Öflugur Dean Martin er leikmaður og þjálfari KA-liðsins í knattspyrnu sem vann baráttusigur gegn Aftureldingu á heimavelli í gær.
Öflugur Dean Martin er leikmaður og þjálfari KA-liðsins í knattspyrnu sem vann baráttusigur gegn Aftureldingu á heimavelli í gær.
KA lagði Aftureldingu 2:1 í 1. deild karla í knattspyrnu á Akureyri þar sem þau undur og stórmerki urðu að KA-menn fengu dæmda vítaspyrnu.

Eftir Einar Sigtryggson

sport@mbl.is

Úr vítaspyrnunni skoraði David Disztl og var það sigurmark leiksins. Fyrir leikinn var Gunnar Níelsson, hinn landsfrægi stuðningsmaður KA, búinn að fletta í sögubókunum og finna út að KA hafði hvorki fengið vítaspyrnu í deild né bikar í heil tvö ár. Leikirnir voru orðnir 47 en eftir 4.289 mínútna vítaþurrð flautaði Þóroddur Hjaltalín vítaspyrnu þegar boltinn hrökk í höndina á varnarmanni Aftureldingar. Vissulega nokkuð harkalegt en KA-menn voru lítið að velta því fyrir sér.

Annars var leikurinn fremur tíðindalítill, jafnræði lengstum í fyrri hálfleik en undir lok hans fór að draga til tíðinda. Gestirnir skoruðu fyrst eftir að hafa fengið gefins horn. Í horninu virtist sem brotið hefði verið á Sandor Matus þannig að hann náði ekki í boltann. Knötturinn féll hins vegar á tærnar á Alberti Ásvaldssyni sem potaði honum í autt markið. KA jafnaði um hæl þegar David Disztl var fyrstur á boltann eftir hornspyrnu sem kom niðri á nærstöng. Í seinni hálfleiknum voru heimamenn mun sterkari en sköpuðu lítið af færum. Það var svo vítið fræga sem dæmt var á 56. mínútu sem gerði gæfumuninn og KA náði þremur stigum í hús.

Haukur Heiðar Hauksson, hinn þindarlausi sóknarbakvörður KA, var sáttur með niðurstöðuna og ákveðinn í að halda áfram á sigurbraut. „Þetta var baráttuleikur og góður sigur hjá okkur. Við erum búnir að vera í basli í síðustu leikjum en sýndum karakter með því að sigra Fjarðabyggð fyrir austan með vængbrotið lið og erum nú komnir aftur í rétta gírinn. Næsti leikur við Hauka er mjög mikilvægur og þar ætlum við að taka þrjú stig og ekkert annað.“ Spurður um vítaspyrnudóminn sagði Haukur Heiðar: „Ég var ekki búinn að sjá umræðuna á netinu um þetta en vissi bara að það var langt síðan síðasta víti var dæmt. Ég hef ekki hugmynd um hvort umræðan hefur haft nokkur áhrif á dómarann eða að hann hefur vitað af henni. Ég efast nú um það en hins vegar eigum við að vera búnir að fá einhver víti í sumar svo við áttum nú alveg innistæðu fyrir þessu.“ Með það kvaddi Haukur sæll með afrakstur kvöldsins.

Selfoss skellti Víkingum í Ólafsvík

Topplið Selfyssinga skellti lánlausum Víkingum á Ólafsvík, 6:1, og fátt getur komið í veg fyrir að Víkingarnir kveðji 1. deildina í haust. Heimamenn náðu forystu eftir 8 mínútna leik þegar Brynjar Gauti Guðjónsson skoraði en Selfyssingar létu þetta ekkert á sig fá. Sævar Þór Gíslason skoraði tvívegis fyrir Selfyssinga, Hjörtur Júlíus Hjartarson, Arelíus Marteinsson og Stefán Ragnar Gunnlaugsson gerðu sitt markið hver og Dalibor Nedic varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.