Listakennsla Listaháskóli Íslands býður upp á áhugavert meistaranám í listkennslu sem miðar að því að þjálfa listafólk til kennslu.
Listakennsla Listaháskóli Íslands býður upp á áhugavert meistaranám í listkennslu sem miðar að því að þjálfa listafólk til kennslu. — Morgunblaðið/Kristinn
Í Listaháskóla Íslands, sem stofnaður var árið 1998, má finna alls kyns áhugaverðar námsleiðir fyrir þá sem vilja reyna fyrir sér í sköpun, myndlist, fatahönnun og fleira.

Í Listaháskóla Íslands, sem stofnaður var árið 1998, má finna alls kyns áhugaverðar námsleiðir fyrir þá sem vilja reyna fyrir sér í sköpun, myndlist, fatahönnun og fleira. Það er heldur ekki slæmur staður til að vera á því samkvæmt útskrifuðum nemendum skólans nýtist námið þeim vel en það kom fram í rannsókn sem framkvæmd var síðasta vetur. Þátttakendur voru beðnir um að leggja mat á nám sitt í Listaháskólanum og taldi mikill meirihluti námið hafa nýst þeim vel í verkefnum og störfum en könnunin var lögð fyrir nemendur sem útskrifuðust árið 2003 og 2006.

Listafólk til kennslu

Í Listaháskólanum er meðal annars boðið upp á einkar áhugavert meistaranám í listkennslu sem miðar að því að þjálfa listafólk til kennslu ásamt því að efla með því færni og fræðilegan grunn til að miðla þekkingu sinni á ólíkum vettvangi og leiða listverkefni bæði innan skólakerfisins og utan þess. Listkennslunámið er fjölbreytt nám sem byggist á námskeiðum í valinni listgrein, kennslu-, uppeldis- og sálarfræði, heimspeki og félagsfræði samhliða þjálfun í kennslu og miðlun listgreinar á vettvangi. Eitt af markmiðum námsins er að mæta brýnni þörf fyrir öfluga og vel menntaða listgreinakennara á öllum skólastigum og hvetja til samvinnu og umræðu um listgreinakennslu.

Kennsla í víðu samhengi

Í náminu er áhersla lögð á að nemendur öðlist skilning og þekkingu á starfi kennarans, bæði fræðilega og á vettvangi. Þeir geti skipulagt nám og námsþætti út frá námskrám grunn- og framhaldsskóla og valið námsgögn, námsaðferðir og matsaðferðir við hæfi. Kennsla og miðlun eru einnig skoðuð í víðara samhengi og nemendur hvattir til að setja fram eigin sýn og hugmyndir um listnám og námsframboð í samfélaginu.

Námið er 120 einingar eða fjögurra anna fullt staðnám. Nemendur geta tekið námið á lengri tíma en þó ekki lengur en á átta önnum.