Hjördís Bjartmars Arnardóttir
Hjördís Bjartmars Arnardóttir
Eftir Hjördísi Bjartmars Arnardóttur: "Að deyja frammi á gangi var hlutskipti margra síðustu ár fyrir kreppuna, á mesta uppgangstíma þjóðarinnar. Hvernig verður ástandið næstu misserin?"

FLESTIR eru svo heppnir að þurfa ekki að dvelja lengi á spítala, en allflestir eyða þó síðustu dögum lífs síns inni á þannig stofnunum. Sértu óánægður með dvölina undir þessum kringumstæðum er fátt sem þú getur gert á meðan, og auðvitað ómögulegt eftir á.

Mér finnst það vera hlutverk mitt að greina frá því sem margir lenda í þegar dauðann ber að dyrum. Aðstaða margra dauðvona einstaklinga á Íslandi er vægast sagt ömurleg. Aðstaða starfsfólksins sömuleiðis. Til að gera langa sögu stutta þá missti ég móður mína fyrir rétt rúmum 2 árum. Hún dvaldi á spítala í um 20 daga og fjórðunginn af þeim tíma var hún höfð frammi á gangi. Það var ekkert herbergi laust, eða pláss til að deila herbergi með öðrum. Það var ekki eins og hún hefði skyndilega orðið fyrir slysi og hugsanlega væru einhverjar líkur á að hún myndi lifa. Nei, það lá ljóst fyrir að þetta væri hennar banalega. Þannig varði hún fjórðunginum af banalegu sinni á ganginum. Þriðjunginn af tímanum gat hún deilt herbergi með fleiri deyjandi einstaklingum en þá var hún aldrei oftar en tvær nætur í sama herbergi. Hún var sannarlega ekki ein um þessa eymd. Einu sinni sem oftar þegar ég kom til hennar þurfti ég að leita að henni. Blómin sem ég hafði fært henni daginn áður voru orðin blóm annarrar konu og hvergi var myndin sjáanleg sem barnabarnið hafði fært henni.

Það er skelfilegt, þegar maður er orðinn veikur og getur ekki borið hönd yfir höfuð sér, að þurfa að liggja frammi á gangi, hvað þá án nokkurra möguleika á að kalla eftir hjálp – bjöllulaus. Það eru nefnilega ekki bjöllur á ganginum fyrir rúmliggjandi sjúklinga að kalla á aðstoð. Talandi um hátækni; úrræði spítalans var að láta sjúklinginn hafa handbjöllu með kólfi, en...það var bara ein slík til. Áður en ég hafði uppgötvað þennan bjölluskort kom ég að móður minni þar sem hún lá á ganginum bjöllulaus. Hún hafði legið þar dágóða stund, ófær um að biðja um aðstoð af neinu tagi. Ég varð algerlega miður mín. Ég gat samt ekki tekið hana heim með mér og sinnt henni þar, vegna lyfjanna sem hún þurfti að fá örar en hefði dugað með þjónustu heimahjúkrunar sem aðeins gat komið tvisvar á dag. Ég sinnti aðeins hlutastarfi þessi árin; til þess að geta annast hana heima árin áður en hún fór á spítalann, og á meðan hún var þar. Sjaldan hef ég orðið jafn miður mín og einmitt á þessari stundu. Hvernig fær maður sig til að fara af spítalanum, frá hinum veika, undir svona kringumstæðum? Ég get einungis reynt að ímynda mér hvernig þetta er fyrir hinn deyjandi. Sjálf fylltist ég ótta, yfirþyrmandi sektarkennd og vanmætti.

Ekki gæti ég hugsað mér að vinna á spítalanum, undir svona kringumstæðum. Það er fullkomlega ömurlegt að reyna að útskýra fyrir dauðvona manneskju og aðstandendum hennar að það er ekki pláss fyrir hana á spítalanum til að deyja. Maður þarf eiginlega að panta tíma til þess að fá að deyja með sæmd. Þetta er ekki tilraun til að vera með neinn húmor. Án gríns, til að eiga möguleika á að fá líknandi meðferð á þartilgerðum stofnunum virðist þurfa að panta dvöl a.m.k. 1-2 árum áður en þú hefur hugsað þér að deyja! Hver veit það hvenær hann kveður nákvæmlega? Veist þú það? Viltu deyja frammi á gangi?

Hið úrræðagóða starfsfólk spítalans eyddi miklum tíma í að reyna létta sjúklingunum síðustu dagana með því að gefa öllum tækifæri á örlitlu næði. Sjúklingurinn þurfti ekki að eyða allri sinni banalegu á ganginum því hjúkrunarfólkið hafði komið upp einhverju kerfi þar sem reynt var eftir fremsta megni að gera öllum jafnhátt undir höfði og hjálpa öllum.

Það er hins vegar ekki góð nýting á háskólamenntuðu fólki að láta hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða eyða fleiri klukkustundum á dag í að selflytja sjúklinga hingað og þangað um deildina, bara til þess eins að veita þeim örlítið næði á dauðastund eða í aðdraganda hennar.

Að eyða síðustu dögum ævi sinnar með þessum hætti er hræðileg tilhugsun en er þó raunverulegt hlutskipti margra. Það er ekki vinsælt að fjalla um okkar eigin dauðastund eða annarra og fæstir gera sér grein fyrir því hvað bíður þeirra. Að þetta skuli hafa verið hlutskipti margra síðustu ár fyrir kreppuna, á mesta uppgangstíma í sögu þjóðarinnar, þegar þjóðin hélt að hún ætti nóga peninga, er sannarlega umhugsunarefni. Hvernig verður ástandið næstu misserin? Spyrja má hver ber ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið.

-----

Það er mikilvægt að það komi fram að allt starfsfólk spítalans sem kom að umönnun móður minnar var dásamlegt. Það er ekki öfundsvert að vinna undir þessum kringumstæðum og mig langar að koma þakklæti til allra sem önnuðust hana.

Höfundur er teiknari.

Höf.: Hjördísi Bjartmars Arnardóttur