Veiðimenn Skúli og Sturla ásamt Flugu sem sótti allar þær gæsir, endur og skarfa sem eru á borð borin í fermingarveislunum tveimur.
Veiðimenn Skúli og Sturla ásamt Flugu sem sótti allar þær gæsir, endur og skarfa sem eru á borð borin í fermingarveislunum tveimur. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki einungis leggur Skúli Pétursson á sig að elta matinn ofan í fermingarveislugesti sonar síns um allar koppagrundir og fanga, hann matreiðir hann einnig, fyrst fyrir 100 manns á höfuðborgarsvæðinu og svo endurtekur hann leikinn fyrir 20 manns á Dalvík.

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur

ben@mbl.is

TUTTUGU manns á Dalvík fá óvenjulega þjónustu á morgun. Þeim var boðið í fermingarveislu fyrir sunnan um síðustu helgi en höfðu ekki tök á að koma. Gestgjafarnir létu sér þó ekki segjast heldur koma einfaldlega með veisluna norður yfir heiðar til gestanna og endurtaka hana þar.

„Við bjuggum lengi á Dalvík og eigum mikið af vinafólki þar sem komst ekki um daginn enda tíminn óhentugur að mörgu leyti,“ útskýrir Skúli inntur eftir þessari óvenjulegu tvöföldu fermingarveislu. „Þá ákváðum við að koma með veisluna í farangrinum til þeirra þarna fyrir norðan.“

Maturinn í veislunni spilar stórt hlutverk í þessari ákvörðun að sögn Skúla en hefð er fyrir því hjá honum að bjóða upp á villibráð af ýmsum toga í slíkum veislum. Ástæðan er eldheitur áhugi hans á alls kyns veiðum sem virðist erfast í beinan karllegg. Þannig á fermingarbarnið, Sturla Holm Skúlason, sjálft heilmikinn heiður af krásunum sem bornar eru fram í veislunum tveimur. „Hann hefur verið í stangaveiðinni og gengið með mér í skotveiðinni og svo hefur hann tekið þátt þegar við höfum verið að háfa fugl,“ útskýrir pabbinn stoltur.

Og bráðin er af öllu tagi. „Eða eins og einhver orðaði það: allt sem lífsandann dregur,“ segir Skúli en sér sér ekki fært annað en draga örlítið í land með þá yfirlýsingu. „Í öllu falli er það allt frá hreindýrum og sel að fuglakjöti og sportfiski.“

Þeir feðgar láta ekki þar við sitja heldur stússast sjálfir í matreiðslunni, mest þó Skúli sem þiggur aðstoð frá mági sínum, Sigurði Magnússyni matreiðslumeistara. Veislugestirnir kunnu enda vel að meta kræsingarnar, í öllu falli þeir hundrað sem gæddu sér óspart á þeim um síðustu helgi. „Ég held að ýmsir forréttir hafi verið vinsælastir, sem og selapottrétturinn sem er soðinn í malti og eiginlega kláraðist,“ segir Skúli.

Marineruð fóörn og flamberuð hjörtu

Gestirnir á Dalvík þurfa þó ekki að örvænta nema síður sé. „Megnið af matnum er tilbúið en þarna verða einnig ýmiss konar sérréttir sem voru ekki í aðalveislunni, eins og marineruð fóörn og flamberuð hjörtu. Þessir réttir voru ekki til í nægilega miklu magni fyrir 100 manna veislu en nægja vel fyrir litlu veisluna fyrir norðan.“

Eins og lætur nærri er fermingardrengurinn alsæll með umstangið og „hefur ekki hætt að brosa í nokkra daga,“ eins og faðir hans lýsir honum. Sturla segist líka hæstánægður með hið tvöfalda fermingarveislufyrirkomulag. „Það er bara enn meiri skemmtun,“ segir hann. „Það var mjög gaman um síðustu helgi, fullt hlaðborð og margir gestir.“

Sjálfum finnst honum „gæsin langbest“ en er ekki í vafa um hvað sé skemmtilegast að veiða. „Það er örugglega að háfa lunda á Borgarey í Ísafjarðardjúpi,“ segir hann.

En skyldi hann vera sammála pabba sínum að maturinn sé aðalmálið í fermingarveislunum? Sturla hikar stundarkorn áður en hann svarar: „Það er svona „fiftí, fiftí“, maturinn og gjafirnar.“

Fiskipaté

Uppskriftin er frá Sigurði Magnússyni matreiðslumeistara og er meðal rétta í veislunum.

3 kg fiskur

2 kg rjómaostur

1/2 l rjómi

1 l fisksoð

200 g hlaup (aspic)

Fiskurinn er soðinn í fisksoðinu, maukaður, kældur og blandaður ostinum og rjómanum. Hlaupinu blandað út í fisksoðið eftir að það hefur verið síað og blandað saman við fiskinn. Fisksoðið má bragðbæta með t.d. mysu eða hvítvíni.

Tvílitt paté: Uppskriftinni skipt í tvennt. Annar helmingur unninn með silungi/laxi og hinn með hvítfiski (t.d. ýsu eða þorski). Fyrri uppskriftinni er hellt í mót til hálfs og látin stífna og sú seinni svo sett yfir þegar því hefur verið náð.