Hörður Arnarson
Hörður Arnarson
Eftir Magnús Halldórsson magnush@mbl.is HÖRÐUR Arnarson, fyrrverandi forstjóri Marels og núverandi forstjóri Sjóvár, tekur við stöðu forstjóra Landsvirkjunar eigi síðar en 1. janúar.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

HÖRÐUR Arnarson, fyrrverandi forstjóri Marels og núverandi forstjóri Sjóvár, tekur við stöðu forstjóra Landsvirkjunar eigi síðar en 1. janúar. Hörður var ráðinn eftir hefðbundið umsóknarferli og voru umsækjendur 35 talsins.

Að sögn Bryndísar Hlöðversdóttur, stjórnarformanns Landsvirkjunar, var það einróma niðurstaða stjórnarinnar að Hörður væri hæfastur. „Það voru fimm teknir í viðtöl og eftir þau var sú ákvörðun tekin að ráða Hörð. Með þá ákvörðun ríkir mikil ánægja.“

Hörður segist hlakka til þess að hefja störf hjá fyrirtækinu. Um draumastarf sé að ræða að mörgu leyti, en Hörður er rafmagnsverkfræðingur að mennt með doktorsgráðu frá danska tækniháskólanum DTU. „Ég hlakka til þess að takast á við þetta starf og það er ljóst að Landsvirkjun mun gegna lykilhlutverki í uppbyggingu landsins.“

Bryndís segir Friðrik Sophusson, sem gegnt hefur stöðu forstjóra Landsvirkjunar undanfarin 11 ár, hafa staðið sig vel. „Friðrik skilaði einstaklega miklu og góðu starfi fyrir fyrirtækið. Fyrirtækið hefur tekið miklum breytingum frá því hann hóf störf og það má segja að ákveðin tímamót séu framundan í rekstri þess.“

Erfitt aðgengi að fjármagni hefur komið harkalega niður á Landsvirkjun. Fyrirtækið hefur gert viðbúnaðarsamning við Seðlabanka Íslands til að auðvelda sér að komast í gegnum lausafjárþurrð.

Í Framtíðarlandinu

Hörður Arnarson er einn af þeim sem lögðu samtökunum Framtíðarlandinu lið á sínum tíma og hefur margsinnis gagnrýnt virkjanastefnu íslenskra stjórnvalda. Einkum hefur hann sagt að arðsemi virkjana sé ekki nægilega mikil. Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar, sagði stjórnina hafa verið sér vel meðvitandi um afstöðu Harðar þegar hann var ráðinn.

„Ég tel það Herði frekar til tekna að hann hafi tekið þátt í umræðu um þessi mál sem lengi hafa verið umdeild hér á landi. Ég vil þó ekkert vera að tjá mig sérstaklega um þessi atriði,“ segir Bryndís.