Friðrik Pétursson fæddist í Skjaldarbjarnarvík á Ströndum 9. apríl 1924. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 30. júlí sl. Hann var sonur hjónanna Sigríðar Elínar Jónsdóttur húsmóður, f. 10 nóvember 1893, d. 30. mars 1984, og Péturs Friðrikssonar bónda, f. 18. júní 1887, d. 9. september 1979. Systkini Friðriks voru Guðmundur, f. 26. febrúar 1917, d. 16. maí 1960, Guðbjörg, f. 28. mars 1920, Jóhannes, f. 3. ágúst 1922, d. 5. september 2000, Matthías, f. 22. ágúst 1926 og Jón, f. 27. janúar 1929, d. 31. október 1997.

Friðrik kvæntist 10. september 1958 Jóhönnu Herdísi Sveinbjörnsdóttur, f. 16. janúar 1929. Foreldrar hennar voru Sveinbjörn Ágúst Benónýsson, múrari og skáld, f. 8. ágúst 1892, d. 31. maí 1965, og Hindrika Júlía Helgadóttir, húsmóðir, f. 2. júlí 1894, d. 27. febrúar 1968.

Sonur þeirra er Ríkharður Helgi Friðriksson, tónlistarmaður, f. 5. nóvember 1960, unnusta Eygló Harðardóttir myndlistarmaður, f. 24. apríl 1964. Börn hans af fyrra sambandi við Svanhildi Bogadóttur, borgarskjalavörð, f. 27. nóvember 1962, eru Jóhanna Vigdís, f. 8. ágúst 1991, og Kristín Helga, f. 14. mars 1993, báðar menntaskólanemar.

Barn Friðriks af fyrra sambandi er Rósa Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur, f. 15. desember 1957. Móðir hennar var Áslaug Jónsdóttir, f. 1926, d. 2007, og dóttir hennar er Guðrún María Pálsdóttir, f. 1. júní 1990.

Friðrik ólst upp í Skjaldarbjarnarvík á Ströndum og síðar á Reykjarfirði. Að loknu námi við Barnaskólann á Finnbogastöðum í Trékyllisvík og Héraðsskólann að Reykholti í Borgarfirði fór hann í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi árið 1948. Síðar lauk hann sérkennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1969. Friðrik kenndi mörg ár í Vestmanneyjum en flutti til Kópavogs árið 1968 og starfaði eftir það m.a. við Brúarlandsskóla í Mosfellssveit, Breiðholtsskóla og Þinghólsskóla, en lengst af sem sérkennari við Snælandsskóla í Kópavogi. Um skeið var hann formaður Félags ungra Framsóknarmanna í Vestmannaeyjum. Síðar starfaði hann með Skógræktarfélagi Kópavogs um árabil, þar sem hann veitti um tíma forstöðu skógræktarstöðinni Svörtuskógum og sá um skógrækt í landi skógræktarfélagsins í Kjós í Hvalfirði. Á sumrin gegndi Friðrik ýmsum störfum, t.d. vann hann á námsárunum í síldarverksmiðjunni á Ingólfsfirði og í Vestmannaeyjum var hann m.a. til sjós, vann í Sparisjóðnum og vann við stækkun flugvallarins. Í Kópavogi fór drjúgur hluti sumranna í skógrækt og á tímabili gerði hann þaðan út trillu. Á síðari árum ritaði hann nokkrar greinar um lífið í Skjaldarbjarnarvík á æskuárunum. Þær hafa m.a. birst í Strandapóstinum og verið lesnar í útvarpi.

Friðrik verður jarðsunginn frá Kópavogskirkju í dag, föstudaginn 14. ágúst, og hefst athöfnin kl. 15.

Það tekur á að skrifa eftirmæli um mann sem var svona stór hluti lífs míns. Sama hvar er gripið niður, þá var hann aldrei langt í burtu. Pabbi var yfirleitt ekki áberandi, en þegar á þurfti að halda var hann alltaf til staðar. Hann var kletturinn sem alltaf var hægt að treysta á, sama hvað það var.

