Jæja, ég tilheyri víst elítunni. Ég þakka hólið. Ég er Evrópusinni.

Jæja, ég tilheyri víst elítunni. Ég þakka hólið. Ég er Evrópusinni. Það eru nokkur ár síðan ég sannfærðist um að Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu, en það eru aðeins nokkrir dagar síðan ég sá fyrst ástæðu til að kynna þá skoðun fyrir öðrum. Á næstunni mun fólk skipa sér í fylkingar. Víglína verður dregin milli Evrópusinna og andstæðinga aðildar. Það verður töluvert um skotgrafahernað. Meirihluti alls þess sem fram mun koma í umræðunni verður með áróðursstíl, þ.e. einstrengingslegur málflutningur með það að augnamiði að fegra aðra hlið málsins með stílbrögðum og útúrsnúningum. Þetta mun gilda jafnt um báðar fylkingar.

Ég vil nota þetta tækifæri og lýsa því hér með yfir að í öllum skrifum mínum og málflutningi um Evrópumálið mun ég ekki beita áróðri. Ég mun aldrei vísvitandi fegra mína hlið málsins á kostnað málefnalegrar umræðu. Ég mun aldrei gegn betri vitund snúa út úr góðum rökum andstæðinga aðildar með stílbrögðum eða hótfyndni. Ástæðan er sú að ég veit sem er að útúrsnúningur og áróður gagnast aldrei málstaðnum þegar til lengri tíma er litið. Auk þess er of mikið í húfi til að varpa því á bálköst hnyttni eða gremju.

Fyrir Evrópusambandsaðild eru ýmis rök með og á móti. Evrópusamandsaðild er ekki lausn á efnahagskreppunni. Þeir sem aðeins eru fylgjandi aðild vegna þess að þeir trúa að hún sé neyðarúrræði vegna efnahagskreppunnar eða lausn allra vandamála sem að henni lúta ættu að endurskoða hug sinn til aðildar. Með slíku viðhorfi er slæmt að stofna til áratuga langs stjórnmála- og viðskiptasambands. Slíkt samband skal aðeins stofna með viðhorfi sem nær langt úr fyrir líðandi stund og snýst um miklu meira en efnahag og viðskipti.

Að þessu sögðu er ljóst að um Evrópusambandsaðild gilda að hálfu leyti tilfinningarök. Það má líkja þessu við hjónaband. Um gagnsemi hjónabands tveggja aðila gilda að hálfu leyti efnahagsleg og hagnýt rök og að hálfu leyti óútskýrðar tilfinningar sem enginn getur gerst svo hrokafullur að útlista í nokkrum setningum eða greinarstúf. Það sama gildir um þetta. Pössum okkur á að aðskilja tilfinningar frá staðreyndum og lofum hvert öðru að vera sanngjörn og málefnaleg í umræðu um Evrópusambandsaðild.

Auk þess sé ég enga ástæðu til að rífast um málið að svo stöddu. Mér heyrist öll stjórnmálaöfl vera reiðubúin til að láta þjóðina kjósa um málið. Er þá ekki fyrsta skrefið að ákveða hvenær kosning fari fram? Og varla verður kosið nema samningstilboð liggi fyrir, svo það er óumflýjanlegt að sækja um aðild. Við förum varla að rífast um það? Það væri varla málefnalegt. Andstæðingar aðildar! Hugsið ykkur að minnsta kosti tvisvar um áður en þið svarið því.

bergur.ebbi.benediktsson@gmail.com

Bergur Ebbi

Höf.: Bergur Ebbi