Vextir Stýrivöxtum var haldið óbreyttum í gær. Svein Harald Øygard seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson aðstoðarbankastjóri kynntu ákvörðunina.
Vextir Stýrivöxtum var haldið óbreyttum í gær. Svein Harald Øygard seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson aðstoðarbankastjóri kynntu ákvörðunina. — Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is SEÐLABANKINN gerir ráð fyrir minni samdrætti landsframleiðslu á þessu ári en hann gerði í maí. Aftur á móti spáir hann því að þróunin verði neikvæðari á næstu tveimur árum en hann gerði áður.

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

SEÐLABANKINN gerir ráð fyrir minni samdrætti landsframleiðslu á þessu ári en hann gerði í maí. Aftur á móti spáir hann því að þróunin verði neikvæðari á næstu tveimur árum en hann gerði áður. Á næsta ári séu horfur á 2% samdrætti í stað 1% samdráttar og að hagvöxtur árið 2011 verði 1% í stað 2,5% eins og Seðlabankinn hafði spáð fyrir um í vor.

Tvær meginástæður eru taldar upp í Peningamálum fyrir þessari neikvæðu þróun. Í fyrsta lagi líti nú út fyrir að jafnvægi í ríkisfjármálum verði í mun meira mæli náð með hækkun skatta og niðurskurði tilfærsluútgjalda en reiknað var með í maí. Leiði þetta til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna dragist meira saman en áður hafði verið spáð og samdráttur í einkaneyslu verði því meiri.

Í öðru lagi gerir Seðlabankinn nú ráð fyrir enn frekari seinkun áformaðrar fjárfestingar í áliðnaði. Seinkun fjárfestingar og hægari uppbyggingu megi að stærstum hluta rekja til vandamála við fjármögnun.

Á kynningarfundi í gær kom fram í máli seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra að eitt meginmarkmiða Seðlabankans væri enn að koma í veg fyrir frekari gengisveikingu krónu. Til að ná því markmiði þyrfti að gera fjárfestingu í íslenskum krónum aðlaðandi fyrir fjárfesta, m.a. til að hvetja útflytjendur til að skipta gjaldeyri fyrir krónur.

Því væri nauðsynlegt að halda stýrivöxtum óbreyttum. Í rökstuðningi peningastefnunefndar sagði einnig að ekki væri útilokað að til vaxtahækkana yrði gripið veiktist krónan meira en heppilegt þætti.