Fjölskyldumynd Erkiþrjóturinn og iðnjöfurinn Sabers hefur heimsyfirráð á prjónunum og kemur þá til kasta nagdýragengisins að bjarga heiminum úr klóm karlsins. „Barnvæn útgáfa af brelluhasarmyndum samtímans.“
Fjölskyldumynd Erkiþrjóturinn og iðnjöfurinn Sabers hefur heimsyfirráð á prjónunum og kemur þá til kasta nagdýragengisins að bjarga heiminum úr klóm karlsins. „Barnvæn útgáfa af brelluhasarmyndum samtímans.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Hoyt H. Yeatman Jr. Með íslenskri og enskri talsetningu og sýnd bæði í þrívídd og með hefðbundinni tækni. 88 mín. Bandaríkin. 2009.

Jerry Bruckheimer er einn kunnasti hasarmyndaframleiðandi samtímans, kunna fáir betur að setja saman efni, leikara, leikstjóra og aðra fagmenn svo úr verði metsölu-harðhausamyndir. Nú er annað sjónarmið uppi á teningnum því G-Force er ætlað að höfða til fjölskyldunnar, einkum með yngri meðlimina í huga.

Svo er að sjá sem óvænt og umtalsverð velgengni Alvins and the Chipmunks ('07), hafi vakið áhuga Bruckheimers á þessum markaðshópi, því G-Force státar af nokkrum tölvuteiknuðum nagdýrum í aðalhlutverkunum, leiknar sögupersónur eru í bakgrunninum. Þar má m.a. sjá Bill Nighy í hlutverki erkiþrjótsins, iðnjöfursins Sabers, sem hefur heimsyfirráð á prjónunum með því að tengja saman heimilistækjaframleiðslu sína svo úr verði sannkallaðar vítisvélar. Planið er harla djöfullegt og góð ráð dýr og kemur þá til kasta nagdýragengisins að bjarga heiminum úr klóm karlsins. Þau eru sérþjálfuð af stjórnvöldum til að fást við slíka skrattakolla, en ekki eru allir á sama máli um gagnsemi dýranna.

Þegar Bruckheimer á í hlut er hvergi til sparað, myndin er í flottri þrívídd, brelluvinnslan framúrskarandi og mikil kátína í gangi sem höfðar einkum til yngri áhorfenda. G-Force er því að þessu leyti á öndverðum meiði við fyrrnefnda Alvin and the Chipmunks (framhald hennar, The Squeakquel , er væntanlegt um næstu jól), sem var ódýr og frekar einföld í sniðum.

Þrátt fyrir greinilegan fjáraustur er G-Force létt og nett barnvæn útgáfa af brelluhasarmyndum samtímans, e.k. teiknimyndasöguhetju-fantasía fyrir yngstu áhorfendurna og virkar bærilega sem slík, börnin skemmtu sér vel. Aðalheiðurinn af því á Hoyt Yeatman, einn færasti brellugerðarmaður samtímans, sem hér leikstýrir í fyrsta sinn.

Hasarmyndakóngur

Það er ekki ofsögum sagt að halda því fram að Bruckheimer sé einn farsælasti og afkastamesti kvikmyndaframleiðandi okkar tíma. Árangur hans og afköst eru með ólíkindum, bæði í kvikmyndageiranum og sjónvarpi og hann er ekki að slaka á klónni þrátt fyrir áratuga velgengni – er með hátt í 20 myndir á ýmsum stigum í framtíðarplönunum. Bruckheimer byrjaði smátt á The Culpepper Cattle Co ., frábærum, litlum vestra, sem vakti því miður ekki mikinn áhuga hjá bíógestum. Það má segja að það hafi tekið Bruckheimer 11 ár að ná til fjöldans, sem hann gerði með Flashdance ('83). Síðan þá hefur á sjötta tug metsölumynda, sjónvarpsþátta og -mynda bæst í hópinn og gert hann að hasarmyndakóngi iðnaðarins. Nægir að nefna léttmeti á borð við Beverly Hills Cop, Top Gun, Con Air, Armageddon, The Rock, National Treasure og myndirnar kenndar við Sjóræningja Karíbahafsins , auk sjónvarpsþátta á borð við CSI og Amazing Race , til að lesendur geti gert sér grein fyrir einstökum skilningi hans á þörfum afþreyingarmarkaðarins.

Sæbjörn Valdimarsson