Sjálfskipting Það er ekki góðs viti ef það koma högg í sjálfskiptingu og þá best að láta kíkja á hana.
Sjálfskipting Það er ekki góðs viti ef það koma högg í sjálfskiptingu og þá best að láta kíkja á hana. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Spurningar og svör Leó M. Jónsson leoemm@simnet.is Högg í sjálfskiptingu Spurt: Ég á 2008 árgerð af SsangYong Kyron-jeppa. Högg koma í sjálfskiptinguna þegar valstöngin er færð í lausagangi úr P í D og öfugt.

Spurningar og svör

Leó M. Jónsson

leoemm@simnet.is

Högg í sjálfskiptingu

Spurt: Ég á 2008 árgerð af SsangYong Kyron-jeppa. Högg koma í sjálfskiptinguna þegar valstöngin er færð í lausagangi úr P í D og öfugt. Starfsmenn á verkstæði umboðsins segja högg vera algeng og eðlileg þegar um sé að ræða sjálfskiptingar frá M-Benz og Porsche og vilja ekkert gera í málinu þótt bíllinn sé í ábyrgð. Ég hef spurt sérfræðinga í sjálfskiptingum og eru þeir sammála um að sjálfskiptingin sé ekki í lagi. Það væri gagnlegt að fá þitt álit og hvað þú getur ráðlagt mér?

Svar: Þú hefur greinilega hitt á rangan mann hjá umboðinu. Engin högg eiga að vera merkjanleg þegar fært er úr P í D (hvorki hjá Kyron né Porsche). Komi högg í skiptinguna þegar fært er úr D í P (þ.e. öfugt) getur verið um alvarlega bilun að ræða. Þar sem bíllinn er nýlegur myndi endurforritun skiptingartölvu vera fyrsta skrefið. Sé ekkert aðhafst munu höggin eyðileggja sveigjuplötu (flexplate) vökvatúrbínunnar, túrbínan brotnar og eyðileggur skiptinguna. Talaðu við móttökustjóra umboðsins og þetta mun örugglega verða lagað fyrir þig hið snarasta.

Enn um KN-loftsíur

Spurt: Hvernig eru KN loftsíur? Ég er með Patrol 1994 með þannig síu. Ekki eru allir á einu máli um gildi KN-loftsía. Hvert er þitt persónulega álit?

Svar: Því minna sem flæðisviðnám loftsíu er því minna grunar mig að hún hreinsi. Því minna sem loftsía dregur úr vélarafli, innan vissra marka, því örar slitnar vélin. Ég trúi því ekki að KN hafi uppgötvað tækni við ryksíun lofts sem aðrir framleiðendur sía hafi ekki á valdi sínu. Ég hef vonda reynslu af KN-loftsíum og mig grunar að þær geti eyðilagt dýra flæðisskynjara. Samkvæmt „KN-spekinni“ eykst vélarafl vegna minna viðnáms í loftsíunni. Það er ekkert leyndarmál að afl vélar eykst með því að sleppa lofthreinsaranum. Markaðstækni KN virðist byggð á blekkingum og sölubrellum (hreinsivökvi t.d.) Prófanir, samanburður og niðurstöður, sem birtar eru á Netinu, segja sína sögu. (Prófaðu að gúggla „air filter tests“).

Hver selur sérhæfðan sjálfskiptivökva?

Spurt: Hvar fæst rétti vökvinn á tölvustýrða sjálfskiptingu í Musso 2000 dísil? Skiptingin er án kvarða. Er hún þá af gerðinni BTRA?

Svar: Tvenns konar tölvustýrðar sjálfskiptingar eru í Musso og báðar lokaðar (án kvarða). Til og með árgerð 2000 er skiptingin frá Mercedes-Benz en frá og með 2001 frá BTRA. Séu hnökrar í skiptingunni er ekki nóg að endurnýja vökvann með til þess gerðum áhöldum. Þrífa og liðka þarf rafsegulloka í ventlaboxinu. Sérhæfður vökvi fyrir mismunandi gerðir sjálfskiptinga, þar á meðal BTRA, fæst hjá Poulsen í Skeifunni.

Dýrar afturhjólslegur í Volvo

Spurt: Ég á Volvo XC 90 árg. 2003, ekinn 87.000 km. Mikill „söngur“ berst frá afturhjólslegu öðrum megin. Mér finnst þetta lítil ending og mér finnst mjög dýrt að láta endurnýja þessa einu legu. Eiga hjóllegur í Volvo ekki að endast lengur? Þarf að skipta um legu báðum megin að aftan eða jafnvel á öllum hjólnöfum?

Svar: Endurnýja þarf ónýtu leguna sem fyrst. Ástæðulaust er að endurnýja hjóllegur fyrr en fer að heyrast í þeim, til dæmis þegar lagt er lítils háttar á stýrið á beinni braut. Hjóllegur brotna sjaldan en í þeim getur myndast urghljóð í lengri tíma (sumir hækka bara í græjunum!). Áður en hjóllega er keypt borgar sig að kanna verð hjá N1 og Fálkanum en bæði fyrirtækin selja legur sem eru frumbúnaður, meðal annars í Volvo (SKF og FAG).

Athugið að bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com Höfundur er vélatæknifræðingur.