Hvað sem gerðist, þá skipti hann aldrei skapi, hvort sem hann gekk fram á mann drukkinn í miðbænum eða þegar ég kveikti í heimasætunni í kjallaranum. Það þurfti meira en þetta til að koma honum úr jafnvægi. Hann var sallarólegur hvað sem gekk á og kom sínum uppeldisboðskap til skila í fáum orðum. Líklega var þetta lenska frá Ströndunum, a.m.k. voru afi og amma svona líka, bara ennþá orðfærri. Ég man ekki til að hafa nokkurn tíma verið skammaður eða mér refsað. Pabbi hafði annan hátt á og notaði jákvæða styrkingu í uppeldinu frekar en neikvætt niðurrif.

Pabbi var alltaf sami kennarinn. Þó honum hafi ekki líkað eitthvað, þá setti hann sig ekki beint á móti því, heldur gaf leiðbeiningar. Þannig gat hann ekki alveg tekið þegjandi þeirri ákvörðun minni að verða tónlistarmaður. Því gaf hann mér það klassíska ráð að afla mér annarrar menntunar til vara. Ég fór eftir því ráði og sé ekki eftir því, vegna þess að sú menntun gerði mig ekki bara að betri manneskju, heldur hefur hún gagnast mér ótrúlega vel í lífi og starfi, nokkuð sem hafði ekki hvarflað að mér á sínum tíma.

Hann hefur sannarlega lifað tímana tvenna og í raun ótrúlegt að hann hafi getað komist klakklaust í gegnum þær gríðarlegu breytingar sem hann lifði. Fyrstu árin bjó pabbi í torfbæ í Skjaldarbjarnarvík við aðstæður sem höfðu lítið breyst öldum saman. Nútíminn hélt svo innreið sína með síldarverksmiðjum og seinna tölvum og alheimsvæðingu. Þjóðfélagið sem hann kvaddi hafði þróast um margar aldir frá þjóðfélaginu sem hann fæddist í.

Það var ótrúlegt að sjá hvað hann gat lagað sig að þessum breytingum. Sérstaklega var þetta áberandi þegar hann kom að heimsækja mig erlendis. Hann fór fljótt allra sinna ferða hjálparlaust í New York. Ekki var þó langt í Strandamanninn því uppáhaldsstaðurinn hans var Central Park og þangað fór hann á hverjum degi að njóta náttúrunnar.

Pabbi var mikill náttúruunnandi, líklega vegna uppvaxtaráranna í harðri náttúru á Ströndum. Þegar við fórum í frí þá var það alltaf á vit íslenskrar náttúru – oftar en ekki á Strandirnar, auðvitað. Síðar ferðaðist hann í gegnum mig, skoðaði myndir og fylgdist með símleiðis, skipti þar engu máli hvort staðurinn hét Kuala Lumpur eða Gjögur. Þegar farið var um Strandir fékk maður svo náttúrulega lifandi leiðsögn í gegnum símann. Kletturinn er farinn og eftir situr mikið tómarúm, ekki síst hjá mömmu, því hann var stóri kletturinn hennar, bakhjarlinn mikli sem var alltaf nálægur. Þetta verður erfitt líf án hans. Við sem eftir sitjum, reynum að taka okkur hann til fyrirmyndar: bera harm okkar í hljóði og takast á við framtíðina með hljóðri yfirvegun. Það hefði verið hans stíll. Pabbi verður áfram með okkur í anda.

Ríkharður H. Friðriksson.

Friðrik afi minn hefur alltaf verið stór hluti í lífi mínu og á ég yndislegar minningar um hann alveg frá því ég man eftir mér.

Afi var frábær kennari og kenndi mér margt sem mun gagnast mér í gegnum lífið. Meðal annars kenndi hann mér að tefla og leysa krossgátur og njóta þess.

Það er alltaf ánægjulegt að koma á heimili afa og ömmu á Borgarholtsbraut. Afi fór strax út í bakarí og keypti handa okkur það sem við vildum. Síðan var lagað kókó og við drukkum saman við eldhúsborðið við notalegheit og spjall.

Afa og amma fóru með okkur upp í Heiðmörk alveg frá því við vorum litlar. Við fórum í gönguferðir, nutum náttúrunnar og borðuðum nesti. Þetta voru unaðslegar stundir. Afi þekkti svæðið mjög vel og gat frætt okkur um allar plöntur. Hann var líka áhugasamur um skógrækt og naut þess að ganga um stígana.

