Kjartan Gunnarsson
Kjartan Gunnarsson
Eftir Kjartan Gunnarsson: "Tjónið sem hryðjuverkaárás Breta á íslenska banka og fyrirtæki í þeirra eigu olli nemur þúsundum milljarða króna."

FLESTIR mikilvægir milliríkjasamningar sem Íslendingar gerðu á tuttugustu öld vekja athygli fyrir það, hversu mörgum kröfum og hagsmunum íslensku samningamennirnir náðu fram, til dæmis sambandslagasáttmálinn við Dani 1918, herverndarsamningurinn 1941 og varnarsamningurinn 1951, svo að ekki sé minnst á samningana þrjá við Breta um útfærslu fiskveiðilögsögunnar allt frá 1961. Þar nýttu íslensku samningamennirnir sér til fulls að stærri og sterkari lýðræðisþjóðir hafa enga löngun til að vaða yfir minni þjóðir þótt þær reyni vitanlega að gæta eigin hagsmuna, jafnframt því sem þær eru eins og hinar smærri bundnar af alþjóðalögum og alþjóðasamningum.

Því miður er ekki hið sama að segja um hinn svokallaða icesave-samning sem nú liggur fyrir Alþingi. Þar virðist í stuttu máli farið algerlega eftir kröfum hins aðilans og það meira að segja án nokkurs möguleika á að leggja ágreining í gerð hlutlausra aðila.

Kveikjan að þessu máli er hin einstæða og fautalega ákvörðun breskra stjórnvalda að beita í upphafi bankahrunsins hryðjuverkalögum gegn íslensku fyrirtæki, Landsbankanum, og frysta allar eignir hans, jafnframt því sem íslensk stjórnvöld, seðlabanki og fjármálaráðuneyti voru um skeið sett ásamt Landsbankanum á lista um hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og talíbana. Bresk stjórnvöld gáfu þá skýringu að þau væru að koma í veg fyrir, að peningar yrðu fluttir úr landi. En nokkrum vikum áður hafði hin breska deild Lehman Brothers getað flutt feikilega fjármuni, átta milljarða dala, frá Bretlandi til Bandaríkjanna án þess að hryðjuverkalögunum væri beitt á það fyrirtæki og því síður á bandaríska seðlabankann og fjármálaráðuneytið. Bretar gera sér greinilega þjóðarmun eftir stærð.

Mér er það óskiljanlegt hvers vegna íslensk stjórnvöld tóku þetta mál ekki strax upp á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, þar sem það átti heima. Íslendingar hafa ekki einu sinni her! Sú gerð ein að setja Seðlabankann og fjármálaráðuneytið um stund á þennan lista skapaði Íslendingum, jafnt stjórnvöldum og einkafyrirtækjum, stórkostlega örðugleika, sem við höfum smám saman verið að vinna okkur út úr. Bretar verða líka að gera greinarmun á einkafyrirtæki eins og Landsbankanum annars vegar og íslenska ríkinu hins vegar. Telji einhver að einkafyrirtækið hafi á sér brotið má fara dómstólaleiðina þar sem það á við, hvort heldur á Íslandi eða í Bretlandi. Í því sambandi eru athyglisverðar fréttir um það, að arabískir auðmenn hafi nýlega fengið hnekkt fyrir breskum dómstólum ákvörðun breskra stjórnvalda um að frysta eignir þeirra, þar sem ekki þótti fullsönnuð aðild þeirra að hryðjuverkum.

