Pontiac Firebird 1976 Á næsta ári mun General Motors hætta framleiðslu á Pontiac vegna kreppunnar en það mun eflaust hryggja marga bílaáhugamenn enda nokkurs konar táknbíll sérvitringa.
Pontiac Firebird 1976 Á næsta ári mun General Motors hætta framleiðslu á Pontiac vegna kreppunnar en það mun eflaust hryggja marga bílaáhugamenn enda nokkurs konar táknbíll sérvitringa. — Reuters
Eftir Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Dagar indíánahöfðingjans, öðru nafni fólksbílsins Pontiac, verða senn taldir. Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM) hefur ákveðið að stokka starfsemi sína verulega upp og breyta áherslum vegna kreppunnar.

Eftir Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Dagar indíánahöfðingjans, öðru nafni fólksbílsins Pontiac, verða senn taldir. Bandaríski bílaframleiðandinn General Motors (GM) hefur ákveðið að stokka starfsemi sína verulega upp og breyta áherslum vegna kreppunnar. Þar á meðal er ætlunin að hætta smíði Pontiac á næsta ári. Sýta munu það eflaust margir.

Fleiri merkja gætu hugsanlega beðið sömu örlög, því GM segir að fyrir árslok muni framtíð Hummer, Saab og Saturn ráðast. Fyrirtækið ætlar að einbeita sér að framleiðslu Chevrolet-, Cadillac-, Buick- og GMC-bíla. Stjórn GM þarf að leggja trúverðuga áætlun um endurreisn fyrirtækisins fyrir Bandaríkjastjórn í síðasta lagi 1. júní næstkomandi, eigi það að fá áfram fjárhagsaðstoð frá ríkinu í stað þess að vera ýtt í gjaldþrot.

Pontiac-bíllinn hefur verið framleiddur frá árinu 1926 eða í 83 ár er síðasti bíllinn rennur af færibandinu á næsta ári. Hefur bíllinn fyrst og fremst verið seldur í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

Höfuðdjásn indíána

Nafnið dregur bíllinn af Pontiac höfðingja, amerískum indíánaforingja sem stýrði misheppnaðri uppreisn gegn Frökkum skömmu eftir 1760. Var höfuðdjásn indíána táknmerki bílsins fyrstu 30 árin en var breytt í örvarodd árið 1956. Og löngum þótti bíllinn hið mesta djásn, alla vega í útliti.

Fyrsti bíllinn bar nafnið Pontiac Chief og var knúinn 39 hestafla 3,1 lítra mótor. Öllu þekktari og klassískari eru gerðirnar GTO, Firebird, Trans-Am, Fiero og Bonneville. Pontiac gegndi hlutverki í einhverjum frægustu bílahlutverkum í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Til að mynda Pontiac Trans-Am í myndinni Knight Rider's og Firebird Trans-Am í myndinni Smokey and the Bandit.

Fiero varð að táknbíl sérvitringa og til varð fjöldi eftirlíkinga af honum og hönnun seinni tíma sportbíla dró dám af bílnum.

Færri tegundir

Á allra síðustu árum hefur Pontiac komið með kraftmikla bíla á borð við G8, sem leysti af hólmi GTO-bílinn, Bonneville og Grand Prix, og seldur er í Bretlandi sem VXR8. G8-bíllinn hefur verið tilnefndur til verðlauna sem besti bíll Bandaríkjanna í ár.

Meðal annarra ráðstafana GM er að fækka bílategundum sem það selur úr 48 í fyrra í 34 á næsta ári. Einnig verður umboðsfyrirtækjum fækkað úr 6.246 í fyrra í 3.605 fyrir árslok 2010. Þá verður samsetningar- og íhlutasmiðjum og aflrásarsmiðjum í Bandaríkjunum fækkað úr 47 í fyrra niður í 34 fyrir árslok 2010 og 31 við árslok 2012.

Minni markaðshlutdeild

Loks verður ótilgreindum fjölda starfsfólks sagt upp í samræmi við samkomulag við samtök stéttarfélaga í bílaframleiðslu, UAW. Samkvæmt því ætlar GM að ná launakostnaði úr 7,6 milljörðum dollara í 5 milljarða á næsta ári. Jafnframt heitir það að fram til 2014 verði árlega varið 5,3-6,7 milljörðum dollara til vöruþróunar og þróunar framtíðarbíla. Loks segir GM að rafbíllinn Chevrolet Volta verði tilbúinn til fjöldaframleiðslu á næsta ári.

Áætlanir GM gera ráð fyrir því að markaðshlutdeild fyrirtækisins lækki í 18,4-18,9 prósent vegna aðgerðanna. Og samkvæmt þeim þarf GM að selja 10 milljónir bíla á ári til að ná endum saman í rekstri. Það segir fyrirtækið eiga að nást um leið og efnahagsástandið batnar en í fyrra seldi GM 8,35 milljónir bíla.