Fyrir fjölskylduna Cruze er fyrirtaks fjölskyldubíll þar sem hönnunin er tápmikil að utan sem innan.
Fyrir fjölskylduna Cruze er fyrirtaks fjölskyldubíll þar sem hönnunin er tápmikil að utan sem innan. — Morgunblaðið/Ágúst Ásgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í mínu ungdæmi voru sumir flottustu kaggarnir á götunum af Chevrolet-gerð. Til dæmis Impala og Bel Air rétt fyrir og í kringum 1960. Einnig Malibu, Nova og hinn sportlegi Corvette.

Í mínu ungdæmi voru sumir flottustu kaggarnir á götunum af Chevrolet-gerð. Til dæmis Impala og Bel Air rétt fyrir og í kringum 1960. Einnig Malibu, Nova og hinn sportlegi Corvette. Hönnunin algjört augnakonfekt og þýðir í akstri, líka á holóttum sveitavegum norður í landi. Því var eftirvæntingin talsverð er haldið var til reynsluaksturs á nýjum Chevrolet Cruze, kyndilbera splunkunýrrar kynslóðar Chevrolet-bíla næstu árin sem stefnt er gegn japönskum og evrópskum bílum af millistærð.

Nafnið hljómar eins og um sportbíl sé að ræða. Svo er ekki, heldur er hér á ferðinni fjölskyldubíll og það fyrirtaks. Stílfagur og með kraftmikla nærveru, einkar smekklegt og vandað yfirbragð. Tápmikil hönnun utan sem innan. Mun evrópskari í útliti, ef svo mætti segja, en bandarískir bílar til þessa. Með alþjóðlega skírskotun því hönnuðurinn er Kóreumaðurinn Taewan Kim, sem áður vann fyrir Fiat og átti þátt í hönnun 500-smábílsins vinsæla.

Grípandi hönnun innra sem ytra

Frágangur allur í farþegarými Cruze er til fyrirmyndar. Hann er hlýlegur og rúmgóður og stenst samjöfnuð við evrópska bíla. Margstillanleg sætin með þeim þægilegri sem ég hef kynnst, allavega seta og bak bílstjórasætisins. Stýri má hækka eða lækka, draga að sér eða frá. Þægilega akstursstöðu ætti bílstjóri því auðveldlega að finna. Hönnun mælaborðs og staðsetning helstu mæla með ísblárri lýsingu minnir nokkuð á mótorhjól. Miðstokkur með ýmsum búnaði klýfur framhluta farþegaklefans fagurlega í tvennt. Tilfinningin jafnvel sú að maður sé í mun stærri bíl en í raun og veru.

Eins og Cruze er vel gerður að innan þá er það hin ytri hönnun sem grípur fyrst. Allt frá ógnandi framgrilli með drottnandi táknmerki Chevrolet, þverslaufunni svonefndu, og aftur á skottlok flæða línur bílsins sem órofa heild. Falla stór og brött framljós og afturljós nettlega inn í heildarmyndina. Beitt er íhvolfum línum undir gluggaröndinni og á vélarhlíf sem styrkja kraftmikið yfirbragð bílsins. Og þótt bíllinn sé sniðinn sem mest að grindinni er samt nóg pláss fyrir rúmgóða 450 lítra farangursgeymslu.

Hagkvæmur í notkun

Í samræmi við allt annað var akstur bílsins ánægjulegur, en reynsluaksturinn fór fram í fögru umhverfi í nágrenni Santander á norðurströnd Spánar. Hann býðst í fyrstu með tveimur bensínvélum, 1,6 og 1,8 lítra, með handskiptum fimm gíra eða sjálfskiptum sex gíra gírkassa. Einnig með 2,0 lítra dísilmótor en eingöngu handskiptum gírkassa fyrst um sinn.

Aflrás Cruze er ný frá grunni og mótorinn allur úr áli. Minni bensínmótorinn skilar 109 hestöflum við 6.400 snúninga á mínútu en 1,8 lítra mótorinn 140 hestum. Í blönduðum akstri notar stærri mótorinn með handgírskiptingu 6,8 lítra bensíns, 5,3 lítra í langakstri en 9,3 lítra innanbæjar. Dísilbíllinn brúkar 5,6 lítra í blönduðum akstri, 7,0 lítra innanbæjar og 4,8 á vegum úti. Allt tölur sem standast allan samanburð. Dísilbíllinn losar minnst gróðurhúsaloft en þó munar aðeins 10 grömmum á kílómetra á honum og stærri bensínbílnum sem losar 159 g/km. Sjálfskipti bensínbíllinn losar aftur á móti mun meira, eða 184 g/km.