Það lítur út fyrir að flestir, að minnsta kosti þeir sem harðast gagnrýndu Breta sl. haust fyrir óhæfuverk þeirra gagnvart Íslendingum, hafi gleymt öllu sem þeir sögðu þá. Nauðungin sem Ísland var beitt á sér vart fordæmi utan stríðstíma. Tjónið sem hryðjuverkaárás Breta á íslenska banka og fyrirtæki í þeirra eigu olli nemur þúsundum milljarða króna. Það tjón eitt er miklu meira en samanlagðar innistæður á reikningum íslenskra banka erlendis. Þetta tjón eiga Íslendingar að fá bætt en þeir verða að sækja þær skaðabætur með málshöfðunum. Þar verður ríkisstjórnin að beita sér og skilanefndir bankanna. Ekkert hefur heyrst um að slík skaðabótamál séu hafin eða í undirbúningi. Eftir eignarnám bankanna eru þetta þeir aðilar sem geta höfðað slík mál. Þær bresku lögfræðistofur sem ég hef leitað til út af þessu eru sammála um að fullar forsendur séu til þess að höfða slík skaðabótamál. Almennt séð sé orðið viðurkennt að aðgerðir Breta hafi verið allt of harkalegar, allsendis óþarfar og gengið miklu lengra en eðlilegar meðalhófsreglur geri ráð fyrir. Af hverju sinna íslensk stjórnvöld ekki þessari frumskyldu og mikilvæga verkefni en ætla í staðinn að binda þjóðinni drápsklyfjar með skuldum sem ríkið bar ekki ábyrgð á?

Sérfræðingar í Evrópurétti eins og Stefán Már Stefánsson lagaprófessor hafa fært veigamikil rök fyrir því að ríkisábyrgð á erlendum skuldbindingum Landsbankans nái aðeins að því sem ríkinu var skylt að gera samkvæmt alþjóðasamningum, þar á meðal og auðvitað aðallega að setja upp sérstakan tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta. Gæti sá tryggingasjóður ekki staðið undir lögmæltum skuldbindingum sínum, þá færðust þær ekki sjálfkrafa til ríkissjóðs enda væri sjóðurinn sjálfseignarstofnun. Mér er það þess vegna líka óskiljanlegt hvers vegna íslensk stjórnvöld fóru ekki dómstólaleiðina eftir að þau höfðu tekið bankana eignarnámi.

Íslendingar höfðu í einu og öllu staðið við EES-skuldbindingar sínar um að koma á innistæðutryggingakerfi sem starfaði eins og því bar að gera. Bæði breska fjármálaeftirlitinu og breska seðlabankanum var fullljóst að ekki var nein ríkisábyrgð, hvorki á Landsbankanum sem slíkum, innistæðureikningum hans né íslenska tryggingasjóðnum. Þótt breska ríkisstjórnin hafi kosið að greiða öllum innistæðueigendum icesave út innistæður sínar eignast hún ekki annan og meiri rétt en innistæðueigendur áttu og deila um ábyrgðir verður áfram einkaréttarlegs eðlis en ekki þjóðréttarleg við þá einhliða ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar.

Verði hins vegar sá samningur sem ríkisstjórnin íslenska hefur gert samþykktur og ríkisábyrgðin á honum þá verður breska ríkið eini aðilinn sem nýtur ríkisábyrgðar á innlánum eða kröfum vegna þeirra í íslenskum fjármálafyrirtækjum. Það fær margfaldan rétt á við rétt vanalegra íslenskra manna sem eiga innistæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum. Á þeim innistæðum er engin ríkisábyrgð. Eina tryggingin vegna þeirra er annars vegar innistæðutryggingasjóðurinn og hins vegar eignir viðkomandi banka. Eða nákvæmlega sömu tryggingar og voru fyrir icesave-reikningunum í Bretlandi. Af hverju á breska ríkið að vera miklu betur sett en vanalegur íslenskur sparifjáreigandi? Engin lög hafa verið sett um ríkisábyrgð á innistæðum í íslenskum fjármálafyrirtækjum.

