliðnum misserum en íþróttin á sívaxandi vinsældum að fagna þar um slóðir.

Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallahönnuður hefur haslað sér völl í Austur-Evrópu á umliðnum misserum en íþróttin á sívaxandi vinsældum að fagna þar um slóðir. Akurinn er að sönnu óplægður en þegar Edwin kom fyrst til Moskvu fyrir rúmum fjórum árum voru aðeins þrír golfvellir í gjörvöllum gömlu Sovétríkjunum.

Eftir Orra Pál Ormarsson

orri@mbl.is

Enginn verður feitur af því að hanna golfvelli á Íslandi,“ segir Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallahönnuður og glottir út í annað. Hann hefur því leitað hófanna erlendis eftir verkefnum með góðum árangri, einkum í Austur-Evrópu.

„Það var ekki meðvituð stefna að hasla sér völl í austurvegi,“ segir Edwin þegar hann er spurður hvernig þetta hafi komið til. „Í lok árs 2004 komst ég í samband við aðila sem eru vel tengdir í rússneskum golfiðnaði, sem var og er reyndar enn býsna smár í sniðum. Við hófum samstarf og síðan hef ég reynt að koma ár minni fyrir borð,“ segir Edwin.

Eitt leiddi af öðru og fljótlega var Edwin kominn í kynni við fjölda fólks þar eystra. „Það er með þetta eins og önnur viðskipti, það er lykilatriði að þekkja rétta fólkið.“

32 millilandaferðir á hálfu ári

Til að setja málið í samhengi er Rússland ekki beinlínis Mekka golfíþróttarinnar. Þegar Edwin sté þar fyrst niður fæti voru þrír golfvellir í gjörvöllum lýðveldum Sovétríkjanna sálugu. Tveir í Moskvu (18 og 9 holu) og einn í Pétursborg (6 holu). Fyrsti golfvöllurinn í Úkraínu, 9 holur, var vígður með pomp og prakt í fyrra. Þar búa 47 milljónir manna.

„Ætli Sovétmönnum hafi ekki þótt golfið standa fyrir vestræn gildi,“ veltir Edwin fyrir sér spurður hverju þetta tómlæti sæti. „Áhuginn er samt hægt og bítandi að aukast og þetta er mjög áhugaverður markaður fyrir mann eins og mig. Þetta er óplægður akur.“

Mikið fjármagn var í umferð eystra þegar Edwin kom þangað fyrst og árið 2006 tóku fyrirspurnir að streyma til hans. Til að gefa lesendum einhverja mynd af umfanginu fór Edwin í 32 millilandaferðir seinni hluta árs 2007. „Ég gæti hiklaust stofnað eins manns ferðaskrifstofu, svo vanur er ég orðinn að skipuleggja flug. Svo mikill var atgangurinn að ég gleymdi hreinlega að fara í tvær ferðir og miðarnir fóru til spillis,“ segir hann hlæjandi.

Verkefnin eru af ýmsu tagi en hverfast að mestu leyti um að velja land, leggja mat á land og gera kostnaðaráætlanir. „Það hefur komið bakslag í þetta í vetur vegna efnahagsástandsins í heiminum en menn vilja eigi að síður vinna ákveðna grunnvinnu til að geta ráðist í framkvæmdir sem fyrst þegar rofar til í efnahagslífinu.“

Flest hafa þessi verkefni verið í Úkraínu en Edwin segir ekki hlaupið að því að gera golfvelli þar um slóðir. „Óvissan í landinu er mikil, ekki síst í pólitíkinni, og það er ekki á vísan að róa. Golfáhuginn fer þó vaxandi og ég er sannfærður um að þarna eiga eftir að rísa margir golfvellir á næstu árum. Úkraínumenn hafa ekki látið aðstöðuleysið stöðva sig. Um nokkurt skeið hafa þeir haldið úkraínska meistaramótið árlega, en það hefur oftast farið fram í Tyrklandi. Núna geta þeir loks haldið sitt landsmót á heimavelli.“

Áhuginn nægir þó ekki einn og sér. Eignarhald á landi er til að mynda óhemju flókið. „Það þarf að jafnaði um það bil sextíu hektara undir átján holu golfvöll og þar sem eignarhaldið er víðast hvar á hendi margra smábænda, sem eiga hver sinn skika, er hægara sagt en gert að komast yfir nægilegt landrými. Þar að auki eru eigendaskipti á landi sem skilgreint er sem landbúnaðarsvæði háð ströngum skilmálum í Úkraínu.“

Af öðrum löndum sem Edwin hefur starfað í má nefna Litháen og Búlgaríu. Þá kveðst hann hafa mikinn áhuga á austlægari löndum, svo sem Kirgistan og Tadsjikistan.

