Hljómsveitarstjórinn Tónlistin nýtur sín til fulls hjá Rumon Gamba.
Hljómsveitarstjórinn Tónlistin nýtur sín til fulls hjá Rumon Gamba.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NÝ plata þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur Sinfóníu nr. 2 eftir franska tónskáldið Vincent d'Indy hlýtur afar lofsamlega dóma í heimspressunni um þessar mundir.

NÝ plata þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur Sinfóníu nr. 2 eftir franska tónskáldið Vincent d'Indy hlýtur afar lofsamlega dóma í heimspressunni um þessar mundir. Fyrir skömmu var hún valin ein af bestu plötum mánaðarins í tímaritinu Gramophone , en fyrsta platan í sömu útgáfuröð hljómsveitarinnar hlaut einnig mikið lof og var tilnefnd til Grammy-verðlauna á síðasta ári.

Nýja platan fær fjóra og hálfa stjörnu af fimm mögulegum í Musical Opinion og þar segir gagnrýnandinn að flutningur hinnar „afar góðu“ Sinfóníuhljómsveitar Íslands á verkum franska tónskáldsins sé einkar áhrifamikill. „Greinilegt er að þessi útgáfuröð mun setja ný viðmið þegar kemur að flutningi þessara verka, og tilhlökkunarefni að hinar sinfóníur tónskáldsins skuli brátt bætast í hópinn,“ segir gagnrýnandinn. Þá hrósar hann sérstaklega upptökunni sem Georg Magnússon tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu stýrði.

Litríkur og þróttmikill leikur

Í júníhefti BBC Music Magazine fær platan fjórar stjörnur af fimm mögulegum. Gagnrýnandinn, Robert Maycock, segir Sinfóníuhljómsveitina leika með björtum tóni og þótt strengjasveitin hefði gjarnan mátt vera stærri einkennist leikurinn af þrótti og nákvæmni. SÍ fær einnig fjórar stjörnur í breska dagblaðinu Telegraph , og þar segir Geoffrey Norris að flutningurinn sé öruggur en einnig sveigjanlegur í hraða og hendingamótun. Þá segir Norris að hljómur sveitarinnar sé einstaklega litríkur og að blæbrigði tónsmíðarinnar komist vel til skila.

Í International Record Review skrifar Stephen Pruslin og lofar Rumon Gamba sérstaklega fyrir að vita hvernig eigi að láta hljóm tónlistarinnar njóta sín til fulls, og segir að hljómur Sinfóníunnar minni á „mun hlýrri staði en Reykjavík“.

Sinfóníuhljómsveitin hljóðritar þriðju plötuna í d'Indy-röðinni nú í september.