Á hlaupum Það gekk mikið á hjá þingmönnum í gærkvöldi. Hér sést hluti þingflokks Vinstri grænna áður en fundur hófst, skömmu fyrir kvöldmat í gær. Ákaft var reynt að ná samstöðu um málið meðal allra flokka á Alþingi.
Á hlaupum Það gekk mikið á hjá þingmönnum í gærkvöldi. Hér sést hluti þingflokks Vinstri grænna áður en fundur hófst, skömmu fyrir kvöldmat í gær. Ákaft var reynt að ná samstöðu um málið meðal allra flokka á Alþingi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samstaða á Alþingi um frumvarp vegna ríkisábyrgðar fyrir Tryggingasjóð innstæðueigenda virðist ekki fyrir hendi. Stjórnarandstaðan enn hörð á móti. Vill skýrari efnahagsfyrirvara.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

EFTIR ströng fundahöld fjárlaganefndar Alþingis undanfarna viku náðist samkomulag í gær um að leggja mögulegar breytingar á frumvarpi um ríkisábyrgð Tryggingasjóðs innstæðueigenda, vegna útgreiðslu til innstæðueigenda af Icesave-reikningum Landsbankans í Hollandi og Bretlandi, í hendur fimm manna nefndar lögfræðinga. Nefndina skipuðu Benedikt Bogason, Einar Gunnarsson, Helgi Áss Grétarsson, Páll Þórhallsson og Eiríkur Tómasson prófessor. Verkefni nefndarinnar var að fara yfir texta og koma með tillögur um fyrirvara. Komu meðal annars fram tillögur um að greiðslur vegna Icesave-skuldanna mættu ekki fara yfir 3,5 prósent af landsframleiðslu árlega og einnig að tryggt væri að ekki væri hægt að ganga að náttúruauðlindum, eða nýtingarmannvirkjum þeirra, kæmi til vandamála við greiðslu. Þá var einnig settur fyrirvari um að Ísland hefði möguleika á því að taka upp viðræður við Breta og Hollendinga kæmi upp réttaróvissa, t.d. ef regluverki um innstæðutryggingar í Evrópu yrði breytt. Tillögurnar voru til umræðu hjá fjárlaganefnd á fundi klukkan 15 og síðan komu þingflokkar saman klukkan 18. Greinileg spenna var í Alþingishúsinu vegna málsins og deildu Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, og Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, meðal annars um málsmeðferðina í sölum Alþingis áður en þingflokkar héldu til fundar. Að fundum loknum voru línur teknar að skýrast. Forsvarsmenn stjórnarflokkanna, sem Morgunblaðið ræddi við að loknum fundi, töldu meiri líkur en minni á því að meirihluti væri fyrir málinu, með þeim fyrirvörum sem náðst hefði samkomulag um. Samfylkingarmenn voru þó jákvæðari en vinstri græn. Þar voru enn efasemdarmenn í hópnum, þar helst Lilja Mósesdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ögmundur Jónasson. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að málið væri enn í vinnslu og helst væri staðnæmst við efnahagsfyrirvarann.

Stjórnarandstöðuflokkarnir, bæði sjálfstæðis- og framsóknarmenn, sögðu tillögur um hámarksgreiðslur vegna Icesave á hverju ári óviðunandi. Um þær var deilt á fundi fjárlaganefndar í gærkvöldi og leit ekki út fyrir að samstaða allra flokka næðist.

Ákaft reynt að ná sáttum

ÞINGMENN stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, lögðu áherslu á það á þingflokksfundum sínum í gær að reyna eftir fremsta megni að ná sátt meðal þingmanna allra flokka um málið. Sérstaklega lagði Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra áherslu á það í samtölum við sína flokksmenn að möguleiki á breiðri sátt yrði fyrir hendi. Að loknum þingflokksfundi í gær ítrekaði hann að farsælast væri að ná breiðri sátt um málið, ef mögulegt væri.

Fjárlaganefnd þyrfti þó að fá að klára málin. Ákaft var reynt að ná samstöðu, og voru þingmenn oftar en ekki í símanum að ræða við aðra þingmenn um stöðu mála. Einnig hlupu starfsmenn Alþingis með skilaboð inn á þingflokksfundi ótt og títt, enda mikið í húfi. Þingmenn stjórnarflokkanna gáfu ekkert upp um afstöðu sína til tillagna að loknum þingflokksfundi og sögðu fjárlaganefndina þurfa að klára málið.