Edwin kann orðið hrafl í rússnesku en menn tala litla sem enga ensku á þessum slóðum. Þegar kemur að samningagerð og formlegri viðræðum hefur hann hins vegar alltaf túlk sér til fulltingis. „Það er ekkert vit í öðru.“

Það verkefni sem Edwin hefur tekið að sér eystra og er lengst á veg komið er ekki í Úkraínu heldur í öðru fyrrverandi lýðveldi Sovétríkjanna. Hann kýs að nafngreina það ekki af ástæðum sem hann gerir grein fyrir hér á eftir. Um er að ræða átján holu golfvöll sem Edwin hefur hannað frá grunni.

Verkefnið er þannig til komið að arkitektar í Moskvu, sem þekkja til starfa Edwins, bentu auðkýfingi nokkrum á hann en sá hafði áform um að byggja golfvöll á búgarði sínum. „Þetta er athafnamaður sem er vélaverkfræðingur að mennt en kom undir sig fótunum með því að framleiða inniskó. Eins undarlega og það hljómar. Um miðjan síðasta áratug hljóp síðan á snærið hjá honum þegar hann tryggði sér rétt til að bora eftir olíu á einhverjum skika í Túrkmenistan. Þetta var verkefni upp á von og óvon en hann hafði heppnina með sér og fann olíu. Eftir það veit hann ekki aura sinna tal,“ útskýrir Edwin.

Varla þarf að taka fram að athafnamaðurinn hefur lagt inniskóna á hilluna.

Búgarðurinn er á hæð í nágrenni höfuðborgar þessa ágæta lands. Athafnamaðurinn lét nýverið reisa þar höll mikla en þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að hún tæki sig ekki nægilega vel út á hæðinni lét hann jafna hana við jörðu og reisa aðra – helmingi glæsilegri. „Honum fellur sú höll betur,“ segir Edwin og bætir við að ljósakrónan í anddyrinu sé þyngri en bíllinn hans. „Og ek ég þó ekki um á Nissan Micra!“

Gleðst þegar olían hækkar

Á búgarðinum eru meðal annars vín- og matekrur, nautgriparækt og dýragarður, athafnamanninum, fjölskyldu hans og gestum til gamans og yndisauka. „Svo vill hann hafa átján holu golfvöll í einu horninu,“ segir Edwin. Sjálfur hefur athafnamaðurinn aldrei sveiflað kylfu en þykir gott að hafa golfvöll til umráða ef ske kynni að gestir hans gerðu það. „Ég veit að á meðal vina hans er þjóðhöfðingi nokkur sem leikur golf, en svo fólk verði ekki viti sínu fjær af forvitni, þá er ágætt að taka fram að hann er lítt þekktur meðal Vesturlandabúa.“

Fyrirhugað er að framkvæmdir við völlinn hefjist á næstu mánuðum, jafnvel strax í vor. „Það er reyndar smá skjálfti í mönnum núna út af olíuverðinu og hugsanlega verður beðið í einhverja mánuði. Ég er líklega eini Íslendingurinn sem kætist um þessar mundir þegar olíuverðið hækkar,“ segir Edwin hlæjandi.

En hvers vegna hvílir svona mikil leynd yfir verkefninu?

„Ástæðan er sú að verkkaupi vill ekki að stjórnvöld í landinu viti af verkefninu og hefur lagt sig í líma til að koma í veg fyrir það. Ég hef setið mjög skrýtna fundi vegna þessa máls. Hann vill hafa þennan golfvöll algjörlega út af fyrir sig og kærir sig ekki um að stjórnvöld séu með puttana í þessu,“ upplýsir Edwin.

