Eftir Halldóru Þórsdóttur halldorath@mbl.is GREINARGERÐ um landgrunn Íslands var afhent landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna á miðvikudag. Í henni er fjallað um tvö svæði utan 200 sjómílna landgrunnsins sem Íslendingar gera tilkall til.

Eftir Halldóru Þórsdóttur

halldorath@mbl.is

GREINARGERÐ um landgrunn Íslands var afhent landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna á miðvikudag. Í henni er fjallað um tvö svæði utan 200 sjómílna landgrunnsins sem Íslendingar gera tilkall til. Annars vegar Ægisdjúp í suðurhluta Síldarsmugunnar fyrir norðaustan land og hins vegar landgrunn á vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar.

„Við teljum okkur hafa góð rök fyrir landgrunninu eins og því er lýst í greinargerðinni og höfum lagt mikla vinnu í hana,“ segir Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur hjá utanríkisráðuneytinu, en hann fór fyrir starfshópi sem vann greinargerðina. Ekkert sé hægt að fullyrða um niðurstöðu nefndarinnar.

Samkvæmt hafréttarsamningi SÞ ber ríkjum sem gera tilkall til landgrunns utan 200 sjómílna að gera ítarlega grein fyrir þeim svæðum. Landgrunnsnefnd SÞ metur greinargerðina og gerir tillögur um mörkin. Nefndin er þó ekki dómstóll.

„Vægi tillagna nefndarinnar felst í því að aðeins á grundvelli þeirra getur strandríki ákvarðað ytri mörk landgrunnsins með endanlegum og bindandi hætti, samkvæmt hafréttarsamningnum.“

Undirbúningur greinargerðarinnar hófst 2000, en hún var unnin af starfshópi undir forystu utanríkisráðuneytisins. Tæknilegur undirbúningur var fyrst og fremst í höndum ÍSOR og fólst m.a. í umfangsmiklum mælingum og rannsóknum á landgrunninu.

Ýmsar náttúruauðlindir tilheyra landgrunninu, svo sem jarðefnaauðlindir á borð við olíu, gas og málma. Þá má finna jarðhita, lífverur í flokki botnsetutegunda og erfðaefni þeirra. Réttindi yfir landgrunni utan 200 mílna lögsögunnar hafa þó ekki áhrif á réttarstöðu hafsins þar fyrir ofan, og ná t.d. ekki til fiskistofna á þeim hafsvæðum.

Ekki fjallað um umdeild svæði

Aðspurður segir Tómas að ferlið sem greinargerðin fer í gegnum geti tekið nokkur ár því mikið vinnuálag sé á nefndinni. Í ljósi þess hafi verið ákveðið að skila greinargerðinni fyrir mánaðamót, til að komast framar í röðinni ef svo má segja. Skilafrestur rennur út 13. maí. Þá þurfa ríkin sem voru aðilar að hafréttarsamningnum fyrir tíu árum að hafa gert grein fyrir sínum landgrunnssvæðum svo mörk þeirra verði leidd til lykta í eitt skipti fyrir öll á komandi árum.

Í greinargerðinni er ekki fjallað um hið umdeilda Hatton Rockall-svæði í suðri, en Bretland, Írland og Danmörk fyrir hönd Færeyja gera einnig kröfu til þess landgrunns auk Íslands. Enginn tímafrestur gildir um umdeild svæði og landgrunnsnefndin hefur ekki vald til að fjalla um þau nema með samþykki allra deiluaðila.

„Bretar og Írar hafa hvorir tveggju skilað einhliða greinargerðum vegna svæðisins en hvorki við né Danir munum samþykkja að nefndin fjalli um þær. Við viljum leysa þetta mál með samkomulagi um skiptingu svæðisins og í framhaldi leggja fram sameiginlega greinargerð um ytri mörk svæðisins til landgrunnsnefndarinnar.“

Í hnotskurn
» Strandríki eiga sjálfkrafa landgrunn að 200 sjómílum samkvæmt hafréttarsamningum. Mörg ríki, þ.ám. Ísland eiga ennfremur víðáttumeiri hafsbotnsréttindi sökum náttúrlegra aðstæðna.
» Ýmsar náttúruauðlindir tilheyra landgrunninu, svo sem jarðefnaauðlindir og jarðhiti. Íslendingar hafa nýtingarrétt á þeim auðlindum sem finnast í þeirra landgrunni.