Marel Jóhann Baldvinsson
Marel Jóhann Baldvinsson
LÍKT og lesa mátti í miðvikudagsútgáfu Morgunblaðsins var knattspyrnumaðurinn Marel Baldvinsson ósáttur við viðskilnað sinn við Breiðablik, en hann gekk á dögunum til liðs við Val.

LÍKT og lesa mátti í miðvikudagsútgáfu Morgunblaðsins var knattspyrnumaðurinn Marel Baldvinsson ósáttur við viðskilnað sinn við Breiðablik, en hann gekk á dögunum til liðs við Val. Í viðtalinu sagði hann það „haugalygi“ að hann hefði ekki viljað taka á sig launalækkun líkt og aðrir leikmenn liðsins, líkt og lesa mátti í fjölmiðlum.

„Ég var tilbúinn í að lækka gegn því að greiðslur myndu skila sér á réttum tíma en ekki mánuðum seinna eins og var allt síðasta ár,“ sagði Marel m.a. í viðtalinu.

Samkvæmt bréfi dagsettu 14. apríl, sem blaðamaður fékk afrit af í gær, er þó ljóst að Marel hefur hafnað tilboði frá knattspyrnudeild Breiðabliks um launalækkun á þeim tíma.

„Það er staðreynd að Marel hafnaði bréflega hinn 14. apríl tilboði um lækkaðar launagreiðslur til sín. Allir aðrir leikmenn félagsins tóku á sig launaskerðingu og erum við þeim þakklátir fyrir það. Það er hins vegar rétt hjá Marel að Breiðablik var á eftir með launagreiðslur enda voru fjölmargir styrktaraðilar í vandræðum með að standa við skriflega samninga sína og hefur knattspyrnudeildin þurft að afskrifa kröfur sem nemur tugum milljóna króna. Ég ítreka hins vegar þá yfirlýsingu sem við sendum frá okkur um málið, þar sem við þökkum Marel fyrir framlag hans til félagsins, og óskum við honum velfarnaðar í framtíðinni,“ sagði Einar Kristján Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, við Morgunblaðið. trausti@mbl.is