BYRJUNARÖRÐUGLEIKAR við notkun nýs tölvuforrits við skráningu á breyttum atkvæðaseðlum urðu þess valdandi að tölur sem yfirkjörstjórnir þriggja kjördæma veittu um útstrikanir voru ónákæmar og yfirkjörstjórn í fjórða kjördæminu treysti sér ekki til að...

BYRJUNARÖRÐUGLEIKAR við notkun nýs tölvuforrits við skráningu á breyttum atkvæðaseðlum urðu þess valdandi að tölur sem yfirkjörstjórnir þriggja kjördæma veittu um útstrikanir voru ónákæmar og yfirkjörstjórn í fjórða kjördæminu treysti sér ekki til að gefa tölurnar.

Yfirkjörstjórnir hafa talið breytingar og útstrikanir á atkvæðaseðlum á talningarstað, í beinu framhaldi af talningunni sjálfri enda er það hluti af henni. Þetta hefur verið gert í höndunum nema Reykjavíkurkjördæmum þar sem tölvuforrit hefur verið haft til aðstoðar. Þorkell Helgason, starfsmaður landskjörstjórnar, segir að þegar grunur vaknaði fyrir þessar kosningar um að mikil aukning yrði á útstrikunum og öðrum breytingum hafi verið ráðist í það verk með stuttum fyrirvara að útbúa töluforrit fyrir yfirkjörstjórnirnar til að halda utan um þessa talningu. Nokkrir byrjunarörðugleikar urðu við notkun forritsins þar sem það sá ekki við sérstökum innsláttarvillum sem hent gátu. Þá veittu yfirkjörstjórnirnar upplýsingar um útstrikanir með mismunandi hætti.

Röðin breyttist ekki

Starfsmenn yfirkjörstjórnar hafa frá kosningum farið nákvæmlega yfir talninguna og gáfu í gær út endanlegar tölur um úrslit. Villurnar sem fram komu á tölum um útstrikanir höfðu í engum tilvikum áhrif á röð frambjóðenda.

Útstrikanir í Norðvesturkjördæmi reyndust minni en uppgefnar tölur hafa áður sýnt. Samkvæmt tölum sem fengust á sunnudag vantaði til dæmis útstrikanir Einars K. Guðfinnssonar og Ólína Þorvarðardóttir þá ranglega sögð hafa fengið flestar útstrikanir. Lilja Rafney Magnúsdóttir var aðeins strikuð út á broti þeirri atkvæðaseðla sem upphaflega var talið. Fyrstu tölur um útstrikanir í Suðvesturkjördæmi reyndust of lágar. Tölurnar úr Suðurkjördæmi voru nálægt lagi enda voru þær byggðar á handtalningu. Tölurnar sem yfirkjörstjórnir í Reykjavíkurkjördæmum gáfu út voru réttar enda gefnar út seinna. helgi@mbl.is

Í hnotskurn
» Útstrikunum var beitt miklu meira nú en í fyrri alþingiskosningum.
» Landskjörstjórn kemur saman til fundar á mánudag til að úthluta formlega þingsætum.