Hewlett Packard Hjá Opnum Kerfum eru 15 tommu fartölvur vinsælastar en þær má nota í allt mögulegt.
Hewlett Packard Hjá Opnum Kerfum eru 15 tommu fartölvur vinsælastar en þær má nota í allt mögulegt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nemendur gera kröfur um langan endingartíma rafhlaðna, gott vinnsluminni og vinnsluhraða þegar þeir leita sér að fartölvu fyrir skólann. Stelpurnar eru hrifnar af fartölvum í litum en strákarnir einblína frekar á dýrari vélar sem eru aflmiklar.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Það er orðin krafa í flestum framhaldsskólum að nemendur séu með fartölvur og að sama skapi kjósa margir háskólanemendur að nota tölvur í tíma. Þótt misjafnt sé hvaða tölvur eru vinsælastar eru flestir framhaldsskólanemar að leita að því sama, að sögn Guðmundar Zebitz hjá Opnum kerfum. „Hinn týpíski nemandi þarf að hafa góðan harðan disk, gott vinnsluminni og að sjálfsögðu þarf hann að hafa öflugt netkort því núna eru þráðlaus tengi í flestum skólum. Örgjörvastærð skiptir að sjálfsögðu líka máli þar sem það segir til um vinnsluhraða vélarinnar. Svo er mikilvægt að rafhlaðan endist ekki minna en í þrjá klukkutíma.“

Uppfylla kröfur skólafólks

Guðmundur talar um að hjá Hewlett Packard, sem Opin kerfi eru umboðsaðili fyrir, séu þessar hefðbundnu 15,6 tommu vélar vinsælastar, en það eru vélar sem má nota í allt mögulegt. „Þær uppfylla allar kröfur sem nemendur gera, að geta verið á netinu, notað ritvinnslu- og samskiptaforrit auk þess að spila tölvuleiki. Það sem kemur niður á minni vélunum er að þær hafa ekki sjálfstæð skjákort og þar af leiðandi er mun erfiðara að spila tölvuleiki á þeim þótt þær henti hins vegar mjög vel í ritvinnslu og á netið. Við bjóðum þessar hefðbundnu vélar frá 109.900 krónum með þriggja ára HP ábyrgð og tryggingu en við erum í samstarfi við Tryggingamiðstöðina.“

Minni tölvur vinsælar

Gísli Þorsteinsson hjá Nýherja talar hins vegar um að minni vélarnar henti skólafólki mjög vel. „Öll þróun fartölva miðar að því að gera þær léttari og þynnri án þess að fórna afköstum og gæðum. Dæmi um slíkt eru fistölvur, til dæmis IdeaPad frá Lenovo. Tími stóru 15 tommu fartölvanna er liðinn og vilja kaupendur frekar léttar og nettar fartölvur í dag sem þeir geta notað hvar sem er. Þeir sem vilja ekki þurfa að treysta á opin þráðlaus net geta valið vélar með innbyggðu 3G mótaldi sem færist í vöxt en slíkt gerir fólki mögulegt að tengjast netinu nánast hvar sem er án vandkvæða.“

Lengri rafhlöðuending

Nú orðið eru fartölvur til í alls kyns fallegum litum en Gísli segir að stelpurnar velji frekar litina. „Þær eru litaglaðari en strákarnir vilja meira afl til þess að geta spilað tölvu- og netleiki. Þeir velja þá frekar dýrari vélar. Það hefur færst í vöxt að yngri notendur vilji annan lit eða mynstur en hins vegar eru svörtu vélarnar að ná fyrri vinsældum sem vekur nokkra athygli. Skýring margra á því er að svartur sé vitanlega mjög klassískur litur á tölvu. Annað sem skiptir fólk miklu máli er rafhlöðuending sem er mismikil milli tegunda og framleiðenda. Þó eru margar nýjar vélar með 8-9 tíma rafhlöðuendingu en það fer hins vegar eftir því hvernig rafhlaðan er notuð hvort hún endist eins vel og ætlast er til. Lenovo hefur þróað stillingu sem nefnist Battery stretch sem gerir notanda kleift að fá nokkrar aukamínútur með því að slökkva á orkufrekum hlutum vélarinnar. Með slíkri stillingu er hægt að framlengja rafhlöðuendingu um að minnsta kosti 15 prósent.“