Gísli Guðmundur Ísleifsson hæstaréttarlögmaður fæddist í Reykjavík 18. maí 1926. Hann lést á Kumbaravogi 13. mars 2009. Foreldrar hans voru Ísleifur Árnason prófessor frá Geitaskarði í Langadal og Soffía Gísladóttir Johnsen, stórkaupmanns og athafnamanns frá Vestmannaeyjum. Guðmundarnafn Gísla er í höfuðið á „Muggi“ hinum dáða listamanni og var vitjað í draumi. Systkini Gísla voru Hildur Sólveig og Ásdís, sem báðar eru látnar og Árni.

Gísli kvæntist ungur að árum, Ragnhildi Guðrúnu Finnbjörnsdóttur málarameistara frá Ísafirði og eru börn þeirra Ísleifur flugvirki, Finnbjörn kerfisfræðingur, og Sigríður skrifstofumaður. Gísli og Ragnhildur skildu.

Síðari kona Gísla var Fjóla Karlsdóttir. Börn þeirra eru Örn Tryggvi vélvirki, Karl blikksmiður, Sigurður Kolbeinn iðnrekstrarfræðingur og Guðrún Helga verslunarmaður. Gísli og Fjóla skildu. Gísli ólst upp í föðurhúsum og fetaði í fótspor föður síns og gerðist lögfræðingur og um síðir hæstaréttarlögmaður. Starfaði Gísli um alllangt skeið á lögmannsstofu Ágústs Fjeldsted og Benedikts Sigurjónssonar og varð það hans hlutskipti að verja landhelgisbrjótana. Gísli fór til Montreal í Kanada og lærði „flugmálarétt“ og starfaði svo að því loknu hjá Flugmálastjórn. Hann rak einnig um tíma eigin stofu. Í lokin vann hjá Verðlagsstofnun.

Útför Gísla fór fram í kyrrþey.