Eftir Magnús Halldórsson
magnush@mbl.is
SKÖMMU fyrir hálftvö á miðvikudag fékk fimmtán ára stúlka í Álftamýrarskóla símatal frá stúlku sem hún hafði áður átt í deilum við vegna orða sem féllu í msn-netspjalli.
Boðaðar sættir
Hringt var undir því yfirskyni að hún vildi ná sáttum við hana. Stúlkan sem fékk símtalið var tilbúin að sættast, þær ákváðu að hittast og sagðist stúlkan sem hafði samband ætla að sækja hana. Skömmu síðar komu tvær stúlkur á jeppabifreið að heimili hennar í Hlíðunum þar sem hún settist upp í bílinn. Þegar hún var komin inn í hann bættist ein aftur í, en hún hafði haldið sig í skottinu þegar stúlkan settist inn. Stúlkan sem taldi sig vera að fara að sættast sat því á milli tveggja stúlkna aftur í. Jeppabifreiðinni var síðan ekið að Suðurveri þar sem fleiri bættust við. Samtals voru stúlkurnar sjö. Jeppabifreiðinni var ekið upp í Heiðmörk, auk þess sem önnur bifreið ók á eftir þar sem unglingspiltur var undir stýri.
Höggin dynja
Þegar komið var upp í Heiðmörk létu tvær 17 ára stúlkur, sem voru í jeppabifreiðinni, höggin dynja á stúlkunni. Þær börðu hana ítrekað, og aðallega í höfuð og andlit. Ein af stúlkunum í hópnum sem fór með upp í Heiðmörk fór og náði í piltinn sem var spölkorn frá þegar alvarlegustu barsmíðarnar áttu sér stað. Hann greip inn í og kom í veg fyrir að stúlkan yrði fyrir frekari barsmíðum.Síðan var stúlkunni hálfvegis hent inn í jeppabifreiðina að nýju og keyrt af stað. Inni í bílnum héldu stúlkurnar áfram að láta höggin dynja á andliti hennar.
Hún var loks keyrð inn í Hafnarfjörð. Þar var henni hent út. Þegar þar var komið hafði stúlkan verið beitt ofbeldi og hótunum í einn og hálfan til tvo tíma. Hún hafði samband við móður sína úr verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði og fór hún rakleiðis með stúlkuna á slysadeild. Hún var illa útleikin í andliti, bólgin og skrámuð, en óbrotin. Henni var að síðustu hótað lífláti ef hún kjaftaði frá og sagt að borga 150 þúsund krónur daginn eftir.
Í losti
Stúlkan var í losti eftir árásina. Hún vildi ekki kæra í fyrstu vegna hræðslu en fjölskylda hennar tók strax ákvörðun um að fylgja málinu eftir. Ekki var tekin skýrsla af stúlkunni fyrr en skömmu fyrir tvö í gær. Um svipað leyti gáfu stúlkurnar sjö, sem komu að árásinni, sig fram við lögreglu. Kæra hafði þá verið lögð fram á hendur þeim sem höfðu haft sig mest í frammi. Rannsókn málsins er á frumstigi að sögn lögreglu.S&S
Hvernig fara yfirheyrslur framyfir ólögráða einstaklingum?
Ekkert þeirra sem áttu hlut að málinu hefur náð 18 ára aldri og eru þau því ekki lögráða. Skýrslutökur yfir þeim sem eiga í hlut eru því unnar í samráði við foreldra eða forráðamenn þeirra. Skýrslutökurnar geta því tekið langan tíma í samanburði við það þegar lögráða einstaklingar eiga í hlut. Það er þó misjafnt eftir málum.
Hver er saknæmisaldur samkvæmt lögum?
Saknæmisaldur er 15 ár en þegar fólk hefur náð þeim aldri er hægt að dæma það til refsivistar skv. lögum.Slegin yfir atburðinum
Undir miðnætti á miðvikudag, daginn sem gengið var í skrokk á stúlkunni, hafði námsráðgjafi í Álftamýrarskóla, skóla stúlkunnar, samband við foreldra til að forvitnast um líðan og málsatvik.Samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarskólastjóra Álftamýrarskóla, Guðna Kjartanssyni, voru nemendur og starfsmenn slegnir yfir atburðinum. Allir hefðu sameinast um að senda stúlkunni, sem varð fyrir árásinni, hlýja strauma.