Afi var ótrúlega fróðleiksfús og hafði áhuga á að kynna sér nýja hluti. Mér er t.d. minnisstætt hvað hann var áhugasamur með nýju líffræðibókina mína. Hann vildi heyra um allt sem við vorum að gera og sýndi því áhuga sem við vorum að fást við hverju sinni.

Ég á ekkert nema yndislegar minningar um afa. Þótt hann sé farinn frá okkur, þá verður hann áfram í hjarta mínu og ég mun alltaf muna eftir elskulegum afa mínum.

Jóhanna Vigdís Ríkharðsdóttir.

Ég vil með þessum orðum minnast fyrrverandi tengdaföður míns, Friðriks Péturssonar, sem lést 28. júlí sl.

Kynni okkar Friðriks ná aftur til ársins 1982 þegar ég kynntist Ríkharði syni hans og frá upphafi tóku bæði Friðrik og Jóhanna kona hans innilega við mér í fjölskyldu þeirra. Friðrik var á þeim tíma sérkennari við Snælandsskóla en hann hafði búið í Kópavogi með fjölskyldu sinni frá 1968. Hann var kennari af brennandi áhuga og fylgist vel með straumum og stefnum í faginu.

Friðrik var fróðleiksfús og átti gott með mannleg samskipti. Hann tefldi mikið og hafði keppnisskap. Hann las sömuleiðis mikið, bæði fræðibækur og fagurbókmenntir, kunni mikið af ljóðum og fylgdist vel með málefnum líðandi stundar.

Náttúran var Friðriki hugleikin, hvort sem það var að ganga á fjöll eða um Heiðmörk og hann þekkti flestar fugla- og plöntutegundir. Hann var frár á fæti og hafði yngra fólk ekki roð við honum allt fram á áttræðisaldur. Hann var áhugasamur um skógrækt og starfaði mörg sumur sem forstöðumaður Skógræktar Kópavogs í Fífuhvammi. Friðrik naut þess ekki síður að vera úti á sjó og á efri árum keypti hann trillu og reri mörg sumur frá Kópavogshöfn.

Ég kynntist síðan annarri hlið á Friðriki þegar við Rikki eignuðumst dætur okkar Jóhönnu Vigdísi og Kristínu Helgu. Þá varð hann okkur algjör stoð og stytta. Á þeim tíma var ekki hægt að koma börnum inn í leikskóla fyrr en við þriggja ára aldur. Hann og Hanna tóku að sér að passa, fyrst Jóhönnu og síðar Kristínu, allt þar til þær byrjuðu í leikskóla. Hann var ótrúlega þolinmóður við þær og kenndi þeim þá og síðar margt sem þær munu búa að alla ævi. Svo beið hann spenntur eftir að þær yrðu nægjanlega gamlar til að læra mannganginn og tefla við sig.

Maður velti oft fyrir sér æsku Friðriks og hvernig hún mótaði hann sem einstakling. Hann var fæddur í Skjaldarbjarnarvík á Vestfjörðum sem er/var einungis hægt að komast til á báti eða fótgangandi yfir fjöll og flutti síðar í Reykjafjörð á Ströndum. Það þurfti mikinn kjark og stuðning frá fjölskyldu til að rífa sig upp og fara menntaveginn til Reykjavíkur og ljúka þar kennaranámi og síðar framhaldsnámi í sérkennslufræðum. Friðrik hefur örugglega verið góður námsmaður og eljusamur eins og síðar í lífinu. Kannski hafa það verið áhrif frá uppvaxtarárunum sem gerðu hann svo þolinmóðan og oft fastan fyrir eins og klett.

Eitt síðasta skiptið sem ég hitti Friðrik var á Borgarspítala fjórum dögum áður en hann lést. Það var af honum dregið líkamlega en hann fylgdist vel með öllu sem við sögðum. Ógleymanlegt er brosið sem færðist yfir andlit hans þegar ég lýsti útsýni yfir á Vestfirði frá Snæfellsnesi og stórkostlegri litadýrð sólarlagsins þar helgina áður.

Ég vil að lokum kveðja Friðrik með söknuði og þakka honum fyrir allt gott í þessi 27 ár. Hann átti langa ævi sem hann getur verið stoltur af og reyndist fólkinu í kring um sig vel. Ég færi Hönnu, Rikka og Eygló, Jóhönnu og Kristínu og öðrum ástvinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Svanhildur Bogadóttir.

mbl.is/minningar