Fyrir og eftir Með því að laga mynd til í Photoshop eða öðrum myndvinnsluforritum getur hún orðið mun fallegri og skýrari en hún var áður. Hér má sjá dæmi um mynd fyrir og eftir vinnslu í Photoshop og munurinn er greinilegur.
Fyrir og eftir Með því að laga mynd til í Photoshop eða öðrum myndvinnsluforritum getur hún orðið mun fallegri og skýrari en hún var áður. Hér má sjá dæmi um mynd fyrir og eftir vinnslu í Photoshop og munurinn er greinilegur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Námskeið um stafræna ljósmyndun og myndvinnslu sem haldið verður í Tækniskólanum er ekki einungis fyrir þá sem taka mikið af myndum heldur líka fyrir þá sem taka einungis myndir af börnum sínum og fjölskyldu. Með réttri stillingu myndavélarinnar og vinnslu í Photoshop má gera góða mynd enn betri.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Nú til dags eiga flestir stafrænar myndavélar og fólk nýtir sér það til hins ýtrasta að geta smellt af hvenær sem er án þess að þurfa að framkalla allar myndirnar. Þó vill það gerast að myndirnar verða ekki eins góðar og vonast var eftir. „Aðalávinningur námskeiðsins er að fólk fær fallegri og betri myndir og það lærir að nýta myndavélina sína betur,“ segir Jón A. Sandholt, kennari við Tækniskólann, sem leiðbeinir á námskeiði um stafræna ljósmyndun og myndvinnslu á vegum Tækniskólans. „Það sem fólk fær út úr námskeiðinu er fyrst og fremst að vera ánægðara með myndirnar sínar. Námskeiðið er hugsað fyrir almenning og er eitthvað sem allir geta haft gaman og gott af. Á námskeiðinu verður farið sérstaklega yfir notkun myndavélarinnar fyrir þá sem eru með stærri myndavélar þar sem skipta má um linsur. Eins er farið yfir grunnatriðin í myndvinnslu, liti, birtu og fleira.“

Námskeið fyrir alla

Jón talar um að margir eigi mjög vandaðar myndavélar með góðum linsum sem jafnvel má skipta út en kunna svo ekki að stilla saman ljósop og hraða og ýmislegt fleira. „Með því að kunna á myndavélina má ná miklu betri myndum. Flestir sem eru á annað borð með einhverja ljósmyndadellu og hafa áhuga á því að taka myndir ættu að geta nýtt sér þetta námskeið. Þetta er ekkert endilega hugsað bara fyrir þá sem taka myndir í stórum stíl heldur allt eins fyrir þá sem eru að taka myndir af fjölskyldunni sinni eða börnunum sínum. Það græða allir á þessu og auk þess er námskeiðið á ágætis verði.“

Myndirnar lagaðar til

Á námskeiðinu er líka fjallað um hvernig má vinna myndir en Jón segir að þá sé aðallega verið að miða við vinnslu í Photoshop. „Það má stilla myndir þannig af að þær séu fallegar, laga birtuna, laga litina í þeim og svo framvegis. Það er oft sem fólk tekur ljósmyndir á stafrænar myndavélar og fær svo alls ekki það út úr myndinni sem það hélt að það fengi. En það má laga ansi mikið í Photoshop og flestar myndir þarf að vinna eitthvað til að þær verði virkilega fallegar,“ segir Jón sem auk þess mun kenna þátttakendum á námskeiðinu að flokka, skrá og geyma myndirnar sínar. „Ég mun fara í það hvernig er best að vista myndir niður á skipulegan hátt þannig að þær séu ekki dreifðar út um allt. Þá er hægt að ganga að myndunum og leita eftir réttu myndinni eftir einhverju skynsamlegu kerfi. Í dag á fólk náttúrlega gríðarlega mikið af myndum sem það geymir hingað og þangað. Hins vegar getur verið skynsamlegt að hafa einhvers konar kerfi til þess að flokka, skrá og leita eftir.“

Auga fyrir myndefninu

Námskeiðið hefur verið haldið einu sinni áður og Jón segir að þátttakendur hafi verið ánægðir með námskeiðið. Sjálfur hefur hann mikinn áhuga á ljósmyndum og hefur myndað um þónokkra hríð. „Ég er ekki ljósmyndari en sem áhugamaður tek ég töluvert af myndum. Frumskilyrði er að hafa myndavélina vel stillta þegar taka á góða mynd en annars er margt annað á bak við. Til að mynda þarf fólk vitanlega að hafa auga fyrir myndefninu og stundum þurfa menn líka að vera svolítið heppnir. Það getur þess vegna verið bara augnablikið sem skiptir máli. Að hafa augun hjá sér og hafa gott auga fyrir því sem það er að taka myndir af.“