[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

„ÞETTA byrjaði allt með því að ég rakst á grein sem fjallaði um það hvernig atvinnuleysi getur ýtt undir heimilisofbeldi,“ segir Sigríður Soffía Níelsdóttir, annar tveggja höfunda dansverksins Fresh Meat sem frumsýnt verður á morgun. Verkið, sem er eftir þær Sigríði og Snædísi Lilju Ingadóttur, var unnið í spuna og var ástandið í þjóðfélaginu í dag helsti innblástur þess.

„Við fórum að rannsaka samband gerenda og þolenda í heimilisofbeldi. Við skoðuðum líka staðreynd á borð við þá að það fólk sem beitir ofbeldi varð oft fyrir ofbeldi í æsku. Við notum það svolítið í uppbyggingu verksins.“

Aðspurð segir Sigríður verkið því vissulega nokkuð ofbeldisfullt.

„En þó ekki á bókstaflegan hátt, þótt allur undirtónninn sé mjög þungur. En svo vinnum við með þá staðreynd að heimilisofbeldi er oft mjög falið, þannig að á yfirborðinu virðist oft allt vera í lagi. En það fer ekki framhjá neinum um hvað þetta verk snýst.“

Dómar til hliðsjónar

Að sögn Sigríðar gengu þær stöllur svo langt í rannsóknarvinnu sinni að þær skoðuðu dóma sem fallið hafa í tengslum við heimilisofbeldi.

„Við vorum aðallega að skoða formið sem dómarnir eru birtir í. Það er sem sagt þannig að í hverju máli eru að minnsta kosti fimm lýsingar á sama atburðinum – það er að segja frásögn fórnarlambsins, gerandans og vitna, auk mjög faglegra læknaskýrslna, og svo sjálfur dómurinn. Það er mjög áhugavert að lesa það allt saman, enda oft mikið misræmi í því sem er sagt. Í textum í sýningunni erum við með þessa dóma til hliðsjónar,“ segir Sigríður og bætir því við að þótt um dansverk sé að ræða kalli þær það „dansskotið leikhúsverk“.

Þær Sigríður og Snædís útskrifuðust báðar af dansbraut Listaháskólans nú í vor. Þær vinna verkið í samvinnu við myndlistarmanninn Björk Viggósdóttir sem sér um sjónrænt umhverfi sýningarinnar, en tónlistin og hljóðmyndin er eftir Lydíu Grétarsdóttur.

Fresh Meat , sem er hluti af listahátíðinni Artfart, verður sýnt í Leikhúsbatteríinu (fyrir ofan gamla Organ) og eru sýningar 15., 16. 21. og 22. ágúst kl. 18 alla dagana, en á sunnudaginn, 16. ágúst, verður aukasýning kl. 20.

Miðasala er í síma 897-0496 og miðaverð er 1.000 krónur.