Hödd Vilhjálmsdóttir
Hödd Vilhjálmsdóttir
Eftir Hödd Vilhjálmsdóttur: "Reiði fólks er skiljanleg, en einhvern tímann verður að láta af henni og einnig þeirri hefndarhugsun sem er ríkjandi um þessar mundir."

NÚ FER sumarið senn að taka enda. Sumar sem einkenndist af sólargeislum er komu líkt og himnasending til langþreyttra og sorgmæddra Íslendinga. Sumar sem fyrir marga einkenndist af ringulreið, vonleysi, sárindum og oft heift varð eilítið léttbærara af þeim sökum einum að veðurguðirnir ákváðu að standa við bakið á þegnum þessarar litlu, en jafnframt mögnuðu þjóðar og læða að henni birtu og blíðu.

Mögnuð er þjóðin vegna einstaklinganna sem hún geymir – ólíkra einstaklinga sem eru drifnir áfram af mismunandi hvötum, en eiga það þó sameiginlegt að vilja búa við öryggi í sínu landi. Öll vitum við að undanfarið ár hefur verið erfitt og ætti okkur öllum að vera orðið ljóst að slagurinn er ekki búinn. Til þess að við getum staðið uppi sem sigurvegari og búið börnum okkar bjarta framtíð verðum við að leggjast á eitt og vinna að þessu verkefni í sameiningu. Til þess að svo megi verða þurfum við að hysja upp um okkur brækurnar, hafa náungakærleikann hugfastan og minna okkur reglulega á það að á bakvið hvern einstakling er fjölskylda. Þótt enginn maður sé yfir gagnrýni hafinn ber okkur öllum sú siðferðislega skylda að virða einkalíf annarra og sýna náunganum lágmarkskurteisi. Væri til dæmis ekki nær fyrir þá „þjóðernissinna“ sem eyða orku sinni í að skvetta málningu á heimili umdeildra aðila og fjölskyldna þeirra, rota „útrásarvíkinga“ og hanga tímunum saman á netinu mokandi skít yfir mann og annan, í skjóli nafnleyndar, að gera eitthvað uppbyggilegt? Þeir sem eru í því að skvetta málningu á heimili fólks ættu frekar að kaupa sér striga – mála eitthvað fallegt – láta bjóða upp verkið og láta svo ágóðann renna til þeirra sem minna mega sín. Þeir sem eru í því að rota „útrásarvíkingana“, ættu frekar að nýta kraftana í að læra sjálfvarnaríþróttir, halda svo námskeið fyrir börnin okkar, sem með þessu áframhaldi munu svo sannarlega þurfa á því að halda. Svo eru það þeir sem í skjóli nafnleyndar úthúða öðrum á netinu og þykjast vita betur en allir sérfræðingar og ráðamenn þjóðarinnar – þeir ættu kannski að minnka netnotkunina og leyfa okkur hinum að njóta þeirrar visku og þeirra krafta sem þeir búa yfir og leggja þannig sitt af mörkum til að reisa þjóðarskútuna við... Við þurfum jú á öllum kröftum að halda.

Reiði fólks er skiljanleg, en einhvern tímann verður að láta af henni og einnig þeirri hefndarhugsun sem er ríkjandi um þessar mundir. Reiðin er lýjandi og villir okkur sýn og eins og Eleanor Roosevelt sagði „Anger is one letter short of danger“. Ég mæli því með að við berjum okkur á brjóst og förum saman inn í haustið með vonarbros – stöndum á rétti okkar og tökum ákvarðanir sem koma í veg fyrir að afkomendur okkar súpi seyðið af græðgi nokkurra aðila og af illa gerðum samningum. Okkur ber að nýta öll vopn í vopnabúrinu og eru samhugur, jákvæðni, samstaða og kjarkur, mjög svo mögnuð vopn sem eiga eftir að nýtast okkur mjög vel.

Því ber þó að halda til haga að ef einhverjir hafa til saka unnið í aðdraganda og/eða kjölfar efnahagshrunsins eiga hinir sömu að sjálfsögðu að gjalda fyrir það. Þar sem við Íslendingar búum blessunarlega í réttarríki höfum við þar til bæra dómstóla til að kveða upp þann dóm.

Höfundur er laganemi.

Höf.: Hödd Vilhjálmsdóttur