Hann viðurkennir að það sé bagalegt fyrir sig að geta ekki greint frá þessu með nákvæmari hætti enda hafi hann haft mikið frelsi við vinnuna og fengið góðan stuðning frá verkfræðingum og landslagsarkitektum. „Ég er mjög ánægður með útkomuna.“

Að byggja upp frá grunni

Að áliti Edwins er það bara tímaspursmál hvenær fleiri verkefni sem hann hefur komið nálægt komast á rekspöl, einkum í Úkraínu. „Maður finnur að það er stutt þangað til Úkraína springur út, ekki síst Krímskaginn. Þar eru miklir möguleikar í ferðamennsku enda svæðið ákaflega fallegt og sagan merkileg. Nægir þar að nefna Yalta-fundinn þar sem bandamenn komu saman til að endurskipuleggja Evrópu eftir seinna stríð.“

Hann gerir ráð fyrir að verða með annan fótinn eystra á næstu misserum. „Það er mikil áskorun að hjálpa fólki að byggja golfið upp frá grunni. Í hverju tilviki er ég oftast fyrsti ráðunauturinn sem leiddur er að borðinu sem hefur sérþekkingu á golfi. Fyrir vikið leita viðskiptavinir mínir til mín vegna ýmissa hluta sem færu nánast umhugsunarlaust í annan farveg á þroskaðri mörkuðum. Það kemur til af því að á þessum stöðum er engin reynsla í umhverfinu, engin hefð og stuðningur fyrir hendi. Dreifingaraðilar sem sýsla með umhirðutæki í viðkomandi landi eru ýmist ekki til eða hafa litla reynslu. Innflutningur á öllu slíku, einnig sjálfvirkum úðarakerfum, sérstöku golfvalla-grasfræi og áburði getur þannig orðið flókinn. Þar að auki þarf að finna reynt og menntað fólk til að hirða vellina þegar þeir eru komnir í ræktun og þjálfa starfsfólk í klúbbhúsi í að þjónusta viðskiptavini framtíðarinnar, en eins og margir vita getum við kylfingar verið sérvitrir mjög. Það sem ég finn þó mest fyrir er alger skortur á verktökum sem hafa einhverja reynslu eða vit á golfvallagerð. Ég hef því verið að taka að mér verkstjórn og útvega þá reynda kappa til starfans. Í því felst oft að við tökum að okkur stóran hluta mótunarvinnunnar. Í raun hefur þetta þróast þannig að ég býð svo til alla þá aðstoð sem þarf til að koma verkefnunum á koppinn, ef þannig má að orði komast.“

Það er mikið verk að vinna þarna eystra. „Fyrir vikið hef ég sama og ekkert reynt að koma mér á framfæri á Vesturlöndum, þessi markaður er einfaldlega miklu meira spennandi. Ég á alveg eins von á því að verða með einhverja búsetu þarna á næstu árum en draumurinn er að vera hér heima á sumrin. Það jafnast ekkert á við íslenska sumarið!“

Stal sprænunni

Edwin Roald hefur lent í ýmsum ævintýrum í hinum gömlu lýðveldum Sovétríkjanna. Minnisstæðast er honum atvik þegar hann lenti ítrekað í landamæraeftirliti á leið sinni milli tveggja ónefndra ríkja.

Hann kom þá án vandræða yfir landamærin með einkabílstjóra viðskiptavinar síns á fund að morgni dags. Edwin hafði áformað að dveljast í þrjá daga í landinu en þar sem fundurinn fór út um þúfur afréð hann að snúa aftur sama dag.

Ekkert flug hentaði honum þannig að hann hélt sem leið lá niður á rútustöð og komst að því sér til mikillar ánægju að rúta færi til áfangastaðar hans innan fárra mínútna.

Fyrst þurfti Edwin þó að tæma skinnsokkinn. Þegar því var lokið komst hann að raun um að hann þurfti að greiða fyrir sprænuna hjá þar til gerðum gjaldkera. Nú voru góð ráð dýr enda var Edwin ekki með reiðufé í gjaldmiðli þess ríkis sem hann var staddur í. Hann bauð gjaldkeranum, eldri konu, því greiðslu í öðrum gjaldmiðlum.

