NÚ ER lokið erfiðum og annasömum vetri þar sem reynt hefur gríðarlega á alla í okkar samfélagi. Alþingiskosningarnar um liðna helgi setja með ákveðnum hætti punkt fyrir aftan þann kafla og marka um leið upphafið að því sem koma skal. Nýrrar ríkisstjórnar bíða fjölmörg erfið og flókin úrlausnarefni á öllum sviðum, þar á meðal að takast á við sársaukafullan niðurskurð í rekstri hins opinbera.
Það er ljóst að engin opinber starfsemi kemst hjá því að takast á við niðurskurð og breytingar á starfsemi sinni og allir eru meðvitaðir um þá stöðu. Það er hins vegar mikilvægt að átta sig á því að hreinn niðurskurður og beinn samdráttur á ýmsum sviðum getur haft í för með sér útgjaldaaukningu á öðrum sviðum hins opinbera rekstrar eða annars staðar í samfélaginu. Það segir sig sjálft að slíkur niðurskurður er afar óskynsamlegur.
Afleiðingar kreppu, atvinnuleysis og efnahagslegs óstöðugleika eru vel þekktar á öllum sviðum og þar á meðal á sviði löggæslu. Vitað er til dæmis að á slíkum tímum aukast auðgunarbrot á borð við innbrot og þjófnaði og þær tölur um aukningu þessara brota sem blasa við lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá síðasta hausti eru tæpast tilviljun. Eftir því sem atvinnuleysi eykst og atvinnuleysistímabilið lengist aukast margskonar félagsleg vandamál sem í sínum erfiðustu myndum enda á borði lögreglu. Með hliðsjón af þessu og fjölmörgum öðrum þáttum er mikilvægi löggæslu á krepputímum augljóst.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur líkt og aðrar opinberar stofnanir dregið umtalsvert saman seglin á liðnum mánuðum. Hagræðingarkröfu hefur verið mætt með fækkun starfsfólks og þar með talið lögreglumanna, uppsögn og endurskoðun fastra launakjara, samdrætti í yfirvinnu, breytingum á vaktafyrirkomulagi og niðurlagningu deilda. Endurskoðuð forgangsröðun og endurskipulagning verkefna miðar að því að tryggja eins og kostur er að lögreglan sinni eftir sem áður eins vel og kostur er því grundvallarhlutverki sínu að halda uppi lögum og reglu.
Í dag blasir við sú staða að lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið færri í langan tíma. Tugir lögreglumanna eru reiðubúnir að koma til starfa hjá embættinu og styrkja þannig starfsemi þess og efla löggæsluna, en fjárhagsstaðan gerir það að verkum að ekki er unnt að ráða þá til starfa. Hluti þeirra þiggur því atvinnuleysisbætur á kostnað ríkissjóðs.
Lögreglan er ein af mörgum mikilvægum stofnunum í samfélaginu. Á erfiðum tímum þurfa allir að auka byrðarnar og lögreglan er þar ekki undanskilin. Hagræðingu innan löggæslunnar er unnt að ná fram með enn frekari fækkun og sameiningu stofnana og öðrum sambærilegum hagræðingaraðgerðum. Það er hins vegar ekki skynsamlegt að ganga svo nærri lögreglunni í niðurskurði að það auki útgjöld á öðrum sviðum þjóðfélagsins, því slíkt gerist óhjákvæmilega þegar afbrotatíðni eykst og starfsmönnum á atvinnuleysisskrá fjölgar sem ella hefðu verið við störf innan lögreglunnar. Hægt er að færa fyrir því margvísleg rök að það sé beinlínis skynsamlegt að standa vörð um öfluga löggæslu á tímum efnahagslegra erfiðleika. Skýrustu rökin eru fjölgun starfa og fækkun afbrota.
Nú um stundir eru fáir skynsamlegir fjárfestingarkostir. Eitt skýrt dæmi má þó nefna fyrir væntanlega nýja ríkisstjórn: Öflug löggæsla er skynsamleg fjárfesting.
Höfundur er lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.