Með biskupi Íslands Drengjakór Reykjavíkur æfir í Hallgrímskirkju þar sem hann syngur mánaðarlega í messu.
Með biskupi Íslands Drengjakór Reykjavíkur æfir í Hallgrímskirkju þar sem hann syngur mánaðarlega í messu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Drengjakór Reykjavíkur fagnar 20 ára starfsafmæli á næsta ári en kórinn var stofnaður í Laugarneskirkju árið 1990. Til að fá inngöngu í kórinn þurfa drengirnir að þreyta inntökupróf en algengt er að kórfélagar stundi söng- eða tónlistarnám.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Í kórnum eru drengir frá 9 til 12 ára en inntökupróf eru haldin á hverju hausti þar sem væntanlegir kórfélagar þurfa að syngja lag eða tónskala og tónheyrn er prófuð. Við höfum aðstöðu í Hallgrímskirkju þar sem við syngjum í messu einu sinni í mánuði en æft er tvisvar í viku og er kórstarfið nokkuð krefjandi. Einnig höldum við úti undirbúningsdeild fyrir drengi sjö til átta ára og þeir fá að syngja við messur og með kórnum á tónleikum en syngja annars sér. Yfirleitt eru um 30 til 35 drengir í stóra kórnum og 10 í undirbúningsdeild en það er alltaf stefnan að fjölga þeim enn meira og sérstaklega nú fyrir stórafmælið. Á þeim tímamótum verða einnig væntanlega kallaðir til drengir eða herramenn sem stofnuðu kórinn á sínum tíma,“ segir Friðrik S. Kristinsson kórstjóri.

Andleg og veraldleg lög

Kórinn er samansettur af drengjum sem syngja sópran og altrödd, yfirleitt þriggja radda. Sungin eru bæði andleg og veraldleg lög en þegar kórinn syngur við messur eru sungnir bæði sálmar og smærri verk eftir helstu tónskáldin eins og Mozart og fleiri. Á vortónleikum er reynt að blanda saman lögum og syngja bæði eitthvað sem strákunum finnst gaman að syngja og líka það sem gerir meiri kröfur til þeirra. Mikið er sungið á latínu, þýsku og ensku og segir Friðrik það allt saman ganga vel enda sé algengt að drengirnir séu í öðru tónlistarnámi og því fljótir að grípa og tileinka sér ný lög. Einkennisorð kórsins eru: „Syngja eins og englar, hegða sér eins og herrar, leika sér eins og strákar“ og segir Friðrik þau orð eiga vel við enda sé haldið uppi ákveðnum aga í kórnum. Það hefur lukkast vel og þannig tekist að halda snurðulaust utan um sprækan strákahóp.

Aðkoma foreldra að kórnum er mikil en foreldrafélagið rekur kórinn og heldur vel utan um alla hluti er varða kórstarfið. Frá upphafi hefur það verið hefð að kórinn fer utan annað hvert ár og er stefnt að slíkri ferð á næsta ári. Friðrik segir allar kórferðir vera skemmtilegar og mikla upplifun enda snúist þær ekki bara um að syngja heldur líka að kynnast menningu og þjóð. Þá sé mikilvægt að hitta aðra kóra og kynnast því sem þeir eru að gera. Kórinn hefur meðal annars sungið í Vínarborg, Barcelona og Bandaríkjunum svo fáeinir staðir séu nefndir en einnig hefur kórinn verið duglegur að ferðast innanlands.

Löng reynsla af kórstarfi

„Ég hef gegnt starfi kórstjóra í 16 ár hjá Drengjakór Reykjavíkur og 20 ár hjá Karlakór Reykjavíkur sem er eins konar verndari Drengjakórsins. Þannig hafa kórarnir komið saman á tónleikum og Drengjakórinn fengið að nota aðstöðu Karlakórsins þegar svo hefur borið undir. Starf kórstjóra er svipað sama hvort um ræðir kór fyrir fullorðna eða börn. Nú taka við inntökupróf fyrir Drengjakórinn hinn 31. ágúst og síðan þarf að plana veturinn fyrir báða kóra og setja niður dagsetningar fyrir tónleikahald en jólatónleikar eru hápunktur haustsins,“ segir Friðrik.