Sú gamla vildi ekki hafa það og gerði hróp að Edwin – eða þannig skildi hann alltént mál hennar. Þar sem Edwin var tæpur á tíma lagði hann fé á borðið, ríflega greiðslu í öðrum gjaldmiðli, stökk yfir hliðið út af salerninu og hljóp sem fætur toguðu út í rútu – með hjartað í buxunum og þá gömlu á hælunum.

(Raunar kom hún ekki á eftir honum en sagan er betri þannig.)

Með dollaramerki í augum

Erfiðleikar Edwins voru þó rétt að byrja. Hann gerði sér ekki grein fyrir því að hann ætti eftir að fara í gegnum landamæraeftirlit á hvorki fleiri né færri en fjórum stöðum. Á hverjum stað komu hermenn um borð í rútuna gráir fyrir járnum. Um leið og þeir sáu ljósbláa vegabréfið hans Edwins birtust dollaramerki í augum þeirra.

Það vakti líka athygli varðanna að á pappírunum sem Edwin hafði í fórum sínum kom fram að hann hefði komið inn í landið sem ferðamaður um morguninn og ætlað að vera þar í þrjá daga. „Hvers vegna ertu að fara strax?“ spurðu þeir. Ekki hjálpaði það Edwin heldur að vera klæddur í jakkaföt og með bindi.

Þetta gerðist sumsé í fjórgang. Allir virtust landamæraverðirnir kaupa skýringar Edwins á endanum, sem hann bar á borð fyrir þá á frumstæðri rússnesku en allir vildu þeir líka „selja“ honum vegabréfsáritun. Hann þurfti því að tína ófáa dollarana upp úr pússi sínu þennan dag.

Á einum staðnum hugkvæmdist honum raunar að bera íslenska mynt á landamæraverðina sem þóttust hafa himin höndum tekið. „Íslenska krónan er sterkari en við höldum,“ segir Edwin brosandi.

Langur tími fór í yfirheyrslur á hverjum stað fyrir sig og Edwin segir rútufarþega hafa verið farna að líta sig hornauga. Hann segir lífsreynsluna hafa verið óþægilega en kveðst ekki hafa verið sérlega óttasleginn. „Í versta falli hefði mér verið hent í steininn en ég áttaði mig snemma á því að verðirnir höfðu ekkert á því að græða. Þeir voru bara á höttunum eftir dollurum.“

Og pyngjan léttist í ferðinni.

Dásemd hins skapaða

Hermt er að Ísland sé „stórasta“ land í heimi og sé íbúafjöldi settur í samhengi við ferkílómetra er það ekki fjarri lagi. „Mér reiknast svo til að dreifðu allir Íslendingar sér með jöfnu millibili um landið gætum við ekki kallast á. Ef til vill fer það þó eftir vindátt!“ segir Edwin Roald sposkur á svip. Það þarf heldur ekki að fjölyrða um fegurð og fjölbreytileika íslenskrar náttúru. Það þýðir að líkurnar á því að finna hentugt land undir golfvelli eru mjög góðar.

„Víða erlendis þarf að færa til mikið magn jarðvegs við gerð golfvalla en hér er staðan oftast önnur,“ segir Edwin. „Hér eru góðar líkur á að leggja megi vellina í landið eins og það er frá náttúrunnar hendi, en sú aðferðafræði krefst þess af hönnuðinum að hann hafi nógu hreinræktaða og vel ígrundaða hugmyndafræði um golfleikinn að leiðarljósi til að fara vísvitandi út af þeirri braut sem virðist hafa verið mörkuð í golfvallagerð síðustu áratugi. Ég tel að um sig hafi gripið ákveðin hjarðmennska þegar golfvallagerð tók aftur við sér eftir seinna stríð. Þá voru stórvirkar vinnuvélar komnar í tísku og það þótti fínt að beita þeim óspart. Hið góða var að það gerði okkur kleift að byggja golfvelli á ýmsum áhugaverðum stöðum, en á hinn bóginn er engu líkara en að þessar vélar hafi skilið eftir sig sömu stórgerðu formin.“

