Elín Guðnadóttir fæddist 14. október 1950 í Reykjavík. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Selfossi 8. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðni Jónsson prófessor frá Gamla-Hrauni í Stokkseyrarhreppi, f. 22. júlí 1901, d. 4. mars 1974, og kona hans Sigríður Hjördís Einarsdóttir húsmóðir frá Miðdal í Mosfellssveit, f. 28. ágúst 1910, d. 18. júlí 1979. Systkin Elínar eru Einar, f. 13. apríl 1939, d. 20. desember 2005, kvæntur Súsönnu Möller, f. 7. sept. 1943, þau skildu; Bergur, f. 29. sept. 1941, kvæntur Hjördísi Böðvarsdóttur, f. 22. júní 1944, og Jónína Margrét, f. 17. mars 1946, gift Sveini Snæland, f. 2. mars 1944. Systkin Elínar, samfeðra, og börn fyrri konu Guðna, Jónínu Margrétar Pálsdóttur, f. 4. apríl 1906, d. 2. okt. 1936, eru Gerður, f. 4. mars 1926, gift Halldóri Arinbjarnar, f. 4. sept. 1926, d. 4. júní 1982; Jón, f. 31. maí 1927, d. 25. janúar 2002, kvæntur Sigrúnu Guðmundsdóttur, f. 7. des. 1930, d. 25. sept. 2008; Bjarni, f. 3. sept. 1928, kvæntur Önnu Guðrúnu Tryggvadóttur, f. 14. júní 1927; Þóra, f. 17. feb. 1931, gift Baldri H. Aspar, f. 8. des. 1927, og Margrét, f. 30. nóv. 1932, d. 13. maí 1952.

Elín ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík, yngsta barnið í stórum systkinahópi. Hún gekk í Hlíðaskóla og síðar landsprófsdeild Gagnfræðaskólans við Vonarstræti. Þegar á unglingsárum fór að bera á þeim sjúkdómi sem hrjáði hana það sem eftir var ævinnar og gerði að verkum að hún dvaldi lengst af ævinnar á Kleppsspítala og öðrum stofnunum fyrir geðsjúka. Þar kynntist hún ástvini sínum og unnusta til margra ára, Brynjólfi Brynjólfssyni. Fyrir nokkrum árum fluttust þau saman að Kumbaravogi við Stokkseyri og áttu þar nokkur góð ár við gott atlæti og umönnun frábærs starfsfólks. Elín missti unnusta sinn fyrir þremur árum.

Útför Elínar fór fram frá Fossvogskapellu 21. apríl, í kyrrþey.