Sturla Ásgeirsson
Sturla Ásgeirsson
Eftir Ívar Benediktsson iben@mbl.is STURLA Ásgeirsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska liðsins HSG Düsseldorf, verður frá keppni og æfingum næstu átta vikurnar hið minnsta.

Eftir Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

STURLA Ásgeirsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður þýska liðsins HSG Düsseldorf, verður frá keppni og æfingum næstu átta vikurnar hið minnsta. Hann gengst undir aðgerð á hægri ökkla í Þýskalandi á mánudaginn. Þar með er ljóst að hann gefur ekki kost á sér í fjóra síðustu leiki íslenska landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins sem fram fara í júní.

„Það þarf að laga til í ökklanum. Hreinsa beinflísar og laga liðbönd svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Sturla í samtali við Morgunblaðið í gær. Hann hefur ekkert leikið með Düsseldorf síðustu þrjár vikurnar vegna eymsla í ökklanum. Um tíma var vonast til að hægt væri að komast hjá aðgerð en nú í vikunni varð ljóst að hún verður ekki umflúin.

„Það er talað um að ég verði frá æfingum í átta vikur. Hugsanlega getur það orðið eitthvað skemmri tími en eins gæti tognað úr tímanum. Það er aldrei að vita. Ég stefni á að vera klár í slaginn þegar undirbúningur fyrir næstu leiktíð hefst hjá okkur í Düsseldorf í fyrrihluta júlí í sumar. Leiðinlegast við þetta allt er að missa af leikjunum með landsliðinu í júní ef óskað væri eftir kröftum mínum,“ segir Sturla sem var í silfurliðinu á Ólympíuleikunum í Peking í ágúst í fyrra.

Düsseldorf hefur fyrir nokkru tryggt sér sæti í 1. deild þýska handknattleiksins á næsta keppnistímabili eftir þriggja ára veru í 2. deild.