Handskipting betri

Dísilbíllinn virkaði ögn kraftmeiri í upptakinu en stærri bensínbíllinn, en þó ekki fyrr en mótorinn var kominn á góðan snúning. Þar með er ekki sagt að 1,8 lítra bensínbílinn skorti kraft. Hann virtist vinna alveg ágætlega og bætti í ferðina jafnt og þétt upp langar brekkur með léttri viðbót við bensíngjöf. Ekki þurfti að hamra hana í botn til að knýja fram hraðabreytingu, alla vega ekki á handskipta bílnum, en ég er þeirrar sérvisku að vera lítið fyrir sjálfvirka gírkassa. Gríp yfirleitt til þeirrar stillingar gírstangar sjálfskiptra bíla að geta handskipt þeim og það gerði ég á Cruze.

Um sjálfskiptinguna er það annars að segja að ég er ekki frá því að maður sé fljótari að handskipta. Hún mætti vera samfelldari og snarpari, en það er þó smekksatriði og alls ekki galli.

Stöðugur á vegi

Góður stöðugleiki á vegi var áberandi og rásfesta gegnum beygjur. Stýringin einkar þétt og markviss. Fjöðrunin þannig uppsett að aldrei gætti tilhneigingar til vaggs í beygjum. Það er styrkur bílsins að skriðvörn er sjálfkrafa virk við gangsetningu en rjúfa má hana úr sambandi, ef svo einkennilega vill til að einhver vilji vera án hennar. Svo er fjöðrunarbúnaðurinn stilltur, hvorki harður né of mjúkur, og jafnvægi með eða án eins farþega, að ég fann lítinn mun á veggripi þrátt fyrir ýktan akstur án spyrnustýringarinnar.

Cruze er fyrsti bíllinn frá Chevrolet sem hannaður er fyrir alþjóðamarkað. Hann verður smíðaður í Suður-Kóreu, Pétursborg í Rússlandi og í Ohio-ríki í Bandaríkjunum. Honum er ætlað stórt hlutverk í að koma General Motors út úr kreppu. Chevrolet er ekki bara bíltegund, heldur hálfgerð stofnun og það eilífleg, undir það mun Cruze ýta frekar. Hvernig sem GM reiðir af hefur Chevrolet verið á góðri siglingu og er þriðja söluhæsta bílamerkið í heimi, á eftir Toyota og Ford. Nýr Chevrolet rennur úr smiðjum víða um heim á 10 sekúndna fresti og seldust 3,8 milljónir Chevrolet-bíla í fyrra. Þar af rúmlega hálf milljón í Evrópu.

Fyrir hófstillta ökumenn

Í heild sinni verð ég að segja að Cruze er þægilegur bíll og einkar meðfærilegur. Hentar vel hófstilltum og venjulegum ökumönnum. Hann rís vel undir ábyrgð þeirri sem fylgir hinu sögufræga Chevrolet-merki. Að öllu leyti fannst mér stærri bensínbíllinn handskiptur mun þægilegri til aksturs en sjálfskiptur. Þægilegur ferðabíll með mjúka yfirferð og hljóðlátan farþegaklefa. Afar vel samsettur og flottur bíll, nytsamur og eigulegur. Miðað við það verð sem sett er á hann í Evrópulöndum fá menn mikið fyrir peningana. Cruze virðist vera samkeppnisfær og framsækinn fánaberi Chevrolet sem eflaust mun höfða til neytenda á öllum aldri. Bílabúð Benna flytur bílinn inn en stefnt er að frumsýningu Cruze-bílsins hér á landi síðsumars eða í haustbyrjun.

Chevrolet Cruze

Vél: 1,8 lítra V4-vél

Aflgeta: 141 hestöfl við 6.200 snúninga

Tog: 176 NM við

3800 snúninga

Hröðun: 10 sekúndur í

100 km/klst

Hámarkshraði:

200 km/ klst.

Lengd: 4.600 mm

Breidd: 1.690 mm

Hæð: 1.475 mm

Farangursrými: 450 lítrar

Eyðsla: 6,8 l/100 km

í blönduðum akstri

Útblástur: 159 g/km

Umboð: Bílabúð Benna