Engin lagaleg nauðsyn knúði þannig íslenska ríkið til að taka á sig skuldbindingar vegna icesave-reikninganna í Bretlandi eða Hollandi. Þess ber líka að gæta að vegna hinnar ruddalegu framkomu Breta sem minnir helst á nýlendutímann hafa þær eignir sem standa á móti skuldbindingunum áreiðanlega hrapað í verði svo að ekki sé meira sagt. Þann skaða sem Bretar hafa sjálfir valdið eiga þeir sjálfir að bera. Þess vegna hefði í allra mesta lagi verið hugsanlegt, eins og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur bent á, að bjóða Bretum og öðrum þeim sem telja sig eiga kröfur á hendur Landsbankanum erlendar eignir hans upp í skuldbindingar hans og láta þá sjálfa um að leysa þá erfiðleika sem þeir ollu.

Nú er því haldið fram að Íslendingar muni ekki fá lánafyrirgreiðslu erlendis ef Alþingi samþykki ekki icesave-samninginn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni hverfa frá og grannþjóðir okkar hætta við aðstoð við okkur í hinum miklu og þó tímabundnu erfiðleikum okkar. Þessi rök fá ekki staðist. Það getur ekki verið að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi gerst handrukkari fyrir Breta, enda neita talsmenn sjóðsins því harðlega, auk þess sem það væri brot á samþykktum hans og öllu eðli. Og jafnvel þótt þetta væri rétt, eins fáránlega og það hljómar, þá getur aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nágrannaþjóða okkar ekki verið bundin því hvað semst um efnislega milli Breta og Íslendinga, heldur aðeins hinu að samningar náist og niðurstaða fáist.

Í þessu efni má líka minna á að í um tvo áratugi hefur því verið haldið fram að ef Íslendingar hæfu stórhvalaveiðar í atvinnuskyni mundu bæði Bandaríkin og Evrópusambandið tafarlaust setja viðskiptabann á Ísland og landinu yrði nánast útskúfað úr hópi siðaðra þjóða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir okkur. Þetta er nákvæmlega hið sama og nú er sagt. Við hófum þessar veiðar í vor og nú hefur Íslendingum verið falið að hafa forystu um setningu reglna um stórhvalaveiðar á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins. Hér gildir sem í öðru að halda höfði og standa í fæturna þótt menn séu skammaðir á ensku og hótað öllu illu.

Ég tel sjálfsagt að standa við allar okkar alþjóðlegu skuldbindingar og halda vináttu við grannþjóðir. Það var auðvitað aldrei ætlun Landsbankans með icesave-reikningum í Bretlandi að baka íslenskum almenningi stórkostlegt tjón og því var aldrei haldið fram af honum að neins konar ríkisábyrgð fylgdi störfum hans, hvorki í Bretlandi né annarsstaðar. Og í einu og öllu var farið að lögum, reglum, opinberum fyrirmælum og EES-samningnum við stofun icesave-reikninganna. En það þarf ekki heldur að gerast. Íslenska ríkið á vitaskuld að leita sanngjarnra samninga við breska ríkið og koma upprétt að samningaborðinu enda vinna með Íslendingum alþjóðalög og alþjóðasamningar auk þess sem lífshagsmunir lítillar þjóðar eru í húfi.

En við Breta og önnur ríki, sem hér koma við sögu, verður að gera betri samning en þann, sem nú liggur fyrir Alþingi. Þess vegna er affarasælast að Alþingi felli þennan samning og feli stjórnvöldum að hefja á ný viðræður við Breta og aðrar þjóðir um icesave-reikningana. Þótt auðvitað verði látið í veðri vaka, á meðan málið er til afgreiðslu á Alþingi, að ekki sé kostur á þessu, trúi ég því ekki. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, grannþjóðir okkar og Bretar hljóta að vilja semja frekar en neyta aflsmunar. Það sjá raunar allir nema ríkisstjórnin sem gengur hér erinda Breta af meiri hörku og óbilgirni en dæmi eru til og líklega meiri hörku en þeir hefðu sjálfir lagt í að beita að teknu tilliti til hinna mjög svo breyttu aðstæðna frá því síðastliðið haust.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Kjartan Gunnarsson