Edwin segir golfvallagerð sem listgrein þó hafa tekið stakkaskiptum síðustu 15 árin eða svo og hún sé hugsanlega fyrst núna að ná aftur þeim hæðum sem hún náði í aðdraganda heimskreppunnar við lok þriðja áratugarins. „Það helgast að hluta til af því að menn hafa lagt meiri áherslu á að velja gott land. Þar sem það tókst hafa golfvellir jafnvel öðlast heimsfrægð einmitt fyrir það hversu lítið þurfti að gera við landið til að hægt yrði að leika þar golf við góðar aðstæður. Ég held að Ísland eigi hér miklu meiri möguleika en flestir þora að vona,“ segir Edwin og bætir við að mannsheilinn geti aldrei keppt við sjálft sköpunarverkið. „Ég á alltént eftir að hitta þann mann.“

Hann lætur hugann reika. „Hugsaðu þér öll formin í íslenskri náttúru. Á ferðum mínum um landið hef ég alltaf með mér myndavél og fer ósjaldan út úr bílnum til að taka myndir. Ég er alltaf að sjá eitthvað nýtt. Íslenskt landslag og náttúra eru mér mikill innblástur og það eru í raun algjör forréttindi að búa hér. Ég er ekki frá því að það veiti mér forskot á golfvallahönnuði í ýmsum öðrum löndum. Líklega flestum öðrum löndum,“ segir Edwin og bætir við að margt sé vitlausara en að „flytja út“ íslenskt landslag í þessu sambandi, þ.e. að byggja golfvelli erlendis á fjölbreyttum formum úr íslensku landslagi.

Kuldinn er kostur

Golf er háð veðri og er því fyrst og síðast sumaríþrótt hérlendis. Sumarið er stutt á Íslandi en á móti kemur að birtuskilyrði eru mun hagstæðari en víðast hvar annars staðar. „Það er fáheyrt að fólk geti unnið fullan vinnudag og farið síðan og spilað átján holur. Áhugasamir kylfingar geta því náð góðri nýtingu hér enda þótt tímabilið sem hægt er að spila sé ekki langt,“ segir Edwin.

Hann segir marga erlenda kylfinga hleypa brúnum þegar þeim er sagt að hér sé hægt að leika golf allan sólarhringinn hluta sumarsins. „Sú staðreynd hefur dregið margan kylfinginn til landsins.“

Svo sem við þekkjum er sumarið víðast hvar hlýrra en á Íslandi. Frá sjónarhóli Edwins er það kostur. Það þýðir nefnilega að við getum byggt golfvelli fyrir minni tilkostnað en flestar aðrar þjóðir. Skýringin er tvíþætt. Annars vegar er hætta á þurrki mun minni hér um slóðir og fyrir vikið þurfum við ekki á eins öflugum vökvunarkerfum að halda. Hinsvegar er úrkomumagn á klukkustund á Íslandi með því minnsta sem þekkist á byggðu bóli, þ.e. hér gerir sjaldan úrhelli. Fyrir vikið þurfum við sjaldnar að losna mjög hratt við vatn af golfvöllum eftir rigningar en það er stórt viðfangsefni víða erlendis.

Að sögn Edwins eru kerfi af þessu tagi, þ.e. dren- og vökvunarkerfi, rándýr. „Hér á landi erum við því nánast laus við tvo stóra kostnaðarliði. Þetta er ákveðin einföldun og er háð fleiri áhrifaþáttum, en þetta er raunhæft í mörgum tilvikum.“

En hvað kostar að gera golfvöll?

