Eftir Magnús Halldórsson
magnush@mbl.is
FRÁ því Fjarskiptasjóður og Síminn gengu frá samningi um uppbyggingu háhraðanets á landsbyggðinni hafa óánægjuraddir orðið háværar hjá samkeppnisaðilum Símans, þar á meðal Vodafone, en einnig hjá smærri fjarskiptafyrirtækjum sem boðið hafa upp á netþjónustu á landsbyggðinni. Óánægjan snýr einkum að því að samningurinn sem gerður var 25. febrúar sl. skuli ekki hafa verið gerður á þeim forsendum sem útboð vegna verkefnisins hafði kveðið á um.
Síminn bauð um 390 milljónir í verkefnið í útboði sl. haust. Mikill verðmunur var á tilboðum í það sem skýrðist m.a. af því að fyrirtækin lögðu til ólíkar, tæknilegar lausnir við uppbyggingu háhraðanetsins, skv. upplýsingum frá Gunnari Svavarssyni, formanni Fjarskiptasjóðs.
Vildu hætta við
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær vildu forsvarsmenn Símans hætta við þátttöku í verkefninu, m.a. annars vegna þess að tilboð fyrirtækisins í verkefnið væri of lágt.Kristján Möller, samgönguráðherra og ráðherra fjarskiptamála, hefur sjálfur lýst því þannig í útvarpsviðtali við Ísland í bítið á Bylgjunni að forstjóri Símans hafi komið til hans 4-5 sinnum og sagt að fyrirtækið gæti ekki staðið við tilboðið. „En alltaf hefur okkur tekist að blása lífi í það [verkefnið innsk. blm.],“ sagði Kristján í viðtalinu 27. febrúar sl.
Verkefninu breytt án útboðs
Viðræður Kristjáns og forstjóra Símans, Sævars Freys Þráinssonar, báru árangur og settu verkefnið í annan farveg.Ákveðið var að fjölga stöðum sem háhraðatengingin átti að ná til úr 1.100 í 1.800. Þau heimili sem þiggja þjónustuna sem Síminn mun byggja upp munu eiga kost á 2Mb/s tengingu en það er umtalsvert meiri hraði en í boði er á mörgum stöðum á landinu. Áætlað er að uppbyggingu verði lokið í árslok 2010. Samkvæmt samningnum verður Símanum skylt að veita öllum fjarskiptafyrirtækjum á landinu aðgang að ADSL-tengingunum sem settar verða upp í verkefninu. Samhliða uppbyggingu á netþjónustunni hyggst Síminn byggja upp 3G-farsímasamband á stöðunum. Samningurinn segir meðal annars til um að Síminn fái einkaleyfi á 3G-þjónustunni í sex mánuði á hverjum stað. Óánægja samkeppnisaðila Símans beinist meðal annars að þessu ákvæði. Þeir telja einkaleyfið óþarft og hugsanlega lögbrot.
milljónir bauð Síminn upphaflega í uppbyggingu háhraðanets um land allt
606
milljónir var samningur
Símans við Fjarskiptasjóð að lokum
1.800
staðir á landinu öllu munu njóta góðs af háhraðanetinu fullbúnu
Ríkiskaup féllust á breyttar forsendur
Síminn átti lægsta boð í uppbyggingu háhraðanets fyrir rúmlega 1.100 staði. Var farið í verkið á þeim forsendum.Verkefnið breyttist hins vegar verulega að umfangi eftir að samstarf Fjarskiptasjóðs og Símans hófst. Að lokum var samningurinn, sem gengið var frá 25. febrúar, upp á 606 milljónir en ekki 390 eins og tilboð Símans hljóðaði upp á.
Fjarskiptasjóður leitaði til Ríkiskaupa vegna þess að umfang verkefnisins hafði aukist. Var það metið svo að ekki þyrfti að bjóða verkefnið út að nýju þrátt fyrir aukið umfang.