Því er haldið fram að maður eigi ekki að dæma bók eftir kápunni, fólk eftir útliti og gjafir og því um líkt eftir umbúðunum.

Því er haldið fram að maður eigi ekki að dæma bók eftir kápunni, fólk eftir útliti og gjafir og því um líkt eftir umbúðunum. Þetta er góð speki þótt ekki megi hunsa þær ótvíræðu vísbendingar sem þetta gefur: Bók með mynd af þrýstnu pari í faðmlögum á kápunni er jú sennilega ástarsaga og sæt stúlka er sennilega ofboðslega skemmtileg og með frábæran persónuleika. Mjúkir pakkar sökka.

Fara verður varlega í að draga ályktanir af kápum, útliti og umbúðum. Það er mjög ergjandi að vera dreginn afdráttarlaust í dilk eftir þessu og öðru, til dæmis fatavali eða stjórnmálaskoðunum. Fólk er oft afgreitt í einu vetfangi án annarra sönnunargagna: „Já, þú ert svona týpa.“ Óþolandi. Alveg.

Sjálfum finnst mér verst að vera dæmdur eftir tónlistarsmekk. Ég poppa ekki E þótt ég hlusti á Daft Punk og bryð ekki Zoloft þótt ég hlusti á Nick Cave. Ég er ekki alltaf rammskakkur þótt ég hlusti á Dylan. Þaðan af síður laðast ég að körlum þótt ég hlusti á Pál Óskar eða ræni kaupmanninn á horninu þótt ég hlusti á NWA. Fráleitt er að telja mig meðlim Ku Klux Klan þótt Lynyrd Skynyrd rati endrum og eins í spilarann.

Dilkadráttur með þessum hætti er ekki af hinu góða. Hann er einföldun einfeldningsins á flóknu og gjarna áhugaverðu fólki í margslungnum heimi. Aukinheldur eykur þessi hugsunarháttur hleypidóma hjá okkur þröngsýni og rýrir ánægju okkar af öðru fólki. Notum höfuðið, sjáum heildarmyndina.