„ÞAÐ stendur ekkert sérstakt til í tilefni dagsins, enda er ég ekkert mikið fyrir afmælishald,“ segir Edda Geirsdóttir, grafíklistakona og spákona í hjáverkum, sem í dag verður 55 ára.

„ÞAÐ stendur ekkert sérstakt til í tilefni dagsins, enda er ég ekkert mikið fyrir afmælishald,“ segir Edda Geirsdóttir, grafíklistakona og spákona í hjáverkum, sem í dag verður 55 ára. Rifjar hún upp að hún hafi sem barn alltaf verið í sveit á þessum tíma árs og allir þar haft nóg að gera við heyannir. Sökum þessa hafa lítið orðið úr hvers kyns afmælisstandi. Edda útilokar ekki að hún grípi spilin í dag eða kíki í kaffibolla til að sjá fyrir afmælisdeginum og hugsanlega munu einhverjir vinir líta í heimsókn í tilefni dagsins í dag.

Af eftirminnilegum afmælum í tímans rás nefnir Edda annars vegar fertugsafmæli sitt og hins vegar 26 ára afmæli sitt. Það síðarnefnda stendur upp úr í minningunni þar sem föðurbróðir Eddu var jarðaður á þessum degi og þótti henni það afar erfitt. Fertugsafmælið er hins vegar með ánægjulegri afmælisdögum að sögn Eddu. „Það var í eina skiptið sem afmælissöngurinn var sunginn fyrir mig. Þetta var á sunnudegi og ég hafði farið í messu á vegum Chapel of Light. Að messu lokinni fór ég ásamt messugestum í Norræna húsið þar sem við drukkum kaffi og þau færðu mér blóm og sungu fyrir mig.“ silja@mbl.is