Morten Smidt , 19 ára gamall danskur knattspyrnumaður, er genginn til liðs við úrvalsdeildarlið Þróttar í Reykjavík en hann kemur frá Esbjerg . Þar hefur hann leikið með unglingaliðinu, og einnig með varaliði félagsins í 2. deild. Smidt er sóknarmaður og skoraði í æfingaleik með Þrótti gegn ÍA á dögunum. Hann er annar framherjinn sem Þróttur fær í vikunni en Davíð Þór Rúnarsson er kominn til félagsins frá Fjölni .
Bikarmeistarar KR í knattspyrnu kvenna hafa fengið systurnar Berglindi Bjarnadóttur og Rut Bjarnadóttur að láni frá HK/Víkingi í einn mánuð. Báðar léku þær alla 18 leiki HK/Víkings í úrvalsdeildinni í fyrra en liðið féll í 1. deild. Berglind spilaði alla leiki U19 ára landsliðsins á dögunum þegar það sigraði í milliriðli Evrópukeppninnar í Póllandi . Systurnar leika með KR í fyrstu fimm umferðum úrvalsdeildarinnar en snúa þá aftur til HK/Víkings áður en liðið spilar sinn fyrsta leik í 1. deildinni.
A fturelding og Stjarnan háðu þriggja leikja einvígi um sæti í 2. deild Íslandsmótsins í handknattleik um mánaðamótin apríl og maí fyrir 30 árum. Afturelding hafði betur í þriggja leikja keppni. Leikmenn þess liðs sem Afturelding tefldi fram þá voru heiðursgestir á viðureign Aftureldingar og Stjörnunnar að Varmá í gærkvöldi. Fyrir leikinn voru þeir heiðraðir af formanni handknattleiksdeildar Aftureldingar, Elínu Reynisdóttur .
Einn leikmanna liðsins fyrir 30 árum, Björn Bjarnason , lék nokkurt hlutverk í viðureign liðanna í gær. Hann var með gólfmoppuna og hafði mikið að gera við að koma inn á og þrífa svita af gólfinu enda heitt í íþróttahúsinu að Varmá í gærkvöldi.