Lykilhlutverk Guðrún Sóley Gunnarsdóttir hefur ekki misst úr landsleik í hálft þriðja ár og hún er komin í stórt hlutverk í liði Djurgården. Hér sækir hún að kínverskum sóknarmanni í leik Íslands og Kína á Algarve í mars.
Lykilhlutverk Guðrún Sóley Gunnarsdóttir hefur ekki misst úr landsleik í hálft þriðja ár og hún er komin í stórt hlutverk í liði Djurgården. Hér sækir hún að kínverskum sóknarmanni í leik Íslands og Kína á Algarve í mars. — Ljósmynd/Algarvephotopress
GUÐRÚN Sóley Gunnarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur farið vel af stað með sænska liðinu Djurgården en hún var lánuð þangað frá KR út þetta tímabil.

GUÐRÚN Sóley Gunnarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur farið vel af stað með sænska liðinu Djurgården en hún var lánuð þangað frá KR út þetta tímabil. Guðrún hefur verið í lykilhlutverki sem miðvörður frá fyrsta leik en Djurgården vann fyrstu þrjá leikina og er í þriðja sæti eftir fjórar umferðir í úrvalsdeildinni.

Eftir Víði Sigurðsson

vs@mbl.is

„Ég get ekki sagt annað en mér hafi gengið rosalega vel til þessa, ég komst strax í byrjunarliðið og hef spilað í 90 mínútur í öllum leikjum. Viðbrigðin eru samt mikil, hver einasti leikur er mjög erfiður og áherslur varðandi varnarmenn eru aðrar en á Íslandi. Hér er boltanum hiklaust spilað milli varnarmanna undir pressu og maður er í raun alltaf að læra eitthvað nýtt,“ sagði Guðrún Sóley við Morgunblaðið en í dag leikur hún með liði sínu gegn AIK í grannaslag í Stokkhólmi. Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður Djurgården, er frá keppni næstu vikurnar en hún meiddist á öxl í síðasta leik, gegn meistaraliði Umeå.

„Við unnum fyrstu þrjá leikina en fengum svo skell gegn Umeå, 2:5. Við byrjuðum leikinn illa, lentum strax 0:2 undir og misstum Guðbjörgu meidda úr markinu eftir aðeins 15 mínútur og þar sem við erum ekki með stærsta eða sterkasta varamarkmanninn í deildinni, setur það strik í reikninginn.

Öll liðin geta unnið hvert annað

Við vorum hins vegar jafnsterkar og Umeå í seinni hálfleik og eigum greinilega að geta staðið vel í þeim. Þetta var annars mjög slæmur dagur hjá okkur. En málið er að öll liðin í deildinni geta unnið hvert annað. Umeå tapaði óvænt fyrir Sunnanå og lið Stattena, sem við unnum 7:0, er búið að taka stig af stóru liðunum.“

Guðrún fór til Svíþjóðar skömmu áður en deildakeppnin hófst þar, og greip gullið tækifæri til að búa sig vel undir úrslitakeppni Evrópumótsins með íslenska landsliðinu, sem hefst í Finnlandi 24. ágúst.

Græði á hverjum leik

„Já, ég er fyrst og fremst að hugsa um EM og að vera í sem bestu standi þegar að keppninni kemur. Hér í Svíþjóð græðir maður á hverjum leik og það er það sem ég vil, og er ástæðan fyrir því að ég fór út. Nú get ég einbeitt mér að fótboltanum og hvílt mig þess á milli. Þetta er annað en heima á Íslandi þar sem skipuleggja þarf vinnuna, skólann og fótboltann, allt í einu.“

Guðrún er í fullri atvinnumennsku hjá Djurgården. „Við æfum oft tvisvar á dag, auk venjulegra æfinga eru morgunæfingar tvisvar í viku og lyftingar tvisvar í viku. Aðstaðan er fín, við erum á allt öðrum stað í borginni en karlalið Djurgården og erum alveg út af fyrir okkur. Við erum með eigin grasvöll með lítilli stúku, eigin búningsklefa og lyftingaaðstöðu, allt á sama stað. Ég hef ekkert séð til karlaliðsins, nema hvað ég fór á einn leik með því, en þetta er eins og sitt hvort félagið. Við höfum allt okkar á hreinu og þurfum ekki að slást við þá um eitt eða neitt. Það er vel að öllu staðið, þetta er alvöru atvinnufélag og fullt af fólki sem starfar í kringum það og umgjörðin er mjög góð.“

Erfitt að halda í við toppliðin

Þrátt fyrir góða byrjun telur Guðrún að það verði erfitt að halda í við toppliðin. „Ég held að miðað við styrkleika ættum við að vera um eða fyrir ofan miðja deild. Malmö, Linköping og Umeå eiga að vera sterkust og við höfum aðeins leikið gegn þremur af neðri liðunum, og svo Umeå í fyrstu umferðunum. Við stefnum að sjálfsögðu á að vinna hvern leik og sjáum svo til. Þetta er langt tímabil og það þýðir ekkert að horfa of langt fram í tímann.“

Duglegar að hittast

Tíu íslenskar landsliðskonur leika nú í Svíþjóð. Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður er ásamt Guðrúnu hjá Djurgården en hún er frá keppni í bili vegna meiðsla í öxl. „Það er virkilega fínt að hafa allar þessar stelpur hérna og við höfum verið duglegar að hittast í okkar frítímum. Það er einn alvöru Íslendingaleikur búinn, við unnum Kristianstad 3:2. Það var sérstaklega skemmtilegt að mæta þeim, fimm íslenskar landsliðskonur á vellinum, og engin vildi tapa. Þetta var næstum því eins og KR gegn Val, með Elísabetu Gunnarsdóttur að stjórna mótherjunum!“

Í hnotskurn
» Guðrún Sóley Gunnarsdóttir er 27 ára landsliðskona og gekk til liðs við Djurgården í Svíþjóð í mars.
» Hún hefur leikið allar 90 mínúturnar í fyrstu fjórum leikjum liðsins sem er í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar.
» Tíu íslenskar landsliðskonur spila í Svíþjóð, níu þeirra í úrvalsdeildinni, og markmiðið hjá þeim er að vera sem best undirbúnar fyrir þátttöku Íslands í úrslitakeppni EM sem hefst í Finnlandi 24. ágúst