REYNIR Traustason, ritstjóri DV og fyrrverandi ritstjóri Mannlífs, var í Hæstarétti í gær dæmdur til að greiða hálfa milljón króna til ríkissjóðs fyrir að birta áfengisauglýsingar í fylgiriti Mannlífs í júlí árið 2006. Sonur Reynis, Jón Trausti, var jafnframt dæmdur í Hæstarétti í gær. Hann var, ásamt ritstjóra Nýs lífs, dæmdur til að greiða Ásgeiri Þór Davíðssyni miskabætur vegna ummæla sem birtust í tímaritinu Ísafold.
Með dómi sínum yfir Reyni var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í júní á síðasta ári. Reynir krafðist sýknu í málinu og byggði á því að ekki hefði verið um auglýsingar að ræða, heldur umfjöllun um áfengi. Talið var að um hefði verið að ræða tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar hafi verið áfengistegundir. Það væri brot á áfengislögum.
Þar sem höfundur var ekki nafngreindur var Reynir talinn bera refsiábyrgð sem ritstjóri.
Miskabæturnar lækkaðar
Hæstiréttur staðfesti einnig að hluta dóm yfir Jóni Trausta Reynissyni, ritstjóra DV og fyrrverandi ritstjóra Ísafoldar, og Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, fyrrverandi ritstjórnarfulltrúa Ísafoldar, vegna ummæla um Ásgeir Þór í tímaritinu í júní 2007. Í héraði voru þau dæmd til að greiða Ásgeiri eina miljón kr. í miskabætur.Fallist var á með Ásgeiri að í ummælum hefðu falist aðdróttanir um refsiverða háttsemi. Hins vegar var talið að tvenn ummæli í greininni væru almenns eðlis og beint að ótilgreindum mönnum.
Jón Trausti og Ingibjörg voru dæmd til að greiða Ásgeiri 500 þúsund kr. í miskabætur og 300 þúsund kr. til að standa straum af birtingu niðurstöðu dómsins.