Hætta Um 3.000 manns bíða að jafnaði bana ár hvert í umferðinni í Bretlandi.
Hætta Um 3.000 manns bíða að jafnaði bana ár hvert í umferðinni í Bretlandi.
Ákveðið hefur verið að segja banaslysum í umferðinni stríð á hendur í Bretlandi. Í þeim tilgangi verður hámarkshraði minnkaður. Vonast er til að með því takist að afmá „svarta bletti“ á vegum landsins.

Ákveðið hefur verið að segja banaslysum í umferðinni stríð á hendur í Bretlandi. Í þeim tilgangi verður hámarkshraði minnkaður. Vonast er til að með því takist að afmá „svarta bletti“ á vegum landsins.

Þannig verður hámarkshraði við íbúðagötur og nærri skólum 30 km/klst. í stað 50 km. Og á svonefndum A-vegum í þéttbýli og dreifbýli verður hámarkshraðinn minnkaður úr 60 mílum í 50 mílur, eða í 80 km/klst.

Takmark aðgerðanna er að afstýra um 10.000 dauðsföllum í umferðinni á næstu 10 árum, eða um þriðjungi. Í þeim felst meðal annars að gefa út og dreifa inn á hvert heimili kortum sem sýna „svarta slysabletti“ í vegakerfinu; þar sem átt hafi sér stað banaslys eða alvarlegt líkamstjón. Á kortunum mun koma fram hvort fórnarlambið var ökumaður, farþegi eða gangandi vegfarandi, og einnig hvers konar farartæki átti í hlut.

Breska stjórnin getur aðeins gert tillögur um hraðaminnkun, en vilji einstakar héraðsstjórnir fara að þeim tillögum þurfa þær að færa sterk rök fyrir því. Vonast er til að með útgáfu korta yfir svarta bletti skerist heimamenn í leikinn og knýi sveitarstjórnarmenn til úrbóta og aðgerða til að uppræta hættur.

Rannsóknir hafa sýnt, að gangandi vegfarandi sem verður fyrir bíl á 30 km hraða eigi miklu meiri möguleika á að lifa af en þeir sem fá bíl á 50 kílómetra ferð á sig. Tæplega 3.000 manns bíða að jafnaði bana ár hvert í umferðinni í Bretlandi.