Umhverfisráðuneytið lítur alvarlegum augum mengun af völdum brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu og hefur haft hana til sérstakrar skoðunar undanfarna mánuði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.
Unnið er að nýrri reglugerð í ráðuneytinu um losun brennisteinsvetnis, og er gert ráð fyrir að í henni verði kveðið á um hámarkslosunarmörk frá jarðvarmavirkjunum. Sagt hafi verið frá því í fréttum að undanförnu að mengun af þessu tagi hafi undanfarið mælst meiri en áður og að líklegt sé talið að hún komi frá Hellisheiðarvirkjun.
„Þá hefur ráðherra lagt til að mælistöðvum sem mæla brennisteinsmengun á höfuðborgarsvæðinu verði fjölgað. Þar að auki hefur ráðherra falið Umhverfisstofnun að finna leiðir til að draga úr styrk brennisteinsvetnis á höfuðborgarsvæðinu svo hratt sem nokkur kostur er. Í því augnamiði hefur Umhverfisstofnun efnt til reglulegra samráðsfunda með Orkuveitu Reykjavíkur, Vinnueftirliti ríkisins og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands.“