FIMM dóu og minnst 12 manns slösuðust þegar maður keyrði inn í mannþröng í borginni Apeldoorn í Hollandi í gær. Mikill fjöldi var samankominn til þess að fagna hollensku konungsfjölskyldunni en landsmenn héldu í gær svonefndan drottningardag hátíðlegan.

FIMM dóu og minnst 12 manns slösuðust þegar maður keyrði inn í mannþröng í borginni Apeldoorn í Hollandi í gær. Mikill fjöldi var samankominn til þess að fagna hollensku konungsfjölskyldunni en landsmenn héldu í gær svonefndan drottningardag hátíðlegan. Maðurinn mun hafa keyrt á miklum hraða inn í mannfjöldann og stefnt að opinni rútu Beatrix drottningar og fjölskyldu hennar. „Það var blóð úti um allt,“ segir Cynthia Boll, sjónarvottur að árásinni.

Maðurinn slasaðist sjálfur og var þegar handtekinn. Embættismenn sögðu í gærkvöldi að maðurinn hefði sagt lögreglunni að hann hefði ætlað að aka á rútu drottningarinnar.

Mikill fjöldi fólks var á staðnum en drottningardagurinn er almennur frídagur í landinu. Hollendingar hafa haldið hann hátíðlegan frá 1949 en þann dag fæddist dóttir Wilhelmínu drottningar, Júlíana. Beatrix valdi þennan dag árið 1980 til þess að sverja eiðinn er hún tók við.