„Víða í Bandaríkjunum þykir eðlilegt að kostnaður hlaupi á átta milljónum dollara, þ.e.a.s. tæpum milljarði íslenskra króna, og þá erum við að tala um hefðbundinn völl sem stenst þær kröfur sem kylfingur þar í landi virðist gera í dag. Það má auðveldlega byggja völl fyrir mun meiri fjármuni. Hér á landi erum við að vinna í allt öðru kostnaðarumhverfi. Ætli kostnaðurinn hér sé ekki að jafnaði 15-20% af þessari upphæð. Gæði golfvalla eru afstæð og íburðurinn ekki alltaf besti mælikvarðinn en ég fullyrði að skemmtigildið er í mörgum tilvikum sambærilegt.“

Óvíða almenningsíþrótt

Hlutfallslega lágur kostnaður við golfvelli gerir það að verkum að golf er almenningsíþrótt á Íslandi. Edwin segir það alls ekki sjálfgefið. Víða sé litið á golfið sem íþrótt yfirstéttarinnar enda þurfi að reiða fram fúlgu fjár til að geta spilað.

Þegar minnst er á Bandaríkin segir Edwin yfirleitt fleira hanga á spýtunni þegar golfvöllur er gerður. „Golfvöllurinn einn og sér er nánast úr sögunni í Bandaríkjunum. Nú fylgir hann aðallega fasteignaframkvæmdum. Menn reisa hótel eða dvalarstaði af einhverju tagi og láta golfvöll fylgja með.“

Hérlendis er nálgunin önnur. „Á Íslandi er völlurinn sjaldan afgangsstærð í heildarverkefninu og fullyrða má að Ísland sé einn af örfáum stöðum í heiminum þar sem nýir golfvellir einir og sér geta blómstrað í framtíðinni. Það er raunar mín trú að strandsvæði við Norður-Atlantshafið eigi eftir að verða suðupottur íþróttarinnar á 21. öldinni. Það þarf ekki alltaf að verja miklum fjármunum til að ná gæðum.“

Ekki þarf að fjölyrða um efnahagsástandið á Íslandi og Edwin gerir sér grein fyrir því að golfklúbbar eigi eftir að halda að sér höndum á næstunni. Í því ljósi ákvað hann nýverið að gefa íslenskum golfklúbbum hundrað vinnustundir á þessu ári. Forgang höfðu smærri klúbbarnir og þegar upp var staðið höfðu nítján klúbbar sótt um.

Sóknarfæri á landsbyggðinni

„Ég geri þetta öðrum þræði til að styðja við golfklúbba á landsbyggðinni en það er mín trú að þeir séu okkar helsta söluvara. Ferðamaður sem kemur til Íslands er ekki þessi „venjulegi“ ferðamaður. Sama á við um kylfinga. Þeir kylfingar sem hingað koma eru mjög líklega að sækjast eftir óvenjulegri upplifun og fyrir vikið ættu vellirnir á landsbyggðinni að höfða meira til þeirra. Það gera sér ekki allir grein fyrir því að við eigum alveg ótrúlega marga góða golfvelli. Það hafa margir orðið hissa þegar þeir koma í fimmhundruð manna þorp og átta sig á því að þar er frábæran golfvöll að finna. Það er brýnt að styðja betur við bakið á litlu klúbbunum á landsbyggðinni.“

Edwin veit hvað hann syngur í þessum efnum en golftúrismi hefur lengi verið áhugamál hjá honum. Hann hefur sótt fjölmörg mót golfblaðamanna erlendis og notað tækifærið til að rekja úr mönnum garnirnar. „Ég er kominn með mjög góð sambönd ytra og geri mér ágætlega grein fyrir því hvað kylfingar vilja. Umræða um golftúrisma mætti vera líflegri hér á landi.“

Í hnotskurn
» Undanfarin sumur hefur Edwin unnið talsvert fyrir Golfklúbb Akureyrar að endurbótum á vellinum nyrðra, eins fyrir Golfklúbbinn Kjöl í Mosfellsbæ. Það er stækkun Hlíðavallar úr 9 holum í 18 með nýtingu Blikastaðaness.
» Hann vann líka að svokölluðu Golfborga-verkefni í Grímsnesi en framkvæmdir stöðvuðust þar haustið 2007 og hafa ekki hafist að nýju.
» Af öðrum verkefnum má nefna Haukadalsvöll við Geysi, stækkun og miklar breytingar á Silfurnesvelli á Höfn í Hornafirði og þróun nýs golfvallar að Hvammi við Grenivík.
» Nánar á edwinroald.com og videygolf.com.