Guðjón Arnar Kristjánsson
Guðjón Arnar Kristjánsson
Eftir Guðjón Arnar Kristjánsson: "Ef ekki má sækja nýjar tekjur í sjó nema með skriflegu leyfi embættismanna Hafró er illa fyrir okkur komið."

HVERNIG ætlar ríkisstjórnin að afla nýrra tekna fyrir þjóðfélag sem er nú með fjárlagahalla upp á 170-180 milljarða króna (ma. kr.)? Allt bendir til að lækkun skatttekna frá september 2008 til september 2009 verði 70 ma. kr. Heildartekjur ríkissjóðs árið 2009 verða þá um 380 ma. kr. en ekki 402 ma. kr. eins og fjárlög gerðu ráð fyrir á þessu ári. Ef standa á vörð um velferðarkerfið, heilbrigðis- og tryggingamál þarf til þess 220-230 ma. kr. Vaxtagjöld þessa árs eru tæpir 90 ma. kr. og munu hækka að óbreyttu á næsta ári. Þar með eru farnir yfir 300 ma. kr. í þessa þrjá liði, vexti, trygginga- og heilbrigðismál. Þá eru eftir um 80 ma.kr. til þess að standa straum af öllum öðrum málaflokkum og líklegt er að óbreyttu atvinnustigi að Atvinnuleysistryggingasjóður verði tómur á seinnihluta þessa árs. Þá falla þær skuldbindingar á ríkissjóð, alls 25-30 ma. kr. árið 2010.

Ef ekki má sækja nýjar tekjur í sjó nema með skriflegu leyfi embættismanna Hafró er illa fyrir okkur komið. Hvar á þá að ná í nýjar tekjur og samhliða vinna gegn miklu atvinnuleysi á þessu og næsta ári. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar töldu í svörum sínum að það væri ábyrgðarlaust að veiða meiri þorsk til að auka atvinnu og tekjur fólksins í landinu nema með leyfi Hafró. Afstaða mín er skýr, fiskifræðingar þó prófgráður hafi, eru ekki umboðsmenn fólksins né ákveða heill þess og afkomu. Þá ábyrgð ber Alþingi og sú ríkisstjórn sem völdin fékk í kosningum. Fólk og fyrirtæki geta ekki beðið lengur. Strax þarf að auka vinnu og afla tekna. Hvar eru áherslur ráðherranna í verki? Ríkisstjórnarflokkarnir fengu aukið umboð til þess að takast á við vandann sem ennþá fer því miður vaxandi. Ofurvextir og verðtrygging heldur atvinnurekstri og fjölskyldum áfram í okurlánakreppu. Því ástandi verður nú að ljúka. Látið verkin tala. Orð duga ekki.

Höfundur er formaður Frjálslynda flokksins

Höf.: Guðjón Arnar Kristjánsson