BOTOX hefur eytt áhyggjuhrukkum af enni margra frá því að það kom á markað fyrir sjö árum, þótt ekki sé efnið nógu öflugt til að eyða áhyggjunum að baki.

BOTOX hefur eytt áhyggjuhrukkum af enni margra frá því að það kom á markað fyrir sjö árum, þótt ekki sé efnið nógu öflugt til að eyða áhyggjunum að baki. Nú setur framleiðandi Botox í brýrnar af áhyggjum vegna yfirvofandi samkeppni frá nýjum hrukkubana, Reloxin.

Bandaríska dagblaðið New York Times skýrði frá því á miðvikudag að reiknað væri með að bandaríska lyfjaeftirlitið samþykkti markaðssetningu ReloxinsSkip to next paragraph. Efnið er sagt fljótvirkara en Botox og endast lengur, en Botox þarf að endurnýja á um fjögurra mánaða fresti. Læknar, sem unnið hafa að rannsóknum á nýja hrukkubananum hafa undanfarið fullyrt í bandarískum fjölmiðlum að hann taki forvera sínum fram að öllu leyti.

Bandaríski framleiðandi efnisins, Medicis Pharmaceutical, er þegar farinn að reikna með milljónum í kassann. Fyrirtækið á þó ekki heiðurinn af nýjunginni, því franska fyrirtækið Ipsen setti efnið á markað fyrir nokkru. En Bandaríkin eru draumamarkaðurinn fyrir hrukkubana, það vita framleiðendur af því að hafa fylgst með velgengni Botox.

Þörf á endurmenntun

Þótt fyrstu rannsóknir lækna í Bandaríkjunum bendi til yfirburða Reloxins eru þó þeir annmarkar á, að enn hafa aðeins verið gerðar fremur litlar rannsóknir. New York Times hefur eftir Dr. Berthold Rzany að gera þurfi rannsóknir á stórum hópi, a.m.k. 300 manns, til að fá marktækar niðurstöður um hvort lyfið endist lengur. Það myndi hins vegar skipta töluverðu máli fyrir neytendur, því bæði lyfin eru dýr og því munar um að þurfa ekki að fara á fjögurra mánaða fresti til að þurrka út hrukkur og svipbrigði.

Þótt Reloxin fari á markað í Bandaríkjunum tekur að líkindum tíma fyrir lyfið að ná jafnmikilli útbreiðslu og Botox. Viðmælendur New York Times segja lækna þurfa á endurmenntun að halda. Þeir þurfi að þreifa sig áfram með skammta, hvort lyfið dugir aðeins fyrir hrukku milli augna, eða líka við gagnaugu og munn.